Fjöllistamaðurinn og íslenskugúrúinn Bragi Valdimar Skúlason, stendur vörð um íslenskuna, enda einn vinsælasti textahöfundur landsins. Bragi stýrir einnig sjónvarpsþættinum Kappsmál ásamt Björgu Magnúsdóttur sem snúast einnig um okkar ástkæra ylhýra.
Braga var því lítið skemmt þegar efnisveitan Disney+ hóf að bjóða Íslendingum upp á þjónustu sína, án þess að bjóða upp á íslenskt tal, eða íslenskan texta. Hann hvetur því alla Íslendinga til að krefjast þess að Disney+ bjóði upp á íslenskað efni. Þetta skrifar hann á Facebook:
„Elsku bestu öll. Nú skulum við öll. Já öll (óháð því hvort við erum með Disney+ áskrift eða ekki) demba okkur á netspjallið hans Mikka Músar og heimta alla íslensku textana og talsetningarnar góðu, sem eru sannarlega til í katakombum draumasmiðjunnar – og kæmu sér vel fyrir lítil eyru og augu fyrir framan skjáinn.
Látum nú Mikka ræfilinn hafa meira fyrir athugasemdaflóðinu, en þegar hann starfaði sem lærisveinn galdramannsins hér í eina tíð.
Spjallið er hér neðst: https://help.disneyplus.com/Þið getið líka prófað að hringja og öskra smá.“
„Ég biðst innilega afsökunar á þessu. Góðu fréttirnar eru þær að tungumálum verður bætt við smám saman. Ég vil fullvissa þig um það að Disney vinnur hörðum höndum að því að koma þessu efni til allra íslenskra barna“