fbpx
Sunnudagur 26.janúar 2025
Fókus

Byltingarsinnaði bakarinn – Opnaði pitsastað í COVID og lagði allt undir, ævisparnaðinn og húsið

Erla Dóra Magnúsdóttir
Sunnudaginn 6. desember 2020 20:30

Mynd/Ernir

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Þórarinn Ævarsson, fyrrverandi framkvæmdastjóri IKEA, hefur lengi barist fyrir lægra vöruverði hérlendis og er óhræddur við að taka slaginn. Í dag rekur hann pitsastað með sinni beittu hugmyndafræði og leggur allt undir, ævisparnaðinn og húsið

„Ég er með lágt verð á heilanum,“ segir Þórarinn Ævarsson við blaðamann þar sem við sitjum á skrifstofu hans á pitsustaðnum Spaðanum í Kópavogi. Það vakti athygli fyrir rúmu ári þegar tilkynnt var að Þórarinn hefði sagt starfi sínu sem framkvæmdastjóri IKEA lausu, eftir 14 ár í starfi. IKEA hafði þó djúpstæð áhrif á hann. Bæði má merkja það af skrifstofu hans, þar sem má finna klassískar IKEA-gersemar á borð við Billy-bókahilluna sem og í hugmyndafræðinni sem hann þróaði fyrir Spaðann – einfaldleiki, lágt verð og gott samband við viðskiptavininn.

Mynd/Ernir

Skref niður á við

Þórarinn er menntaður bakari, en fyrir tæpum tuttugu árum ákvað hann að söðla um og tók við starfi hjá nýjum pitsustað á Íslandi, Domino’s. Fyrst sem rekstrarstjóri og síðar sem framkvæmdastjóri. Á þeim tíma þótti það mikið skref niður á við fyrir menntaðan bakara að fara að starfa við pitsubakstur. Þórarinn fékk þó rými til að koma góðum hugmyndum í framkvæmd, hugmyndum sem enn í dag setja mark sitt á fyrirtækið.

„Þegar GSM-símarnir voru orðnir útbreiddir þá var Domino’s að nota tölvukerfi þar sem pantanir birtust á skjá. Um leið og búið var að gera pöntunina þurfti að slá hana af skjánum með því að ýta á biltakkann á lyklaborðinu. Ég fékk þá hugmynd hvort ekki væri hægt að skrifa forrit þannig að þegar pöntunin er slegin af skjánum þá fengju viðskiptavinir SMS um að pitsan þeirra væri í ofninum. Á þessum tíma var venjulega umferðaröngþveiti fyrir utan Domino’s. Sumir voru að koma of snemma að sækja pitsur en aðrir of seint á meðan pitsan þeirra var að kólna. Þetta var eiginlega bara ófremdarástand og lítið hægt að gera í því. Eftir að sms-in fóru af stað þá breyttist þetta. Þjónustustigið gjörbreyttist og batnaði með nánast engum tilkostnaði.“

Eins er Þórarinn maðurinn á bak við hina frægu Megaviku á Domino’s sem hefur án efa létt undir með mörgum fjölskyldum í landinu.

Sagt upp í fæðingarorlofi

Árið 2005, þá í fæðingarorlofi, ákvað Þórarinn að segja starfi sínu lausu eftir að nýir eigendur tóku við Domino’s. Meðal eigenda var félagið fræga Baugur, sem Þórarinn hafði illar bifur á. Hann tilkynnti því eigendum að hann ætlaði ekki að snúa aftur til starfa að fæðingarorlofi loknu. Eigendurnir brugðust þá við með því að reka Þórarinn.

„Sem er kolólöglegt og þetta endaði með því að ég varð að fara með málið fyrir Hæstarétt, en vann það þar. En þarna þegar fæðingarorlofi mínu er við það að ljúka er mér boðin vinna hjá IKEA sem þá var niðri í Holtagörðum. Mér leist í raun ekkert á það, enda þekkti ég húsgagnabransann ekki neitt. Ég hafði reyndar alveg áhuga á húsgögnum og því að hafa fínt í kringum mig en ég taldi mig ekki rétta manninn í starfið.

