Sjöfn Kristjánsdóttir lýsir sér sem 39 ára húsmóður í Hvassaleitinu.
„Ég er voða venjuleg, elska að vera heima hjá mér og gera huggulegt í kringum mig. Ég bý með Grétari Karli, unnusta til fjölda ára, og saman eigum við þrjú dásamleg börn. Sögu fjórtán ára, Ara fjögurra ára og Kára tveggja ára. Við byrjuðum með netverslunina stroff.is veturinn 2017 og opnuðum svo STROFF verzlun í ágúst á þessu ári. Sú búð er staðsett í Skipholti 25. Þar vinnum við bæði og ótrúlegt en satt þá höfum við enn ekki fengið nóg af hvort öðru,“ segir Sjöfn og hlær.
„Við erum ólík, ég er algjört fiðrildi með alla fálmara úti og sífellt á flugi á meðan Grétar er með báða fætur á jörðinni. Þetta er kombó sem klikkar ekki,“ segir Sjöfn. Hún er að gefa út prjónabókina Unu ásamt tónlistarkonunni Sölku Sól Eyfeld en Sjöfn og Salka kynntust í gegnum prjónaskap og hefur Salka sagt að Sjöfn hafi kennt sér að prjóna á ótrúlega skömmum tíma.
„Ég byrjaði sjálf að prjóna um tólf ára aldurinn. Ég er örvhent og engum tókst að kenna mér að prjóna. Það var ekki fyrr en vinkona mömmu, Didda, sem hafði þolinmæðina að vopni, tók mig í kennslu og úr varð fyrsta húfan mín. Síðan þá hef ég meira og minna verið með prjónana á lofti,“ segir Sjöfn
„Ég útskrifaðist með stúdentspróf af Hönnunar- og textílbraut frá FB en tók svo U-beygju og kláraði meistarapróf í uppeldis- og menntunarfræði. Pabbi sagði nefnilega að maður yrði aldrei ríkur á því að prjóna. Ég er kannski ekki orðin rík en maður lifandi hvað það er ómetanlegt að geta unnið við það sem maður elskar. Ég er samt fegin að hann hafi rekið mig af stað í háskólanám því án þess væri ég ekki jafn fær um að skrifa allar þessar uppskriftir.“
Sjöfn segir að stundum taki lífið óvænta stefnu og lífið tók svo sannarlega góða óvænta stefnu þegar hún kynntist Sölku Sól.
„Við Salka kynnumst í gegnum Instagram þegar hún var að taka sín fyrstu skref í prjónaheiminum. Hún var að prjóna eftir mig og ég fann bara að þarna var eitthvað – einhver eins og ég. Ég sagði við hana um daginn að ég hefði fundið prjónasálufélaga minn. Því ég þekki engan sem hellir sér jafnmikið og jafn kröftuglega í verkefnin eins og Salka og það hentaði mér svo vel því ég hugsa um uppskriftir, prjón og garn allan sólarhringinn. Ég er alltaf að fá hugmyndir og bölva því oft að vera ekki með fleiri hendur. Við erum jafn æstar í því sem við elskum að gera og erum alltaf með hausinn á fullu. Þú finnur ekki oft einhvern sem er jafn æstur og þú í svona sérhæfðu verkefni,“ segir Sjöfn.
„Við ætluðum nú bara að gera eina peysu saman en uppskriftirnar urðu tólf, allar rafrænar og fást á stroff.is. Þetta endaði svo sem 27 uppskrifta prjónabók. Hugmynd að bók var eitthvað sem við höfðum hugsað um en það var ekki fyrr en Kristján hjá Sögum útgáfu hafði samband og vildi vinna með okkur í því verkefni. Það kom aldrei hik á okkur, bara búmm og áfram gakk,“ segir hún
„Una – nafnið á bókinni er upphaflega frá dóttur Sölku, Unu Lóu en svo er Una bara svo fallegt nafn, stutt og hnitmiðað og merkingin er falleg; „hin hamingjusama“. Bókin er full af hamingju, gleði og góðri orku. Það eru nýjar uppskriftir í bland við gamlar og allt frá hundaflíkum upp í flíkur á fullorðna. Svo er bókin stútfull af geggjuðum myndum eftir vinkonu okkar, Eygló Gísladóttur,“ segir Sjöfn.
Bókin er farin í prentun og komin í forsölu á stroff.is. Áætlaður söludagur í búðum er 5. nóvember.
Efni:
Katia Merino Sport
Það sem þarf:
Gagnlegt:
Þú getur séð myndband sem sýnir hvernig hnútaprjónið er framkvæmt á www.bit.do/hnutaprjon.
Prjónafesta:
Prjónfestan í þessari uppskrift er sú að 18 lykkjur á prjóna nr. 5 gera 10 sm með því að nota Merino Sport frá Katia.
Þá gera:
Lesið vel yfir uppskrift áður en þið byrjið. Smekkurinn er prjónaður ofan frá og niður, fram og til baka. Uppskriftin býður upp á tvenns konar prjón, poppmynstur og garðaprjón.
Fitjið upp 47 lykkjur á prjóna nr. 5 með Merino Sport frá Katia. Ég mæli með að prjóna smekkinn á hringprjón (lengd skiptir ekki máli). Prjónið tvær umferðir skv. mynsturmynd án útaukninga og mynsturs (tvær fyrstu umferðirnar í mynsturmynd) með Icord kanti.
Kantarnir á smekknum eru I-cord, www.bit.do/i-cord4. Þá eru fyrstu 2 lykkjurnar í hverri umferð alltaf prjónaðar slétt og 2 síðustu lykkjurnar í hverri umferð eru teknar óprjónaðar með bandið fyrir framan eða að þér.
Hér að ofan eru mynsturmyndir af annars vegar poppi og hins vegar garðaprjóni. Veldu annað hvort mynstrið og prjónaðu eftir mynsturmynd (ath. að mynstur byrjar neðst á mynd eða í umferð 1).
Þegar mynstri er lokið eru lykkjurnar, sem eftir eru á prjóninum felldar af með sléttu prjóni, á réttunni.
Upptaka á lykkjum efst á smekk
Til þess að endinn eða kanturinn, sem kemur við háls barnsins, verði fallegur þarf að prjóna upp þessar 47 lykkjur, sem fitjaðar voru upp í byrjun.
Prjónið þær upp á röngunni með sléttu prjóni (ein umferð) og fellið þær af á réttunni í næstu umferð á eftir. Þegar fellt er af eru prjónaðar þrjár fyrstu lykkjurnar og þær settar á hjálparband eða nælu (ég hef líka sett prjónamerki í þær og geymt þær þannig). Fellið svo af út umferðina þar til 3 lykkjur eru eftir. Skiptið yfir í tvo sokkaprjóna nr. 5.
Þessar lykkjur, sem þið geymduð hér á undan, prjónið þið svo áfram með I-cord snúruprjóni – www.bit. do/i-cord5 – alls 25 sm langa snúru. Þegar réttri lengd er náð er fellt af með sléttu prjóni. Þegar því er lokið þarf að setja hinar þrjár lykkjurnar, sem þið geymduð á nælu, á sokkaprjón og prjóna I-cord snúru þar líka, í sömu lengd. Hér að ofan eru myndir til útskýringar.
Frágangur
Gangið frá öllum endum, skolið úr smekknum í höndum eða í vél, vindið og leggið á handklæði og látið þorna.
Ef smekkurinn er prjónaður úr uppgefnu garni má hann fara í bæði þvottavél og þurrkara.