fbpx
Sunnudagur 05.janúar 2025
Fókus

Tímavél – Hin eina, sanna snákaolía

Lilja Katrín Gunnarsdóttir
Laugardaginn 18. janúar 2020 22:00

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Megrunarkúr er eitt af orðunum sem nútíminn hefur gert útlægt en á árum áður var almenningi selt ýmiss konar húmbúkk undir merkjum megrunarkúra. Það er svo sem ekki nýtt að markaðsmenn reyni að selja fólki töfralausnir í leit að betra lífi, en við skulum líta á allra furðulegustu kúrana sem hafa náð fótfestu á Íslandi.

Smjörlíki gegn læknisvottorði

Það fór fyrst að bera reglulega á orðinu megrunarkúr í íslenskum fjölmiðlum á sjöunda áratug síðustu aldar. Það voru þó skaplegir kúrar sem fólust helst í því að borða minna af öllu og þannig minnka kaloríufjölda í fæðunni. Við rákumst hins vegar á afskaplega áhugaverðan kúr frá árinu 1959 sem vekur fleiri spurningar en svör.

„Í Ameríku er komið á markaðinn smjörlíki, sem einkanlega er ætlað þeim, sem eru í megrunarkúr eða eru hjartabilaðir, og er þetta smjörlíki einungis selt gegn framvísun á læknisvottorði,“ stendur í stuttum mola um kúrinn.

Undraverk

Tveimur árum síðar, eða árið 1961, var birt grein undir yfirskriftinni Herferð gegn aukakílóum, þar sem því var haldið fram að besti megrunarkúrinn væri fólginn í því að borða áfir, sem er vökvinn sem verður eftir þegar smjör er unnið úr rjóma, magurt kjöt, grænmeti og ávexti.

„Þessi kúr getur gert undraverk, en ásamt leikfimisæfingum kraftaverk. Eftir einn mánuð ættuð þið, sem eruð mjög illa farnar að vera komnar í samt lag, og þá ættuð þið að taka sérstakt tillit til þeirra sem viðkvæmastir eru, og leggja hart að þeim,“ stendur í greininni og með fylgja nokkrar leikfimiæfingar.

Megrun án tára

Svo var það innreið sætuefnisins MinuSuk árið 1971 sem lofaði megrun án tára. MinuSuk átti að nota í kaffi, te og matreiðslu en um var að ræða efni sem framleitt var úr sætuefnunum sorbitol og saccarin, laust við aukabragð og -verkanir.

Árið 1974 var Ayds megrunarkúrinn kynntur til sögunnar og var miklu þyngdartapi lofað á aðeins einum mánuði. Í auglýsingu fyrir kúrinn var viðtal við konu sem hafði misst rúmlega níu kíló á fjórum vikum og umbreytt lífinu. „Mér fannst ég vera orðin gömul og ljót. Föt gátu ekkert hresst upp á útlitið, þ.e.a.s. ef mér tókst einhvern tímann að finna föt, sem ég komst í,” segir í auglýsingunni. Konan var hæstánægð með að hafa grennt sig þar sem hún var á leiðinni vestur um haf til að heimsækja vin sinn. „Ég veit að ég er grönn og lít út einmitt eins og hann man eftir mér. Kannski betur, þökk sé Ayds.“

Stór orð Fólki var lofað gríðarmiklu þyngdartapi á stuttum tíma á AYDS-kúrnum.

Ávaxtaæði

Það má með sanni segja að níundi og tíundi áratugur síðustu aldar hafi verið gullaldartími megrunarkúranna. Árið 1980 var sagt frá bandarískum megrunarkúr sem fólst mestmegnis í því að borða egg. Einnig var sagt frá þýska kúrnum sem kenndur var við Gayelord Hauser en í þeim kúr átti að drekka reglulega einn bolla af Hauser-drykk. Uppskriftin að drykknum er eftirfarandi:

Lærimeistarinn Hér má sjá útlistingu á Hauser-mataræðinu.

Setjið saman í einn pott og sjóðið við vægan hita: Einn bolla fullan af sellerí, smáhökkuðu með stönglum og blöðum, 1 bolla fullan af brytjuðum gulrófum, hálfan bolla af smábrytjuðu salati, eina teskeið af sjósalti, 1 lítra af vatni, 1 bolla af tómatsafa, smávegis púðursykur. Sigtið soðið og síðan má drekka það.

Ári síðar var Beverly Hills-megrunarkúrinn kynntur til sögunnar. Fyrstu sex vikur þess kúrs mátti fólk aðeins borða ávexti. Eftir þann tíma átti að bæta kolvetnisríkri fæðu í hádegismat og eggjahvítuauðugu fæði í kvöldmat. Ávallt skyldi þó byrja daginn á ávexti.