Þeir sem buðu mér starfið voru hins vegar mjög sannfærandi og sögðu að ég hefði reynslu af sölu frá Domino’s og IKEA væri bara önnur tegund af sölu. Svo ég sló til og þarna var ég frá 2005-2019 og byggði þar upp, ásamt frábæru fólki, gríðarlega sterkt fyrirtæki sem er umtalað í dag fyrir að vera dálítið mikið öðruvísi en margir aðrir. Og þarna gat ég látið alls konar drauma rætast og fékk að haga mér dálítið eins og óþekkur krakki í dótabúð.“

Þórarinn gat beitt sér fyrir málefnum sem brenna á honum, á borð við umhverfismál, náttúruvernd og jafnréttismál og á meðan Þórarinn var framkvæmdastjóri varð IKEA fyrst á Íslandi til að fá jafnlaunavottun. Þórarinn fékk aftur að koma góðum hugmyndum í framkvæmd og stóð að baki því að bakarí var opnað í versluninni og á heiðurinn af bæði pitsudeiginu og smákökudeigi sem njóta feikilegra vinsælda hjá fyrirtækinu. Og það eru aðeins fáein dæmi um arfleifð Þórarins hjá IKEA.

Gunnari Smára að kenna

Það má segja að brotthvarf Þórarins úr IKEA og tilurð Spaðans megi að einhverju leiti kenna Gunnari Smára Egilssyni, stofnanda Sósíalistaflokksins, um.

„Þú gætir slegið því upp í fyrirsögn – Helvítis kommúnistinn Gunnar Smári olli þessu,“ segir Þórarinn og hlær þegar talið víkur að stofnun Spaðans.

„Fyrir um tveimur árum hafði Gunnar Smári Egilsson farið mikinn á samfélagsmiðlum út af verði á pitsum. Þá höfðu dætur hans beðið um pitsu, hann rétt þeim tvö þúsund krónur og þær bara hlógu. Heimi Karls og Gulla Helga í Bítinu á Bylgjunni fannst þetta áhugavert, vissu að ég þekkti pitsubransann nokkuð vel og buðu mér í viðtal til að ræða um verðlagningu á pitsu.

Ég settist niður að kvöldi og verandi hjá IKEA og með þessi ofboðslegu innkaup sem IKEA er með, þá taldi ég mig vita að ég væri með jafn gott verð og aðrir og því gat ég námundað mig nokkur veginn að hráefniskostnaðinum, eða svona þokkalega nálægt því. Ég var í það minnsta ekki að skjóta út í loftið. Svo vissi ég hvað launin voru mikil. Ég mætti þarna um morguninn með sjóðandi upplýsingar um að það mætti lækka verðið á pitsum um að minnsta kosti svona þúsund krónur en samt haft hagnaðinn í lagi.

Ég sá því frá þessu að það væri svigrúm fyrir einhvern að koma inn á markaðinn og þessi æfing kveikti það mikið í mér að ég ákvað, þá 54 ára gamall, að ég vildi gera eitthvað sjálfur og gerði mér grein fyrir að það væri nú eða aldrei. Svo ég ákvað að segja þetta gott hjá IKEA. Mér fannst líka kominn tími til aðleyfa þessu frábæra fólki sem var undir mér að vaxa upp. En það má segja að ég hafi varanlega skaddast við það að vinna fyrir IKEA. Ég er algjörlega heillaður af hugmyndafræðinni sem þeir hafa verið með ótrúlega lengi þar sem þeir hafa ítrekað og stöðugt lækkað verð til almennings og aldrei fallið í þá freistni að fara út fyrir það.“

Eins hafði Þórarinn þarna nokkra reynslu af því að taka stór skref út í hið ókunnuga. „Ég hætti sem bakari – sem ég var búinn að mennta mig í – til að vinna með pitsur og það reyndist gott skref. Síðan hætti ég í pitsunum og fór að vinna í húsgögnum og það var líka gott skref. Svo maður á ekki að vera hræddur við hið ókunnuga.“

Mynd/Ernir

Spaðinn opnaður í COVID

Þórarinn sagði því skilið við IKEA og í vor opnaði hann Spaðann á Dalvegi í Kópavogi og stendur til að opna annan stað fljótlega í Hafnarfirði.

„Nú er það þannig að flest okkar eiga minni peninga heldur en við viljum. Það á við um nánast alla. Mér hefur þótt það rosalega mikill galli að menn þurfi bókstaflega að hugsa sig alvarlega um áður en þeir fara inn á veitingastað með fjölskylduna, bara ómerkilegan veitingastað til að seðja hungrið, að það kosti nánast það sama og að fylla bílinn af bensíni. Ég ætla að gera þetta á réttan hátt.

Ég ætla að gera þetta með því að stofna til langtímasambands við fólk þar sem fólk kemur og er sátt við það sem það fær. Ég ætla ekki að segja neinum að ég sé bestur, ég ætla að segja þeim að ég sé góður og vona að fólk sé sammála því.

