fbpx
Miðvikudagur 22.janúar 2025
Fókus

Tímavélin – Hinn „saklausi“ Kio Briggs var eftirlýstur á Bretlandi í ágúst 2020

Erla Dóra Magnúsdóttir
Sunnudaginn 6. desember 2020 21:00

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Ungur Breti kom til Íslands þann 1. september 1998, sem væri varla í frásögur færandi nema fyrir þær sakir að í fórum hans fundust rúmlega tvö þúsund e-pillur. Umræddur maður var Kio Alexander Ayobambele Briggs, betur þekktur sem Kio Briggs, sem átti eftir að vekja mikla athygli í íslensku samfélagi næsta árið.

Gerði lögreglu viðvart

Þann 31. ágúst 1998 hringdi Íslendingurinn Guðmundur Ingi Þóroddsson í lögregluna á Íslandi og gerði henni viðvart um að væntanlegur væri til landsins þrekvaxinn, svartur maður með mikið magn fíkniefna meðferðis. Guðmundur þessi vissi að upplýsingarnar voru áreiðanlegar, enda hafði hann sjálfur séð fíkniefnin í farangri Kio Briggs, auk þess sem hann sjálfur stuðlaði að því að Kio Briggs kom til landsins, en Guðmundur hafði keypt fyrir hann farmiðann og skutlaði honum á flugvöllinn.

Í staðinn fyrir upplýsingarnar vonaðist Guðmundur eftir að geta samið um ívilnun í sakamáli sem var rekið gegn honum á Íslandi á þeim tíma.

Ekki reyndist lögreglu erfitt að bera kennsl á Briggs á flugvellinum, enda hafði Guðmundur gefið þeim greinagóða lýsingu.

Risinn með of stórar buxur

Briggs var ekki klyfjaður farangri, hann hafði meðferðis eina Nike-tösku sem hafði að geyma nokkrar efnislitlar flíkur, ekki beint klæðnað fyrir íslenska haustið sem þá var gengið í garð. Ekki hafði Briggs með sér peninga heldur, utan einhverra smáaura. Í stuttbuxum í farangri hans fundust teikningar af flugvellinum þar sem merkt var hvar löggæslu væri að finna, já og rúmlega tvö þúsund e-pillur. Grunur um smygl virtist á rökum reistur og Briggs var úrskurðaður í gæsluvarðhald.

Kio sagðist vera óhamingjusamasti maður í heimi. Mynd/Timarit.is

Dreymdi um pláss á togara

Briggs neitaði ávallt sök. Hann sagði að Guðmundur hlyti að hafa komið e-pillunum fyrir í íþróttatöskunni þegar Briggs sá ekki til.  Briggs sagðist nefnilega vera heiðarlegur maður sem hefði aldrei neytt fíkniefna. Þaar að auki þess kannaðist hann ekkert við þær stuttbuxur sem teikningin hafði fundist í og sagði þær of stórar á sig, tveggja metra háan manninn.

Briggs sagðist hafa komið til landsins í heiðarlegum tilgangi. Hann hefði heyrt að það væri hægt að þéna vel á sjómennsku og því hefði hann ákveðið að ráða sig á togara. Lögreglu þótti það hæpin skýring í ljósi þess að í farangri Briggs var ekki að sjá fatnað sem hentaði á sjó, heldur fremur á ströndina. Briggs skýrði það svo að hann hefði reiknað með að fá hlífðarfatnað á þeim togara sem myndi ráða hann, auk þess hefði hann ekki viljað fjárfesta í hlýjum fötum ef hann yrði svo sjóveikur og gæfist upp á sjómennskunni.

Frægðarsól Briggs rís

Það fór svo að Briggs var dæmdur sekur í héraðsdómi og gert að sæta sjö árum í fangelsi. Hann áfrýjaði dómnum og þá færðist fjör í leika.

Hæstiréttur vísaði málinu aftur til héraðsdóms og ekki þótti rétt að halda Briggs í gæsluvarðhaldi á meðan málið var tekið fyrir að nýju. Þegar þarna var komið voru um 8 mánuðir liðnir frá því að Briggs kom fyrst til Íslands.

„Kio Briggs gerðist nú heilmikil fjölmiðlastjarna á Íslandi í nokkrar vikur. Ótal viðtöl voru tekin við hann og vöktu þau mikla athygli. Maðurinn var enda fjallmyndarlegur og tilfinningaríkur með ágætum og ekki laust við að ýmsir hrærðust til meðaumkunar þegar hann lýsti því fjálglega hve kramið hjarta hans væri yfir því að hafa setið svo lengi saklaus í fangelsi,“ segir í bókinni Ísland í aldanna rás.

Sakleysið og traustið veikleiki

Briggs varð áberandi í íslensku skemmtanalífi og birtist reglulega á síðum blaða sem greindu frá því hverjir voru hvar. Briggs var líka duglegur að mæta í viðtöl og greina frá þeirri hryllilegu reynslu að hafa verið sviptur frelsinu.

