Megrunarkúrar af ýmsum gerðum hafa notið mikilla vinsælda í gegnum tíðina, þó svo að ágæti þeirra hafi verið umdeilt, einkum þeirra kúra sem ganga út á öfgar.
Margir hafa freistast til að prófa nýjasta tískukúrinn í gegnum tíðina til að bræða af sér spikið á sem skemmstum tíma, enda hafa fæstir úthald í að viðhalda kúrum um langt skeið. Vinsælir kúrar á árum áður voru oft æði skrautlegir og öfgafullir
Orðið kúr hefur nýverið fengið á sig neikvæða merkingu í daglegu tali og réttilega svo. Hins vegar lifa kúrarnir enn góðu lífi en kallast nú mataræði eða lífsstílsbreytingar. Dæmi um þetta eru ketó-mataræðið vinsæla, paleo-mataræðið og lágkolvetna-lífsstíllinn.
Á árum áður voru ýmsir skyndikúrar vinsælir og megrunarpillur, -duft og jafnvel megrunarkaramellur seldust eins og heitar fituskertar lummur. Það er þekkt staðreynd í dag að skyndikúrar virka ekki og geta verið skaðlegir heilsunni og það sama á við um alla kúra og matarvenjur sem byggjast á öfgum. Þessar staðreyndir voru minna þekktar í denn og því er gaman að rifja upp nokkra öfgafulla skyndikúra sem nutu vinsælda milli sjöunda og níunda áratugar síðustu aldar
Hvítvínskúrinn
Hvítvínskúrinn naut nokkurra vinsælda og var til í nokkrum útfærslum. Ein útfærslan fól í sér að drekka mátti ótakmarkað magn af hvítvíni og ekkert annað. Önnur og það líklega þekktasta útfærslan fólst í því að neyta hvítvínsflösku á dag í þrjá daga samhliða mjög einhæfu og takmörkuðu fæði
„Hafið þið heyrt um „hvítvínskúrinn?“ sagði í Tímanum í september 1983. „Þetta er mjög erfiður og strangur kúr, og eiginlega ekki nothæfur nema í neyðartilvikum, t.d. ef fötin eru orðin of þröng og stendur til að fara í stórafmæli eða aðra hátíð um næstu helgi. Ef farið er nákvæmlega eftir hvítvínskúrnum á fólk að geta náð af sér fimm pundum á tveim dögum.“
Þessi útfærsla fólst í því að í tvo til þrjá daga átti að fara eftir eftirfarandi matseðli:
Um morguninn
- Svart kaffi, 1 linsoðið egg, 1 glas af þurru hvítvíni.
Hádegisverðurinn
- Svart kaffi, 2 linsoðin egg, 2 glös af hvítvíninu.
Miðdegiskaffið
- Svart og sykurlaust kaffi.
Kvöldverður
200 grömm af nautakjöti, þurrsteikt eða grillað og með því er drukkið það sem eftir er í hvítvínsflöskunni.
Kartöflukúrinn
„Senn líður að því að hægt verði að fara að narta í nýju kartöflurnar og þá er upplagt að byrja á þessum megrunarkúr – það er að segja fyrir þá sem geta státað af einhverjum „umframþunga“. Ef farið er nákvæmlega eftir honum má losna við 3-5 kíló á viku án þess að finna til sultar og verða meira að segja hressari og sprækari en áður.“ Svo sagði í Vikunni í ágúst árið 1982. „Kartöflumegrunarkúrinn fer nú sigurför um mestan hluta hins vestræna heims. Hann er hollur og ódýr, réttirnir fljótlagaðir og flestum finnast þeir góðir.“
„Þessi kartöflukúr er jafnframt einskonar fegrunarkúr sem stuðlar að því að svefninn verður dýpri, hrukkurnar færri og húðin sléttari um leið og aukakílóin hverfa og það án þess að viðkomandi finni nokkru sinni til svengdar,“ sagði í Morgunblaðinu í maí 1989
Á kartöflukúrnum átti að fara eftir sérstökum vikumatseðli eða matseðlum eftir því hversu lengi viðkomandi hafði hugsað sér að fylgja kúrnum. Stærstu máltíðir dagsins innihéldu mikið af kartöflum og millimálum og morgunmat var stillt í hitaeiningahóf.
