Í bandaríska smábænum Weatherford í Texas bjuggu þau Kraig og Karen Kahler við vellystingar og forréttindi. Hjónin áttu nægan pening og voru heillandi og vinsæl meðal nágranna sinna. En undir yfirborðinu leyndust óhugguleg vandamál.
Kraig og Karen kynntust í háskóla þegar Kraig var á lokaárinu sínu en Karen var busi. Bæði voru þau metnaðargjörn og samnemendur þeirra lýstu þeim sem afar skörpum einstaklingum. Tveimur árum síðar voru þau búin að gifta sig og eignast fyrsta barnið sitt, stúlku sem fékk nafnið Emily. Karen og Kraig virtust vera yfir sig ástfangin og Karen sagðist njóta þess að gera eiginmann sinn hamingjusaman.
Nokkru síðar fluttu þau í Weatherford í Texas eftir að Kraig var boðið gott starf þar. Hjónin fluttu ásamt dóttur sinni í smábæinn og eignuðust þar tvö börn til viðbótar, dótturina Lauren og soninn Sean.
Ekki er allt gull sem glóir
Fjölskyldan varð fljótt vinsæl í smábænum. Dæturnar stofnuðu hljómsveit með vinum sínum í bænum og Karen var sögð skemmtileg og hug-myndarík. Þá sagði besti vinur Kraig, Victor Holtorf, að samband Kraig og Karenar væri það sem allir í bænum miðuðu sín sambönd við.
Systir Karenar var því hissa þegar Karen sagði henni að samband hennar og Kraig væri ekki jafn gott og allir héldu. Karen sagði systur sinni frá öllu því fáránlega sem eiginmaður hennar bæði hana um. Hún sagði Kraig krefjast þess að stunda kynlíf öll kvöld á slaginu klukkan 8 auk þess sem hann gaf henni útivistartíma. Þá sagði Karen að kynlífið væri orðið eins og hvert annað húsverk fyrir henni og að það væri það sem héldi hlutunum góðum á heimilinu.
Kraig gaf eiginkonu sinni vasapeninga og fylgdist grannt með því í hvað þeir fóru. Hann krafðist þess að sjá kvittanir fyrir öllu sem hún keypti, meira að segja kvittanir fyrir hversdagslegum hlutum eins og bleyjum og morgunkorni.
Átti eftir að breyta lífi hennar
Karen leið eins og hún væri í fangelsi á sínu eigin heimili. Í kjölfarið fór hún að stunda líkamsrækt af krafti til að fá útrás. Hún vissi að Kraig myndi ekki láta hana fá peninga fyrir aðild að líkams-ræktinni og því safnaði hún sér sjálf fyrir henni með því að baka og selja kökur.
Karen sló í gegn á líkamsræktarstöðinni og var ráðin sem þjálfari. Kraig samþykkti þetta nýja starf hennar með því skilyrði að hún kæmi heim á réttum tíma til að hugsa um börnin.
Á líkamsræktarstöðinni hitti Karen Sunny Reece, konu sem átti eftir að breyta lífi hennar til frambúðar. Karen og Sunny urðu fljótt óaðskiljanlegar og ástin var skammt undan.
Vildu ekki trekant
Það eru ekki allir sammála um það hvernig samband þeirra Karenar og Sunny byrjaði. Sumir vilja meina að Kraig hafi kynnt þær fyrir hvor annarri í von um að stunda trekant með þeim. Aðrir segja að Kraig hafi ýtt undir hugmyndir um trekant þegar hann sá að þær voru orðnar nánir vinir. Sunny vill hins vegar sjálf meina að Kraig hafi gengið svo langt að senda henni blóm og skilaboð í von um að stunda trekant með henni og Karen. Hún og Karen neituðu þó að taka þátt í trekanti með honum en á sama tíma varð samband þeirra tveggja nánara.
