Elísabet Gunnarsdóttir, tískubloggari á Trendnet, deilir hér hugmyndum að fallegum grímum. Með aukinni grímuskyldu er ekki seinna vænna að tryggja sér góða grímu og ekki er verra ef hún er smart.
„Ég vil byrja á að taka það fram að ég er enginn sérfræðingur um grímur og hvet því fólk til að kynna sér hvaða grímur skila þeim tilgangi sem ætlast er til. Umhverfisins vegna þá er auðvitað best að nota fjölnota grímur og eru þær einnig fallegri að mínu mati – það er þó mælst til þess að þær séu þvegnar einu sinni á dag í það minnsta,” segir Elísabet sem sjálf er búsett í Danmörku og þekkir því vel hvernig það er að ferðast með grímu.
„Eins og áður þá held ég með íslenskum aðilum sem hafa prófað sig áfram í grímugerð og nýtt t.d. gamla efnisbúta í verkefnið. Gríman er líklega aukahlutur sem er kominn til að vera og því um að gera að velta þessu aðeins fyrir sér. Ég tók þó eftir því að þessi aukahlutur var ekki hluti af sýningum hátískunnar í ár og held ég að það sé með vilja gert til að tengja ekki við eða minna fólk á þetta ömurlega ástand. Síðar meir held ég að þetta verði án efa hluti af vöruúrvali þeirra,“ segir Elísabet sem skrifar meðal annars um tísku á trendnet.is og sinnir frumkvöðlastarfi í Danmörku þar sem hún býr.
„Hvernig verður grímunotkun þegar fer að kólna? Munum við öll bera gömlu, góðu lambhúshettuna sem er þá auðvelt setja fyrir munninn í vissum aðstæðum?“