Kristín Tómasdóttir hjónabandsráðgjafi svarar spurningum lesenda um málefni er varða fjölskylduna, börnin og ástina í Fjölskylduhorni DV. Að þessu sinni svarar Kristín spurningu lesanda þar sem heimilisþrifin eru endalaus höfuðverkur.
Sæl, Kristín. Við erum fjögur í heimili og mjög mismunandi hvernig fólk gengur um. Ég og sonur okkar virðumst vera snyrtipinnarnir í fjölskyldunni en maðurinn minn og dóttir okkar algjörir sóðar. Mér finnst ég alltaf vera að taka til en maðurinn minn tekur engan þátt, og finnst ekkert óhreint hjá okkur þegar ég er að bilast út af drasli. Þá hefur okkur gengið illa að innleiða reglur um þrif og snyrtimennsku í herberginu hjá öðru barninu. Ertu með ráð fyrir fjölskyldur þar sem skítastuðullinn svokallaði er mismunandi eftir fjölskyldumeðlimum?
Undirliggjandi vandi?
Sælar.
Takk fyrir klassíska og góða spurningu. Ég er alltaf svo hrifin af því ef við getum leyst fjölskylduvanda með praktískum lausnum og oft er það fyrsta skrefið. Þegar praktísku málin eru leyst þá getur það gerst að annar vandi komi skýrar í ljós.
Það sem ég á við er að ef þið leysið tiltektarvandann þá gæti það varpað ljósi á að grunnvandinn snýr að tilfinningalega samskiptalegum þáttum. Getur verið að þegar þú ert að „bilast“, þá liggi rótin að ólgunni í viðbrögðunum eða ósamstöðunni á heimilinu frekar en óhreinindum eða óreiðu? Það gæti verið áhugavert að skoða það áður en við brettum upp ermar, hjólum í excel-skjöl og þvottadaga.
Mig vantar pínu að vita aldur barnanna þinna því þroski og geta þurfa að fara saman við kröfur sem við gerum til barnanna varðandi skipulag og tiltekt. Ég ætla að gera ráð fyrir að þau hafi öðlast slíkan þroska (eldri en 11 ára) og að þú getir haft ákveðnar væntingar til þeirra. Ef um fullorðin börn er að ræða (18- 24 ára) þá liggur vandinn oft í því hvað þau hafa „komist upp með“ en margir vilja meina að börn læri ekki almennilega inn á skítastuðul sinn og hugmyndir sínar um tiltekt fyrr en þau flytja að heiman og ábyrgðin verður öll þeirra.
Praktískar lausnir
Að þessu sögðu, þá get ég lagt til nokkrar praktískar lausnir sem gætu hert einhverjar skrúfur en mig grunar að þú sért búin að prófa þetta allt saman.
Ég hef séð að aðkeypt aðstoð við þrif á heimilinu einu sinni í mánuði, jafnvel tvisvar, geti komið í veg fyrir stærstu árekstrana. Þá er auðveldara að halda við og taka einstaka staði í nefið (þrífa eldhúsinnréttinguna) þegar þess þarf.
Ég geri mér fulla grein fyrir því að slík aðstoð kostar peninga en það er líka tíma- og orkufrekt að deila um þessi mál og sumir velja að vinna aukalega fyrir kostnaði (ef það er í boði) í staðinn fyrir að sjá um þrifin sjálf. Mér er einnig kunnugt um að skipulagsþjónusta á heimilum sé orðin vinsæl þjónusta og auðveldi við að halda öllu í röð og reglu.
En að einfaldari lausnum. Sumum hefur reynst vel að halda fjölskyldufund. Tína til og skrifa niður allt sem þarf að gera á heimilinu og svo mega fjölskyldumeðlimir merkja við það sem þeir vilja bera ábyrgð á. Nokkuð jöfn skipting og viku frestur til þess að klára verkefnin getur komið í veg fyrir rifrildin. Ég hef þó séð dæmi þess að svona fyrirkomulag gangi í einhvern tíma en krefjist aðhalds sem gæti endað með svipuðum hætti og staðan hjá ykkur fjölskyldunni er hvort eð er í dag.
Að velja orrusturnar sínar
Og svo ég tali nú í hringi, þar sem ég var að enda við að segja þér að skipta verkefnum jafnt, þá virkar „debet og kredit hugsun“ illa í heimilishaldi. Það merkir að það er erfitt að vega og meta hvað hver og einn fjölskyldumeðlimur þarf að gera svo það teljist til „jafnrar“ þátttöku í heimilishaldinu. Þarna gildir að finna þá lausn sem hentar ykkur og kemur í veg fyrir togstreituna á heimilinu í kringum tiltekt. Sumir velja að senda alla út einu sinni í viku og taka alla hreingerninguna sjálf. Þá gefst að minnsta kosti friður til að þrífa án þess að pirra sig á því að enginn annar geri neitt.
Ég hlustaði á viðtal við Sindra Sindrason fjölmiðlamann sem sagðist gera þetta á hverjum föstudegi eftir vinnu, hans heilaga stund með góða tónlist og jafnvel vínglas. Kannski gætuð þið mæðginin átt skemmtilega mæðgna snyrtipinnastund hálfsmánaðarlega þar sem þið rekið sóðana út? Auðvitað skil ég þó mæta vel að það er ekki lausnin sem þú ert að kalla eftir, það er, að gera þetta allt sjálf en ég er bara að benda á að það getur stundum borgað sig að „velja sér orrusturnar“.
Að lokum, börn læra það sem gert er fremur en það sem sagt er. Staðreynd sem ætti að ýta við manninum þínum. Ef hann tekur aldrei þátt í heimilisþrifum þá veit dóttir þín að það er hegðun sem er viðurkennd og í boði. Það gæti því verið hjálplegt fyrir ykkur hjónin að ræða saman um þennan vanda sem upp er kominn, jafnvel fá utanaðkomandi ráðgjöf til að finna lausnir á samskiptunum í tengslum við þrifin. Með því að auka hans þátttöku gæti dóttirin fylgt með. Svo bara „gera mikið skemmtilegt og lítið leiðinlegt“, ótrúlegt hvað það virkar oft vel!
Við hvetjum lesendur til að senda spurningar og vangaveltur sínar til Kristínar í tölvupósti á: hjonabandssaela@gmail.com.
Spurningunum verður svo svarað hér í Fjölskylduhorninu, að sjálfsögðu nafnlaust og í fullum trúnaði.