Kraig hélt upphaflega að konan hans væri að ganga í gegnum eitthvað tímabil og að hún myndi fljótlega missa áhugann á samkynhneigðinni. Það gerðist hins vegar ekki og fannst Kraig þetta allt saman vera komið úr böndunum. Kraig ákvað því að taka málið í sínar eigin hendur og taldi það vera best að flytja úr bænum. Karen var ósátt við að flytja en Kraig var alveg sama. Að lokum flutti fjölskyldan til Missouri og vonaðist Kraig að með því væri bundinn endi á samband Karenar og Sunny. Samband þeirra tók hins vegar ekki enda heldur hélt það einfaldlega áfram í gegnum tölvupósta, símtöl og heimsóknir.
Njósnir og skemmdarverk
Í lok ársins sem Kraig og Karen fluttu til Missouri fóru þau aftur til Weatherford til að fagna nýja árinu með gömlum vinum. Sunny var einnig gestur í gleðskapnum. Seinna um kvöldið sáust þær Sunny og Karen kyssast og var samband þeirra því orðið opinbert fyrir vinum þeirra og vandamönnum. Kraig skammaðist sín vegna þessa og reifst heiftarlega við eiginkonu sína. Fljótlega eftir veisluna vildi Karen skilja við eiginmann sinn.
Næstu mánuðir áttu eftir að verða erfiðir. Skilnaður-inn gekk illa og rifust hjónin mikið. Kraig var handtekinn vegna gruns um heimilisof-beldi og í kjölfarið flutti Karen út og tók börnin þeirra með sér. Kraig var fljótlega látinn laus en hann hafði lítinn áhuga á að hitta dætur sínar aftur en vildi þó fá son sinn til að heimsækja sig. Hann treysti ekki konunum í fjölskyldunni og fannst þær vera búnar að svíkja sig.
Á næstu mánuðum varð Kraig haldinn þráhyggju gagnvart eiginkonu sinni. Hann fór að elta hana, njósna um hana, hleypa loftinu úr dekkjunum á bílnum hennar og síðan setti hann njósnabúnað í tölvuna hennar. Kraig var hættur að geta hugsað um vinnuna sína og hann var því rekinn í kjölfarið. Þarna var Kraig orðinn 48 ára gamall, búinn að missa bæði vinnuna og fjölskyldu sína. Hann neyddist því til að flytja inn til foreldra sinna.
„Ég klúðraði, ég klúðraði“
Þegar þakkargjörðarhátíð bar að garði seinna á árinu var Karen hjá systur sinni ásamt Sunny og dætrum sínum. Sean var hins vegar hjá pabba sínum. Karen vildi að öll fjölskyldan myndi heimsækja ömmu sína um helgina og því fór hún daginn eftir að sækja Sean til fyrrverandi eiginmanns síns. Karen fór síðan með öll börnin til ömmu sinnar.
Um kvöldmatarleytið gekk Kraig inn til ömmu Karenar, án þess að láta vita af sér. Hann skaut fyrrverandi eiginkonu sína, ömmu hennar og dætur sínar tvær. Hann skaut sjö skotum sem fóru öll þangað sem þau áttu að fara. Öll fórnarlömbin létust samstundis fyrir utan ömmuna sem lést nokkrum dögum síðar á sjúkrahúsi.
Kraig fannst skömmu síðar úti í vegkanti þar sem hann virtist vera illa áttaður. „Ég klúðraði, ég klúðraði,“ segir lögregluþjónn að Kraig hafi sagt eftir að þeir handtóku hann. Í bílnum hans fundust meiri skotfæri auk kvíðalyfja.
Situr nú á dauðadeild
Fyrir dómi reyndi Kraig að fá sig úrskurðaðan ósakhæfan vegna geðveilu. Rök hans fyrir því voru sú að hann hefði misst vitið vegna ástarsambands Karenar og Sunny. Þá voru kvíðalyfin og það að hann reyndi ekki að hylma yfir morðið einnig notuð sem sönnun fyrir geðveikinni. Saksóknarinn mótmælti þessu og sagði að Kraig hefði skipulagt morðið gaumgæfilega. Hann benti einnig á að öll skotin sem Kraig skaut hefðu farið í fólkið.
Það að Kraig drap hvorki sig né son sinn voru líka rök gegn því að hann væri í raun geðveikur. Saksóknarinn náði að sannfæra kviðdóminn og að lokum var Kraig dæmdur til dauða. Hann situr nú á dauðadeild og bíður eftir niðurstöðu áfrýjunar á málinu.