Spaðinn gerir út á einfaldleika, einfaldleiki er ódýr. Það kostar rosalega mikið að vera með ýmis flækjustig. Ég ákvað það til dæmis að taka ekki við peningum, sem að flækir mikið og skapar mikið af óheppilegum hlutum á borð við rýrnun. Svo allt er greitt fyrir fram annaðhvort á netinu, í appi eða í sjálfsafgreiðslustöðvum. Síðan er ég með takmarkaðan opnunartíma en þann sama fyrir hvern dag. Spaðinn er með engin tilboð, sama hvað á dynur. Mér finnst óeðlilegt að menn séu að borga allt annað verð á þriðjudögum heldur en á mánudögum og miðvikudögum. Mér þykir líka mjög sérstakt að verð lækki eftir klukkan níu á kvöldin eins og það er á sumum stöðum í dag.“

Það hvarflaði þó ekki að Þórarni, rétt fyrir opnun Spaðans, að hann væri að fara að opna veitingastað í heimsfaraldri kórónuveirunnar. Þórarinn segir að vissulega hafi það verið, og sé, mikil áskorun. Hann hafi þurfti að stytta opnunartíma og skipta starfsfólki í tvo hópa sem aldrei hittist. Hins vegar sé það til happs að hann rekur pitsustað.

„Pitsan er betur undir þetta búin en flestur annar matur. Ég held að pitsustaður séu kannski helst að halda vopnum sínum af öllum þessum stöðum. Ef ég hefði vitað fyrir fram af þessum faraldri þá er ekkert víst samt að ég hefði haldið því til streitu að opna. Þetta eru mjög sérstakir tímar og það eru margir í mínum geira sem eiga um verulega sárt að binda. Margir sem hafa lagt mikið, bæði fé og tíma, í að byggja eitthvað upp og eru farnir að sjá til lands þegar fótunum er kippt undan þeim.“

Mynd/Ernir

Hinn íslenski neytandi

Talinu víkur að Íslendingum sem neytendum og hvernig þeir eru að standa sig. Íslenski neytandinn, ef það á að lýsa honum, þá er það að hann bölvar í hljóði en kemur aftur eftir viku. Ef við erum óánægð með einhverja hluti þá látum samt sem áður bjóða okkur það ótrúlega lengi og ég held að við höfum séð þetta með hluti eins og þegar Bauhaus kom til landsins. Þá var búið að tala um það mjög lengi að byggingarvörumarkaðurinn væri orðinn of dýr. Svo er vitað með margra mánaða fyrirvara að Bauhaus er að koma. Það sem gerist þá er að byggingarvöruverslanirnar sem voru hér fyrir lækkuðu verðið hjá sér þannig að þegar Bauhaus á endanum var opnað er verðmunurinn ekki það mikill. En Bauhaus er svo gagnrýnt fyrir það.“

Black Friday

Í dag [27. nóvember] er svartur föstudagur, eða Black Friday. Stór afsláttardagur sem Íslendingar hafa tekið upp að bandarískri fyrirmynd. Blaðamaður kemst ekki hjá því að spyrja manninn með lága verðið á heilanum hvað honum finnst um þennan stóra tilboðsdag.

„Hugmyndafræðin með Black Friday, sem kemur frá Bandaríkjunum, er að hleypa jólaversluninni af stað. Og þar snýst þetta um það að þeir eru með takmarkað magn í verslunum af vörum á brjáluðum afslætti, jafnvel 80 prósent. Kannski með raftækjaverslun, Best buy, þeir eru kannski með 300 sjónvörp í hverri verslun sem eru á biluðum afslætti. Þetta eru alvöru afslættir. Maður hefur séð myndbönd af konum að leita sér að brúðkaupskjólum sem slást eins og þær séu komnar í hringinn.

Hér erum við búin að taka þetta og þynna þetta dálítið upp svo allt er orðið Black Friday og kannski bara 10- 30 prósenta afsláttur. Ég skil hugmyndafræðina og skil verslunarmenn sem taka alla daga sem þeir geta, Singles Day, Cyber Monday og Black Friday. En ég tel samt eðlilegra að hlutir séu seldir almennt á eðlilegu verði nema tvisvar á ári eru eldri vörur seldar á útsölu til að rýma fyrir nýjum. Það finnst mér eðlilegasta dæmið. Útsölur til að losna við lager, en ekki setja hluti sem eru í endalausri sölu á útsölu bara svo varan færist aftur á upprunalegt verð eftir útsöluna.

