Í Monroe-sýslu í Michigan var lengi haldið árlegt hrekkjavökupartý sem ungt fólk sóttist mjög eftir að komast í. Maður að nafni Michael Williams hélt þessi partý á búgarði móður sinnar. Þar tróðu upp hljómsveitir og stór varðeldur var kveiktur er leið á kvöldið. Hundruð manna skemmtu sér saman úti undir beru lofti.
Chelsea Bruck var ein af þeim sem var mjög hrifin af þessum hrekkjavökupartýum. Haustið 2014 hlakkaði hún mikið til partýsins, sem þá var haldið laugardagskvöldið 25. október. Chelsea var þá 22 ára gömul, yngst fimm systkina, bjó í smábænum Maybee, ekki langt frá búgarðinum, og vann á veitingahúsi.
Chelsea fór með vinkonu sinni Becky í partýið og þær voru báðar í flottum hrekkjavökubúningum. Þær urðu viðskila í mannhafinu, en um 700 manns sóttu partýið að þessu sinni, sem var metfjöldi. Þegar leið að lokum gleðskaparins fundu vinkonur Chelsea hana ekki, þeirra á meðal stúlka sem hafði lofað henni bílfari heim. Vinkonan Becky var með síma Chelsea í sínum fórum. En hún fann hana hvergi.
Einhverjar sögur voru af því að sést hefði til Chelsea við varðeldinn, hafði hún verið ein síns liðs og grátið, að virtist af ótta við að hún fengi ekki far heim.
Þegar Becky kom heim til sín sendi hún móður Chelsea textaskilaboð þess efnis að hún væri með síma Chelsea og hann mætti sækja til hennar þegar hentaði. Það var síðan seint á sunnudagskvöldinu sem Cassy, systir Chelsea, sendi Becky skilaboð þess efnis að Chelsea hefði aldrei skilað sér heim.
Mánudagurinn rann upp án þess að Chelsea hefði skilað sér. Lögreglu var gert viðvart og mikil umræða fór af stað á Facebook um horfnu stúlkuna. Á þriðjudag hófst formleg lögreglurannsókn á hvarfi Chelsea.
Málið vakti óhug og athygli og mikið var fjallað um það í fjölmiðlum. Partýhaldarinn Michael Williams var niðurbrotinn og sagðist vera með sektarkennd vegna hvarfs stúlkunnar. Aldrei áður hefði neitt slæmt hent í hrekkjavökupartýunum hans.
Svæðið í kringum búgarðinn var fínkembt af lögreglumönnum og stórum leitarsveitum sjálfboðaliða. Húsleit var gerð á búgarðinum en ekkert fannst sem gat varpað ljósi á hvarf Chelsea.
Aðrir partýgestir sem lögregla ræddi við reyndust ekki hafa mjög gagnlegar upplýsingar.
Þó voru nokkur vitni sem sögðust hafa séð Chelsea yfirgefa svæðið á fjórða tímanum um nóttina, í fylgd dökkhærðs manns með gleraugu. Útlitslýsing hans var fremur almenn en þó var gerð teikning af manninum og lýst eftir honum.
Seint í mars árið 2015 hafði kona ein samband við lögreglu og sagðist hafa fundið stakan kvenskó á lóðinni sinni. Rannsókn leiddi í ljós að skórinn var af Chelsea. Þetta var í rúmlega 3 km fjarlægð frá búgarðinum þar sem partýið hafði verið haldið.
Mánuði síðar fannst hrekkjavökubúningur Chelsea í yfirgefinni byggingu í um 16 km fjarlægð frá partýsvæðinu. Búningurinn var rifinn og tættur og á honum voru blóðblettir úr Chelsea og ókunnum manni.
Þann 24. apríl 2015 fundust síðan líkamsleifar Chelsea í skóglendi í um 10 km fjarlægð frá búgarðinum. Líkið var svo illa farið að tanngreiningu þurfti til að bera kennsl á Chelsea. Krufning leiddi í ljós að hún hafði látist vegna áverka á höfði eða hálsi.
Lykillinn að lausn málsins fólst í því að finna manninn sem blóðið á búningnum tilheyrði. Það gerðist ekki fyrr en árið 2016, tæplega tveimur árum eftir hvarf Chelsea.
Maðurinn sem átti erfðaefnið á búningi Chelsea virtist í fyrstu fremur tilkomulítill afbrotamaður. Hann var handtekinn vegna íkveikjutilraunar og vegna meðlagsskulda. Hann hét Daniel Clay og var 28 ára, atvinnulaus og óstaðsettur í hús.
Í yfirheyrslum neitaði Daniel því fyrst að hafa nokkurn tíma hitt Chelsea, hvað þá gert henni mein. Hann játaði hins vegar að hafa verið í partýinu örlagaríka. Hann hafði ekki skýringu á því hvers vegna blóð úr honum var á hrekkjavökubúningi stúlkunnar.
Í yfirheyrslum lögðu lögreglumenn gildru fyrir Daniel. Þeir sögðu að Chelsea hefði verið með beinasjúkdóm sem olli því að bein hennar brotnuðu auðveldlega. Hún hefði getað dáið fyrir slysni. Daniel breytti þá sögu sinni og sagðist hafa hitt Chelsea og haft kynmök við hana í bíl sínum. Hann hefði tekið hana kverkataki í samförunum. Þetta hafi verið með samþykki Chelsea, en hún hafi óvart látist við þessar aðfarir. Þegar Daniel var bent á að kinnbein hennar hefðu verið brotin, sagði hann að það hlyti að hafa gerst þegar hann losaði sig við líkið.
Daniel Clay bað fjölskyldu Chelsea Bruck innilega fyrirgefningar á því að hafa orðið dóttur þeirra að bana, en hélt sig við þann framburð að atvikið hefði verið slys. En honum var ekki trúað. Hann var sakfelldur fyrir nauðgun og morð og dæmdur í ævilangt fangelsi án möguleika á reynslulausn. Dómarinn var ómyrkur í máli er hann kvað upp dóminn og kallaði Daniel lygara, nauðgara og morðingja.
Dauði Chelsea Bruck hefur markað djúp og varanleg sár í samfélaginu í smábænum Maybee í Monroe-sýslu í Michigan. Fram að dauða hennar höfðu ofbeldisglæpir í þessu litla samfélagi verið nánast óþekktir.