Aðspurður hvernig staðan á fasteignamarkaðnum sé segir Hannes að markaðurinn sé góður. „Það er fín sala og í raun lítið til af ódýrum eignum, það er verið að byggja 52% minna af nýjum eignum heldur en fyrir teimur árum og það má gera ráð fyrir íbúðaskorti eftir 2 ár,“ segir Hannes.
Það eru eflaust margir í hugleiðingum á fyrstu fasteignakaupunum sínum en Hannes segir að hafa þurfi margt í huga þegar kemur að þessum fyrstu kaupum. „Fyrsta skrefið er að fara í greiðslumat og fá staðfestingu á því hvað hver og ein ræður við,“ segir hann. Svo er mjög mikilvægt að velja réttu lánin eftir greiðslugetu, sumir taka allt verðtrygg, aðrir óverðtryggt og svo er líka hægt að taka helming verðtryggt og helming óverðtryggt.“ Hannes bendir á vefsíðuna Aurbjörg.is en þar er hægt að bera saman lán.
„Mikilvægt að hugsa út frá þörfum, hvað þarf ég sem kaupandi, meira heldur en hvað mig langar, velja sér hverfi og skoða allt sem kemur til greina, sum hverfi eru ódýrari en önnur. Skoða frekar meira en minna og lykilatriði að skoða tvisvar til þrisvar áður en ákvörðun er tekin. Mikið atriði að fá yfirlýsingu húsfélags og sjá hvað búið er að gera og hvað er framundan, fá skýrslu síðasta húsfélagsfundar og fara yfir. Ef íbúðin sem verið er að skoða er eldri en 40 ára þá er gott að mynda skólplagnir og fá nákvæma stöðu á þaki, vatnslögnum, dreni, rafmagni og öllu sem maður ekki sér við skoðun.“
Hannes segir að algengustu mistökin þegar kemur að kaupum á fasteignum sé að taka ákvörðun of fljótt, skoða ekki nægilega vel og stökkva til. „Þegar fólk er að vinna með aleigu sína er gott að gefa sér tíma og vera 100% viss um að þetta sé rétta eignin.“
Algengt er að fólki finnist það vera slæmt ef eign hefur verið á skrá í 2-3 mánuði en Hannes segir að það sé í rauninni ekki slæmt. „Meðalsölutími er um tveir mánuðir almennt, en ódýrari eignir fara oftast mjög fljótt,“ segir Hannes. Þá segir hann að lægsta fermetraverðið á höfuðborgarsvæðinu sé í Breiðholtinu, í póstnúmerum 109 og 111.