Ég átta mig samt á því að það er ekki meirihluti fólks sem er sammála mér í þessu, en Black Friday, þá áttu að geta gert alveg geðveik kaup en það er bara ekki á Íslandi. Hér heyrir maður jafnvel dæmi þessa að menn hafi hækkað verðin áður en Black Friday kemur til þess svo að lækka verðin enn meira á þeim degi.“

Verstir að setja saman

Eftir fjórtán ár í IKEA hlýtur Þórarinn að vera orðinn nokkuð leikinn með IKEA-sexkantinn og í samsetningu á húsgögnum. Hann segir að vinir og vandamenn hafi nýtt sér það reglulega á meðan hann starfaði hjá IKEA og hringt í hann ef þeir lentu í samsetningarvandamálum.

„Það má segja það og prenta það að þeir sem eru verstir í því að setja saman IKEA-húsgögn eru útlærðir trésmiðir – þeir þurfa náttúrulega engar helvítis leiðbeiningar.“

Þórarinn segir að starfið hjá IKEA hafi kennt honum margt. „Ég get ekki pakkað því saman í eina setningu. Það kenndi mér auðmýkt, hvort sem fólk trúir því eða ekki, en það er einn af hornsteinum IKEA. Það kenndi mér líka það, sem ég hafði reyndar líka tileinkað mér í Domino’s, að vera öðrum fyrirmynd. Hér er ég á fullu að vinna með fólkinu alla daga. Í IKEA byrjaði ég alla daga með minni hægri hönd að ganga hring um verslunina og hirða upp rusl. Þetta er eitthvað sem er feikilega mikils virði og eins og ég sagði ég er aldrei hér í jakkafötum í vinnunni og í IKEA var meira að segja bannað að vera með bindi því fötin áttu ekki að setja upp ósýnilega veggi á milli fólks heldur er enginn merkilegri en annar.“

 

Stoppuðu verðbólguna

Þrátt fyrir sterkar skoðanir á starfsmannamálum og neytendarétti telur Þórarinn að það sé ekki í framtíðinni að sækjast eftir því að verða verkalýðs- eða neytendaleiðtogi.

„Nei, ég hef mjög sterkar skoðanir á verkalýðshreyfingunni. Lengst framan af þá leit ég á þá sem samstarfsaðila. Frægt er það árið 2015 þegar kjarasamningar voru gerðir snemmsumars. Læknar fóru í verkföll og þeir náðu fram hörkusamningum. Svo var samið við almenna vinnumarkaðinn skömmu síðar. Og það verður allt vitlaust út af þessu. Atvinnurekendur hver um annan þveran og seðlabankastjóri lofa okkur tveggja stafa verðbólgu og að allt myndi fara í kaldakol.

Á sama tíma og þetta er að gerast er túristabylgjan að verða að alvöru. Virkileg aukning á milli ára. Krónan er að styrkjast gagnvart öllum helstu miðlum sem er líka gott fyrir allan innflutning og léttir á kröfunni um að hækka. Verðbólgan engin.

Þarna voru allir fulltrúar vinnuveitenda og seðlabankastjóri og ríkisstjórnin með rosalegan bölmóð um að þessi kjarahækkun hefði verið allt of há og allt myndi fara til helvítis.

Ég held það hafi svo verið 19. ágúst þegar tvennt gerist. Annars vegar að Seðlabankinn var með vaxtaákvörðunardag og hins vegar að IKEA kynnti nýjan vörulista. Seðlabankinn var með brjálæðislegan bölmóð og spáði mikilli hækkun á verðbólgu bara strax í desember. IKEA birti heilsíðuauglýsingu þar sem við auglýstum að við værum að lækka til heilsárs, engin ástæða væri til að hækka, verðbólgan væri ekki að fara af stað, krónan væri að styrkjast, atvinnustigið var hátt og inn flæddu túristar. Í einu vetfangi þá sýndum við fram á það að keisarinn var gjörsamlega allsber. Og ég segi þetta bara grjóthart: Við stoppuðum verðbólguna því verðbólgan er bara mannanna verk. Verðbólgan er ekki lögmál heldur afleiðing þess sem við gerum. Það var engin ástæða þarna fyrir hækkun. Þessi launahækkun var bara í samræmi við vöxtinn í efnahagnum.

Það var gengið á Má seðlabankastjóra, sem var eins og algjör auli þarna í sjónvarpsviðtölum og gat ekkert sagt nema að ég væri einhver draumóramaður. En eftir að þetta stóra fyrirtæki IKEA var búið að gera þetta þá gátu menn ekki annað en farið að lækka aftur.