„Ég bjóst náttúrulega aldrei við þessu veseni öllu saman. Einn mesti veikleiki minn er að ég er frekar saklaus og treysti fólki auðveldlega svo þegar Guðmundur bauð mér að koma til Íslands og búa hjá sér þá dreif ég mig bara. Ég bjóst ekki við því að hann væri með einhver önnur plön í höfðinu,“ sagði Briggs í samtali við DV skömmu eftir að hann var leystur úr haldi.

„En uppskeran af því að treysta fólki er að ég hef eytt rúmum átta mánuðum af ævinni í fangelsi. Og enginn á þessari jörð getur gefið mér þann tíma aftur. Stórum hluta þessa tíma var eytt í einangrun og það er ekkert smá gott að vera frjáls. Ég tek ekkert í lífinu sem sjálfsagðan hlut eftir þessa lífsreynslu. Hvert skref sem ég tek er mér mikils virði og á hverju kvöldi geng ég um höfnina og anda að mér sjávarloftinu. Skoða skipin og þau eru galdri líkust eftir að ég kom út. Allar píurnar eru ótrúlega fallegar í mínum augum, fólkið vinalegt og allur matur smakkast dásamlega. Ég meina, það er ekkert til neitt verra en að lifa í búri.“

Kio var feginn þegar honum var sleppt úr haldi á Íslandi Mynd/Timarit.is

Engill og fiskur

Þegar þarna var komið sögu sagði Briggs að hann treysti því að réttlætið myndi sigra, og að réttlætið væri að hann, saklaus maðurinn, yrði dæmdur sýkn allra saka.

„Ég er vegabréfslaus og flýg hvorki burtu eins og engill né syndi frá landi eins og fiskur. Ég ætla að reyna að fá mér vinnu á meðan ég bíð eftir því hvernig framhald málsins fer – niðri á bryggju eða jafnvel á sveitabæ þar sem fólk þarf á aðstoð að halda hjá manni sem er vanur vinnu. Síðan vonast ég til að hitta son minn, Seth, sem er þriggja ára. En því miður er þetta mál búið að eyðileggja hjónaband mitt og móður hans,“ sagði Briggs við DV í maí 1999, en hann var dæmdur í farbann á meðan mál hans var enn fyrir dómstólum.

Fór svo að héraðsdómur sýknaði Briggs og sýknan var svo staðfest af Hæstarétti. Var þar talið að ekki væri hægt að slá því á föstu að Briggs hefði vitað að efnin voru í tösku hans. Eins fannst dómurum ólíklegt að Briggs, svartur og þrekvaxinn, hefði talið sig komast í gegnum öryggisgæslu á flugvellinum án þess að vekja eftirtekt.

Saklausi maðurinn sekur

Málinu var því lokið og Briggs hinn myndarlegi virtist saklaus. Jafnvel bara einlægur og guðhræddur maður með ævintýraþrá sem hafði villst inn í slæman félagsskap. Það héldu í það minnsta einhverjir, en þó ekki lengi. Blekið var varla þornað á nýfelldum dómi Hæstaréttar þegar fregnir bárust af því að Briggs hefði verið handtekinn í Danmörku. Og fyrir hvað ætli það hafi verið? Nú hann var gripinn með um 800 e-pillur í fórum sínum.

Síðan þá hefur ekki mikið til Briggs spurst. Hann komst upp á kant við lögin í Madrid 2014 og 2015, en margir Íslendingar hafa greint frá því að hafa rekist á hann við dyravörslu á Spáni. Hann hefur eitthvað brugðist sér til Bretlands því að í ágúst á þessu ári lýsti lögregla þar í landi eftir honum. Hann átti að mæta til afplánunar í fangelsi en hafði hlaupist undan því.

Guðmundur Ingi, Íslendingurinn sem keypti farmiðann fyrir Briggs, hélt um sinn áfram að komast í kast við lögin en hefur í dag snúið við blaðinu og berst fyrir réttindum fanga sem formaður Afstöðu, félags fanga.

Kio Briggs var eftirlýstur á Bretlandi fyrr á þessu ári

 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fókus
Fyrir 3 dögum

14 merki þess að veitingastaðurinn er slæmur

14 merki þess að veitingastaðurinn er slæmur
Fókus
Fyrir 3 dögum

Ragna á von á barni

Ragna á von á barni
Fókus
Fyrir 4 dögum

Vissi að hjónabandið væri dauðadæmt þegar eiginmaðurinn sagði þessi tvö orð í brúðkaupinu

Vissi að hjónabandið væri dauðadæmt þegar eiginmaðurinn sagði þessi tvö orð í brúðkaupinu
Fókus
Fyrir 4 dögum

Taylor Swift sogast inn í stóra Hollywood-dramað – „Ég er Khaleesi og eins og hún þá vill svo til að ég á nokkra dreka“

Taylor Swift sogast inn í stóra Hollywood-dramað – „Ég er Khaleesi og eins og hún þá vill svo til að ég á nokkra dreka“