Silvía Dögg Halldórsdóttir betur þekkt undir listamanna nafninu Lovetank hefur sett íbúð sína á sölu. Silvía sem er bæði búningahönnuður og listmálari þykir ákaflega smart eins og sést á íbúðinni en hún býr þar ásamt kærasta sínum og tveimur börnum.
Heimili Sylvíu einkennist af mikilli birtu og opnum rýmum. „Ég myndi lýsa andrúmsloftinu á heimilinu sem hlýju, huggulegu og afslöppuðu, eða þannig upplifi ég það,“ sagði Silvía í viðtali við Fréttablaðið fyrr á árinu.
Þá skartar íbúðin einstaklega tignarlegum og fallegum bogaglugga en bæði húsið og glugginn eiga sér áhugaverða sögu sem Silvía greindi frá í viðtalinu. Stórglæsileg listaverk eftir Silvíu prýða heimilið auk fallegra hönnunarmuna og húsgagna. Bleiki sófinn í stofunni er sannkallaður hamingjupúði.
„Húsið sem við búum í er teiknað af Jörundi Pálssyni arkitekt/listmálara fyrir Loga Einarsson hæstaréttardómara, og var byggt árið 1948. Jón Ásgeirsson tónskáld bjó hér á árum áður og leyfi ég mér að dreyma um að hann hafi samið lagið við Maístjörnuna hérna við þennan fallega bogaglugga þar sem mér skilst að flygillinn hans hafi staðið.“
Íbúðin er tæpir 150 fermetrar og skartar fimm herbergjum. Ásett verð er 81,9 milljónir. Konfektmoli á besta stað í borginni. Sjá nánar hér.