Hjónin Stephanie og Brandon Engblom hafa misst samtals 90 kíló saman. Stephanie er 25 ára og Brandon er 28 ára. Leið þeirra að þyngdartapi þeirra byrjaði með mjög einföldum hætti, Stephanie breytti því hvers konar kaffi hún drakk á hverjum degi.
Í viðtali við Today segir Stephanie að þau hjónin hafi vaknað einn morguninn í janúar 2020 og hafi ákveðið að þau þyrftu að breyta til.
„Við vorum bæði yfir 136 kíló. Brandon hafði nýlega verið greindur með kæfisvefn og mér leið alveg hörmulega. Mig verkjaði í líkamann á hverjum einasta degi. Við horfðum í spegill og á hvort annað og sögðum: „Við höfum náð botninum.“ Við vissum að við þyrftum að gera eitthvað ef okkur langaði að lifa löngu, hamingjusömu og heilbrigðu lífi saman, og jafnvel stofna fjölskyldu einn daginn,“ segir Stephanie.
Rétt tæpu ári síðar hefur Stephanie tekist að missa 53 kíló og Brandon rúmlega en 36 kíló, samtals um 90 kíló.
Hjónin útskýra að þau fara ekki eftir neinum öfgum, hvorki í mataræði né hreyfingu. Þau hafa frekar einblínt á að breyta lífsstílnum þannig að hann verði til frambúðar.
„Ég hef verið í yfirþyngd allt mitt líf. Ég á eldgamlar minningar af því að fara í megrun og prófa hitt og þetta, eins og lágkolvetnafæði, en ég endaði alltaf með að þyngjast aftur og meira en það,“ segir Stephanie.
Þau segja að lykillinn sé að gera litlar breytingar.
„Við vildum ekki gera þetta til að sjá einhvern svaka mun á okkur strax. Við vildum að þetta yrði að einhverju sem við gætum fylgt sem eftir er, að lífsstíl,“ segir hún.
Stephanie útskýrir hvað þau gerðu til að ná þessum árangri. Hún byrjaði á því að breyta hvernig hún drakk kaffið sitt.
„Ég drekk ennþá kaffi og elska að fá mér latte, en í stað þess að fá mér nýmjólk, súkkulaði og síróp, þá fæ ég mér möndlumjólk og espresso,“ segir hún.
„Í stað þess að fá okkur nautakjöt í taco, þá notum við kalkúnakjöt eða kjúkling. Við notum grískt jógúrt í staðinn fyrir sýrðan rjóma, meira af grænmeti og minna af osti. Við fáum okkur ennþá pítsu en gerum hana heima og notum hollari álegg. Þú getur borðað allt sem þig langar, bara í hófi,“ segir hún.
„Þetta snýst meira um skammtastærðir og að vera í núinu þegar þú borðar, frekar en að neita þér um ákveðin matvæli.“
Brandon lagði meiri áherslu á prótein. „Ég skipti alveg um stefnu, ég var vanur að borða mikið af kolvetnum, pasta og þess háttar, og fór að borða meira af próteinríkum máltíðum, sem eru mun saðsamari,“ segir hann við Today.
„Við fáum okkur kjúklingabaunapasta í stað fyrir venjulegt pasta, það er ótrúlegur munur á hversu mikið af kaloríum og próteini þú færð úr þessum matvælum.“
Þegar kemur að hreyfingu er hún einföld, þau fara út að ganga með hundinn sinn.
„Við göngum um 1,6 kílómeter á hverjum degi með hundinn okkar og reynum að hreyfa okkur eitthvað smá á hverjum degi, það þarf ekki að vera flókið, heldur eitthvað eins og að þrífa húsið, fara í göngutúr, leika við hundinn,“ segir hún.
„Við förum af og til í ræktina, en þá tökum við bara létt á því, ekkert klikkað.“
Stephanie segir að sameiginlegt átak þeirra hjóna hefur haft jákvæð áhrif á samband þeirra.
„Þetta hefur styrkt samband okkur. Við urðum sterk saman, að gera þetta saman var auðveldara en að reyna að gera þetta ein.“
Þú getur lesið viðtalið við þau í heild sinni hér.