Newsweek birti á dögunum lista yfir 100 bestu þætti allra tíma. Ekki þáttaraðir, heldur staka þætti. Miðast var við einkunnakerfi IMDb, en því hærri einkunn sem þættirnir fá á þeirri síðu, því hærra komust þeir á listann. Bæði Game of Thrones og Breaking Bad áttu marga þætti á lista Newsweek, til að mynda voru efstu sex þættirnir á listanum allir þaðan. Við Íslendingar getum þó verið stolt, þar sem að einn þáttur af Latabæ, komst á listann og það í tuttugasta sæti.
Þátturinn sem um ræðir ber nafnið Robbie’s Dream Team, sem mætti útleggja sem Draumalið Glanna Glæps. Hann hefur hlotið einkunnina 9.9 í einkunn á IMDb, sem byggir á 5,602 atkvæðum. Líkt og flestir vita er Latibær hugverk Magnúsar Scheving, sem er einnig titlaður leikstjóri þáttarins.
Í þessum tiltekna þætti má sjá eitt allra eftirminnilegasta atvik Latabæjar, en það er lagið We Are Number One, sem tröllreið alnetinu um tíma og varð að svokölluðu meme-i. Atriðið skartaði auðvitað Stefáni Karli Stefánssyni heitnum, sem fór eftirminnilega með hlutverk Glanna Glæps.
Newsweek lýsir þættinum svona:
„Næst síðasti þáttur seríunnar innihélt lagið We Are Number One, sem varð gífurlega vinsælt á netinu og varð viðfang nokkurra paródía, auk þess sem það varð meme-i á internetinu. Í þættinum reyna Glanni og þrjár hjálparhellur hans að losna við Íþróttaálfinn. Stefán Karl Stefánsson, sem lék Glanna Glæp lést árið 2018, eftir baráttu við krabbamein.“
Hér má sjá lagið eftiminnilega: