fbpx
Mánudagur 27.janúar 2025
Fókus

„Þetta var strákur sem var að kóka stelpur, fá þær til að vera burðardýr og nauðga þeim“

Guðrún Ósk Guðjónsdóttir
Miðvikudaginn 30. september 2020 12:32

Einar Ágúst. Mynd/YouTube

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Einar Ágúst Víðisson er nýjasti gestur Sölva Tryggvasonar í Podcasti Sölva. Einar Ágúst, sem varð þjóðþekktur sem söngvari hljómsveitarinnar Skítamórals, fer í viðtalinu yfir tímabilin þegar hann var kominn á kaf í neyslu og glæpi. Einar var á beinu brautinni sem tónlistarmaður, sjónvarps- og útvarpsmaður þegar hann missti öll tök á tilverunni. Þegar Einar Ágúst var á sínum versta stað framdi hann mannrán og ofbeldisglæp ásamt félaga sínum.

Sjá einnig: Einar Ágúst var laminn og pyntaður af pólskum hermönnum 

„Þetta var strákur sem var að kóka stelpur og fá þær til að vera burðardýr og nauðga þeim og eitthvað og við nenntum ekki að horfa upp á þetta, þannig við rændum honum og börðum hann í stöppu. En hann er dáinn í dag og mér þykir það mjög miður að geta ekki beðið hann afsökunar og ég þarf að taka á því samkvæmt minni trú og gera það einhvern veginn upp. Við verðum að gera hlutina upp, því að getum ekki verið að rottast með hlutina í höfðinu á okkur. Sjálfskoðun í einrúmi veit sjaldnast á gott,“ segir hann.

Einar Ágúst segist hafa upplifað allt það sem tilheyrir skuggahliðum lífsins, sem flestir sjá bara í bíómyndum. „Ég hef verið þarna, og ég er ekki einu sinni að ýkja það, ég er frekar að draga úr því. Ég hef séð þetta allt saman, ég veit um þetta allt saman, hef fengið að heyra þetta allt saman, eða tekið þátt í fullt af svona hlutum, segir Einar og segist ekki hafa haft neina stjórn á hlutunum.

„Maður var eins og lítið barn sem labbaði út í umferðina á Miklubrautinni án þess að vita hvað maður væri að fara út í. Þetta er eins og að verða skotin í nýrri stelpu og verða ástfanginn. Ég er að reyna að útskýra þetta á mannamáli,“ segir Einar Ágúst um neysluna og öll þau efni sem hann hefur prófað. Segir hann engu að síður ekki hægt að taka vitræna umræðu um málefnið, þegar versta efnið, áfengið, er löglegt. „Það vita allir sem hugsa lengra en korter að áfengi yrði aldrei leyft ef það væri fundið upp í dag.“

Fjölskyldan reyndi að hjálpa

Fjölskylda Einars reyndi sitt besta til að halda honum frá neyslu með takmörkuðum árangri. Hann segir í viðtalinu líka sögu af því þegar hann var handtekinn með hland frá vini sínum í vasanum.

„Hvað ertu að gera með hland frá vini þínum? Jú konan mín heldur að ég sé dottinn í það og vill fá þvagprufu, þannig að einn vinur minn pissaði í boxið fyrir mig,“ svaraði Einar Ágúst spurningu lögreglumanna þegar hann var handtekinn í fyrsta sinn. Einar Ágúst segir svo frá að átta lögregluþjónar hafi mætt í hús sem hann var gestkomandi í. Var Einar Ágúst þá með filmubox í vasanum, sem í var hland frá félaga hans. Var hann beðinn um að gera grein fyrir innihaldi filmuboxsins og urðu lögreglumenn hvumsa þegar hann sagði eins og var. „Þannig að mín fyrstu kynni af handtöku voru ekki glæsilegri en þetta, það var engin Hollywood í þessu,“ segir Einar Ágúst.

Erfiðir tímar

Einar Ágúst segist stundum eiga erfitt með að sjá sig sem góðan gæja eftir hlutina sem hann hefur gert í gegnum tíðina.

„Þegar maður hefur gert svona hræðilega hluti á maður stundum erfitt með að selja sér að maður sé góð manneskja. Ég hef farið svo rosalega langt Sölvi. Ef þú horfir á Svartur á Leik eða aðrar bíómyndir í þeim dúr, þá verður þú að átta þig á því að ég hef tekið þátt í að gera þessa hluti sem eru sýndir í þessum myndum. Ég hef verið á dimmustu stöðunum og þá á maður stundum erfitt með að telja sér trú um að maður sé góður gaur, en jú, ég vil trúa því að ég sé góður gaur,“ segir hann.

Í viðtalinu ræða Einar og Sölvi um stærstu sigrana, myrkustu tímabilin, tengslin við glæpastarfsemi, endurkomu Skítamórals og þakklæti Einars fyrir að vera enn á lífi.

Þáttinn í heild má sjá hér að neðan. Þú getur einnig hlustað á þáttinn á Spotify.

https://www.youtube.com/watch?v=rRUHc_dFLdI&t=43s

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fókus
Fyrir 2 dögum

Fræðsluskot Óla tölvu: Svona notar þú Google Keep

Fræðsluskot Óla tölvu: Svona notar þú Google Keep
Fókus
Fyrir 2 dögum

Segir hugvíkkandi efni opna svarta boxið innra með okkur – „Þar er sársaukinn, þar eru öll leyndarmálin, þar er líka gullið“

Segir hugvíkkandi efni opna svarta boxið innra með okkur – „Þar er sársaukinn, þar eru öll leyndarmálin, þar er líka gullið“
Fókus
Fyrir 4 dögum

Verðlaunablaðamaður selur einbýli í grónu hverfi Garðabæjar

Verðlaunablaðamaður selur einbýli í grónu hverfi Garðabæjar
Fókus
Fyrir 4 dögum

Aron Már um fræga senu Aftureldingar – „Ekki segja neinum og hræktu á bakið á mér“

Aron Már um fræga senu Aftureldingar – „Ekki segja neinum og hræktu á bakið á mér“