Bananakúrinn
Bananakúrinn svonefndi varð vinsæll um tíma í kringum 1970. „Þetta er einfaldasti kúrinn en jafnframt sá erfiðasti því fæðan er svo einhæf: Í fjóra daga er ekki borðað annað en bananar og mjólk drukkin með. Borða má allt að 8 banana yfir daginn og drekka glas af mjólk með hverjum þeirra. Þeir sem kúrinn hafa prófað segja að hann virki mjög vel,“ svo sagði í Vikunni í janúar 1988.
Banana- og hvítvínskúrinn
Fyrir þá sem gátu ómögulega hugsað sér hvítvínskúrinn eða bananakúrinn var fundið upp á milliveginum, bananaog hvítvínskúrnum. Þá voru borðaðir um átta bananar á dag og hvítvín drukkið með. Í dálk Pressunnar, Dagbók Dúllu, var skrifað svo í júní 1989:
„Amma á Einimelnum á heila gommu af megrunaruppskriftum en það er svolítið erfitt að ákveða hvaða kúr er bestur. Hún mælir mest með banana- og hvítvínskúrnum, sem hún fór á í fyrra, en það er víst alveg útilokað fyrir mig að redda svo miklu hvítvíni. Amma tók megrunina ógeðslega alvarlega og hreinlega lá í hvítvíni. Það má nefnilega borða eins mikið af banönum og maður getur í sig látið og drekka ótakmarkað af hvítvíni, en amma hefur alltaf haft klígju fyrir banönum. Þess vegna drakk hún bara þeim mun meira af víninu og grenntist líka um heilan helling. (Mamma er soddan kvikindi að segja að amma hafi bara grennst af næringarskorti. Hún hafi verið öskufull alla daga og ekki með nægilega rænu til að geta fengið sér að borða.
Ég meina það… Þetta er nú alvöru kúr upp úr Familie Journal, svo það þýðir ekkert að skammast út í ömmu greyið!“
Vínberjakúrinn
Blaðamaður DV skrifaði í júlí 1985 frá Bandaríkjunum og kynnti þar til leiks furðulegan megrunarkúr. Vínberjakúrinn. „Einn fábrotnasti en um leið stórbrotnasti megrunarkúr sem litið hefur dagsins ljós fer nú um heimili saklausra íbúa Bandaríkja Norður-Ameríku.
Hér ræðir um vínberjakúrinn svonefnda sem breiðir nú úr sér eins og kákasusgerill eða fótanuddtæki. Talsmenn kúrsins sem væntanlega eru bræður og vinir vínberjaræktenda og vínberjaheildsala segja að kúrinn sé sérstaklega til þess sniðinn að hvíla meltingarkerfið. Kúrnum er ætlað að standa í 7 heila daga. Enginn hvíldardagur skal vera í þeirri lotu, ósagt er hins vegar um fjölda sjúkrahússdaga til hvíldar og hressingar á eftir.“
Megrunarkúrinn fólst í því að fylgja stífum matseðli sem bauð ekki upp á mikla fjölbreytni
„Fyrsti dagur: Morgunmatur skal vera einn bolli vatn, heitt. Út í það má kreista einn fjórða part sítrónu. Þá skal snæða meðalstóran klasa af vínberjum. Reyna svo að ljúka morgunverkunum og koma sér í vinnuna. Í hádeginu má svo fá sér meðalstóran klasa af vínberjum. Í þetta skiptið ekkert fikt með sítrónu. Í staðinn má koma klasanum fyrir á grænu salatblaði áður en neysla hefst. Mun slíkt vera lystaukandi. Í lokin má svo rífa salatblað í sig. Í kvöldmat er mælt með bolla af tei. Með honum er gott að fá sér meðalstóran klasa af vínberjum. Vínberin má skreyta með ferskjuræfli eða einhverju álíka fyrirbrigði af ávaxtagerð. Þegar hér er komið við sögu er dagur að kveldi kominn. Næsti dagur hefst eins, þarnæsti dagur líka og svo koll af kolli ef menn halda út í 7 daga.“