Megrunarmæjó

Árið 1982 var svo komið að kartöflukúrnum. „Ef farið er nákvæmlega eftir honum má losna við 3–5 kíló á viku án þess að finna til sultar og verða meira að segja hressari og sprækari en áður,“ stendur í grein um fæðið. Greininni fylgir svo haugur að kartöfluuppskriftum, til dæmis að kartöflubollum, kartöflum með megrunarmæjónesi og brauð með köldum kartöflum. Girnilegt!

Scardale-kúrinn var einnig vinsæll árið 1982 og kom líka frá Bandaríkjunum. Hann var sagður hættulaus öllum þeim sem þjást ekki af öðrum sjúkdómi en offitu. Kúrinn var einfaldur – ekki mátti neyta áfengra drykkja og aðeins borða það sem var á sérstökum Scardale-matseðli. Veitingastaðurinn Rán stóð fyrir sérstökum Scardale-ferðum og var kúrinn kallaður „Megrunarkúr sælkerans“.

475 hitaeiningar á dag

Nokkrum árum síðar, eða árið 1986, var sagt frá ávaxtakúr sem svipaði til Beverly Hills-kúrsins. Dagsmatseðill þeirra sem smelltu sér á kúrinn var svohljóðandi:

Morgunverður: Ein heil appelsína eða 2 sveskjur eða hálft greip.
Hádegisverður: Lítil melóna eða stór sneið af stærri melónu og ein stór sneið af vatnsmelónu.
Síðdegis: Ein pera eða annar ámóta ávöxtur.
Kvöldverður: Ein pera, appelsína, epli og ein plóma.
Fyrir háttinn: Eitt epli.

Þessi kúr innihélt aðeins 475 hitaeiningar og má slá því föstu að fáir hafi enst á honum.

Heiðar snyrtir blandar sér í málin

T-Kúrinn, megrunarkúrinn sem hrífur, átti sína stund í sviðsljósinu árið 1987 en hann fólst í því að borða trefjaríka fæðu. Þetta ár litu megrunarpillurnar U.S. Grape Slim einnig dagsins ljós, en Heiðar Jónsson, oftast kallaður Heiðar snyrtir, hélt uppi heiðri pillanna á Íslandi. Lofaði hann að hægt væri að missa allt að tvö kíló á viku með því að neyta taflnanna. Voru pillurnar sagðar bylting í megrun og tekið sérstaklega fram að Joan Collins og Linda Evans úr Dynasty notuðu þær reglulega.

Frægur kúr Heiðar snyrtir tók þátt í megrunarbylgjunni.

Þá verður að minnast á kálsúpukúrinn margfræga en eins og nafnið gefur til kynna nærðist fólk eingöngu á kálsúpu í heila viku. Eftir þessa viku átti fólk að geta verið búið að missa allt að fimm kíló, það er að segja ef fólk gat komið kálsúpu niður í hvert mál í sjö daga.

Sveppurinn frægi

Árið 1991 var BIOMIN megrunarkexið auglýst og því haldið fram að ein kexkaka gæti komið í staðinn fyrir heila máltíð. Þá innihélt einn pakki af kexkökunum fimm daga megrunarkúr.

Á enn við Sveppateinu svipar til drykksins Kombucha sem hefur verið gríðarlega vinsæll síðustu misseri.

En síðan var það árið 1995 þar sem allt breyttist. Þá fór sveppateið svokallaða eins og eldur um sinu á Íslandi. Um var að ræða svokallað Mansjúríute sem var unnið úr mansjúríusveppnum, en til að geta tekið þátt í kúrnum þurfti mikinn viljastyrk þar sem landsmenn þurftu að rækta sveppinn heima hjá sér. Var hann ófrýnilegur að sjá og teið afskaplega bragðvont, en fólk stóð í þeirri trú að teið væri allra meina bót og gæti jafnvel lengt lífið. Átti að drekka að minnsta kosti eitt glas af teinu á dag og var það vandmeðfarið að rækta sveppinn. Hann mátti ekki komast í snertingu við málma og mátti alls ekki henda honum í ruslið heldur þurfti að urða hann. Meðal þeirra sem drukku sveppateið var leikarinn Gunnar Eyjólfsson heitinn sem fékk sinn fyrsta svepp hjá leikkonu í Þjóðleikhúsinu samkvæmt frétt DV um sveppinn. Stuttu síðar vöruðu læknar við sveppateinu og sögðu það geta haft slæm áhrif á heilsuna. Gaman er að láta það fylgja sögunni að sveppateið er líkt og drykkurinn Kombucha sem hefur verið gríðarlega vinsæll undanfarið.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fókus
Fyrir 4 dögum

Ellý brugðið þegar hún spáði fyrir þátttöku Íslands í Eurovision – „Þetta finnst mér sérstakt“

Ellý brugðið þegar hún spáði fyrir þátttöku Íslands í Eurovision – „Þetta finnst mér sérstakt“
Fókus
Fyrir 5 dögum

Loksins skilin eftir 8 ára hatrammar deilur – Deilur um víngerð halda áfram

Loksins skilin eftir 8 ára hatrammar deilur – Deilur um víngerð halda áfram