Það sem hefur verið að gerast síðan er það að það hefur átt sér stað ákveðin hallarbylting í verkalýðshreyfingunni og inn eru komnir aðilar sem að sannarlega eru að berjast fyrir verkalýðinn og ég get tekið ofan fyrir Sólveigu Önnu með að það er ekkert að því að berjast fyrir hag þeirra sem lægstu launin hafa en það sem hún er að stinga upp á sem lausn í þessum málum, sósíalismi, það er fullreynt í yfir hundrað ár Það hefur hvergi gengið. Og orðræðan hún er sú að við séum öll að lepja dauðann úr skel nema einhverjir örfáir ríkisbubbar sem eru einhverjir auðvaldseigendur. En staðreyndin er sú að við búum á einu besta landi í heimi og það eru ekki mörg lönd í heiminum sem hafa það betra hvað varðar jöfnuð í tekjum, lífaldri, eða aðgangi að heilbrigði, svo dæmi séu tekin.“

Mynd/Ernir

Ekkert bananalýðveldi

Þórarinn segir að Ísland sé góður staður að búa á og tækifærin hér mörg.

„Við erum með óspilltari stjórnvöld heldur en flestir. Ég er ekki að segja að þetta sé fullkomið. En að láta eins og við búum í einhverju bananalýðveldi þar sem stór hluti þjóðarinnar séu öreigar sem eigi ekki til hnífs og skeiðar á meðan auðvaldið og atvinnurekendur séu upp til hópa glæpamenn – þetta er bara rangt. Að sjálfsögðu eru einhverjir helvítis hálfvitar inn á milli sem stela af starfsmönnum sínum. En ég neita að vera settur á bekk með þeim. Ég er búinn að leggja ævisparnaðinn undir þetta fyrirtæki mitt, ég er persónulega ábyrgur fyrir þeim lánum sem eru hér og ég fer á hausinn – missi húsið mitt – ef þetta gengur ekki upp. Ég neita að láta setja mig á bekk með einhverjum sakamönnum.“

Íslenski draumurinn

Íslenski draumurinn er raunverulegur að mati Þórarins og sé hann sjálfur ágætis dæmi um það. „Það er þannig enn þá með þetta ágæta land okkar að hér hefur fólk sem á ekki neitt, fleiri tækifæri en nokkurs staðar annars staðar. Ég er bara ágætis dæmi um það. Ég er bara einhver bakari og búinn að fá öll þau tækifæri sem ég hef unnið mér inn sjálfur. Það hefur enginn rétt mér neitt. Ég er ekki með neinar tengingar eða skyldur einum né neinum frægum eða ríkum. Bara venjulegur maður úr Kópavogi. Mamma afgreiddi í sjoppu. Það er þannig með fólk sem vinnur fyrir mig, þessa krakka hérna. Það er ekkert verið að fara í manngreinarálit, þau sem standa sig vel, mæta vel og eru heiðarleg hafa öll tækifæri sem eru í boði og það er enn þá þannig land sem við vinnum í.

Ég er byltingarmaður rétt eins og Sólveig Anna, ég vil bara bylta hlutunum öðruvísi en hún. Ég vil bylta þeim með því að opna möguleika fyrir fólk en ekki stýra fólki. Ég elska landið mitt. Ég tel okkur fáránlega heppin sem höfum fæðst hérna en það þýðir ekki að við getum ekki bætt það aðeins. Ég vil geta ferðast milli Akureyrar og Reykjavíkur og stoppað í greiðasjoppu á leiðinni án þess að þurfa að borga 350 krónur fyrir sódavatn. Væri ekki 200 kall bara miklu betra verð? Þá myndi ég líka fá mér pylsu og kannski Prins póló og bland í poka en í staðinn keyri ég bara beint fram hjá.“

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fókus
Fyrir 3 dögum

Verðlaunablaðamaður selur einbýli í grónu hverfi Garðabæjar

Verðlaunablaðamaður selur einbýli í grónu hverfi Garðabæjar
Fókus
Fyrir 3 dögum

Aron Már um fræga senu Aftureldingar – „Ekki segja neinum og hræktu á bakið á mér“

Aron Már um fræga senu Aftureldingar – „Ekki segja neinum og hræktu á bakið á mér“
Fókus
Fyrir 4 dögum

Feðgarnir Davíð og Þorvarður sögðu upp störfum til að elta drauminn – „Við ákváðum að kýla á þetta og stofna fyrirtæki saman“

Feðgarnir Davíð og Þorvarður sögðu upp störfum til að elta drauminn – „Við ákváðum að kýla á þetta og stofna fyrirtæki saman“
Fókus
Fyrir 4 dögum

Hélt að hún væri að taka inn Ozempic – „Ekki gera þetta. Ég dó næstum því“

Hélt að hún væri að taka inn Ozempic – „Ekki gera þetta. Ég dó næstum því“