fbpx
Laugardagur 11.janúar 2025
Fókus

Aníta Briem um heimþrána, einelti og lífshættulega þráhyggju

Tobba Marinósdóttir
Laugardaginn 26. september 2020 08:00

Aníta Briem leikkona Mynd: Anton Brink

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Helgarviðtal DV sem birtist 18. september 2020.

 

Aníta Briem leikkona byrjaði leiklistarferil sinn aðeins 9 ára gömul þegar hún lék Ídu í Emil í Kattholti í Þjóðleikhúsinu. Þá varð ekki aftur snúið. Listin á hug hennar allan og hún sinn­ir henni vel, sem útskýrir vin­sældir hennar sem leikkonu. Aníta hefur ekki langt að sækja framkomuhæfi­leika sína, en hún er dóttir trommuleikarans Gunnlaugs Briem og söngkonunnar Ernu Þórarinsdóttur. Aníta er náin foreldrum sínum og er mikil hamingja fólgin í því að þurfa nú aðeins að ferðast nokkra kílómetra í kaffi.

Aníta Briem brosir með öllu andlitinu og ber með sér hlýju og umhyggju fyrir umhverfi sínu. Hún er mjög vel máli farin, með fallegan orðaforða og notar hendurnar þegar hún talar svo að einfaldar frásagnir lifna við þegar hún lýsir þeim. „Ég var alveg ótrú­lega feimið barn. Og dreymin. Ég gat gleymt mér í aðstæðum og gleymdi fólkinu í kringum mig og man til dæmis eftir því að hafa verið að hlaupa um og leika mér í strætó algjörlega ómeðvituð um umhverfi mitt þar til bílstjórinn bað mig vin­samlegast um að setjast niður og hætta þessum hamagangi,“ segir Aníta, sem fann sig því fljótt í leiklistinni. Þar voru skil draums og veruleika ekki svo skýr og feimnin vék fyrir ævintýrum dagsins.

Eineltið lúmskt

Á svipuðum tíma og Aníta lék sitt fyrsta hlutverk í Þjóðleik­húsinu skipti hún um skóla þar sem hún varð fyrir miklu ein­elti. „Ég byrjaði í nýjum skóla og byrjaði á því að vera mikið í burtu vegna æfinga. Svo var ég í viðtölum í blöðum, á for­síðu barnablaðs ABC og Æsk­unnar og ég held að það hafi verið ástæðan fyrir eineltinu. Klassískt óöryggi og afbrýði­semi. Þetta er svo lúmskt. Það tók mig langan tíma að átta mig á að þetta væri einelti. Mér fannst ég bara vera ömur­leg. Ef það er sagt nógu oft við þig þá verður niðurstaðan sú í huga þér að þú hljótir að vera ömurleg.“ Það tók hana heilt ár að segja mömmu sinni frá einelt­inu sem hún varð fyrir í nýja skólanum.

„Mamma áttaði sig strax og setti merkimiðann á hvað var í gangi. Þetta var einelti,“ segir Aníta sem fór þá aftur í gamla skólann sinn. Hún var á þessum tíma einka­barn og segist ekki hafa verið vön því að taka slaginn. „Ég þurfti ekki að berjast fyrir hlutunum eða dótinu mínu því ég eignaðist ekki systkin fyrr en ég var orðin 14 ára. Ég á ennþá svolítið erfitt með að standa með sjálfri mér. Ef fólk fer í hart við mig þá fer ég í algjöran baklás. Ég lem ekki í borðið. Ég er að reyna að vera ákveðnari í að standa á mínu.“ Að því sögðu segist hún hafa lært að þeir sem berji í borðið séu ekki endilega alltaf þeir sem viti best. „Það kom mér á óvart þegar ég fór út í heim­inn að þeir sem tala hæst og eru ákveðnastir eru ekki endi­lega þeir sem vita best, þó ég hafi haldið það þegar ég var yngri.“

Anita Briem leikkona

Fyrsta kauphækkunin

Aðspurð um hvernig gangi að semja um laun þegar hún eigi erfitt með að berja í borðið lifnar allt andlitið við og bjart bros brýst út. Ljúf minning skýtur upp kollinum. „Þegar ég var 12 eða 13 ára var ég í minni annarri uppfærslu sem var Kardimommubærinn. Ég pantaði tíma hjá Stefáni Bald, sem var þjóðleikhús­stjóri á þeim tíma, og sagði að mér fyndist að ég ætti að fá aðeins hærri laun. Það væri ekki hægt að ég væri á sama taxta og í minni fyrstu uppfærslu þegar ég var 9 ára. Kannski hefur honum fundist þetta nógu undar­legt, þetta varð allavega til þess að hann lét mig fá ein­hverja smá kauphækkun. En síðan þá hef ég alltaf verið með umboðsmann. Alveg frá því að ég útskrifaðist úr leik­listarskólanum. Það er núna fyrst þegar ég er komin aftur til Íslands að vinna að ég er farin að semja aftur sjálf,“ segir Aníta og viðurkennir að það sé ekki eitthvað sem henni finnist eftirsóknarvert. „Ég er alveg ömurleg í því. Ég ætti náttúrlega ekki að viður­kenna það. Ég bara þrífst ekki á því að eignast sem mest af peningum. Ég hef bara aldrei verið þannig. Það var aldrei nein umræða í mínu uppeldi um peninga. Það var engin meðvitund hjá mér þegar ég var barn um peninga.

Mamma hefur sagt mér eft­ir að ég varð fullorðin að það var oft mjög erfitt hjá þeim peningalega og jafnvel tæpt að kaupa í matinn. Ég fann aldrei fyrir því og vissi ekki hvað merkjavara var eða dýr húsgögn. Það var bara aldrei talað um það. Það var aldrei í minni meðvitund. Ég veit ekki hvort það var út af því, en peningar eru ekki það sem keyrir mig áfram. Ég lifi bara þann­ig að ef ég hef það þægilegt, hef húsaskjól og get séð fyrir mínu fólki og fæ að vinna við það sem ég elska, þá er ég hamingjusöm.“

Alsæl í Vesturbænum

Aðspurð um hvort það sé minni spenna fólgin í verk­efnum hérlendis en í Los Angeles, þar sem hún hefur verið búsett ásamt eiginmanni sínum og dóttur um árabil, segir hún það af og frá. „Ég hef fengið að kafa ofan í verk­efni og persónur í verkefnum hér heima, sem eru svo miklu meira spennandi og krefjandi heldur en ég hef verið að gera úti. Það, fyrir mér, er allt. Við búum í yndislegri í búð í Vesturbænum, það að geta labbað í Vesturbæjarlaugina og á Kaffi Vest er stórkost­legt. Ég hef bara aldrei verið hamingjusamari,“ segir Aníta, sem flutti alfarið til landsins í sumar ásamt sex ára gamalli dóttur sinni Míu og eigin­manni sínum Constantine Par­askevopoulos.

Constantine er grískættaður en hefur búið í Bandaríkjunum lengi, þar sem hann starfar sem leikstjóri og handritshöfundur.Hvernig gengur honum að aðlagast hér á Íslandi? Hún hlær. „Það er ekki kom­in reynsla á það. Hann var fastur svo lengi í Bandaríkj­unum á þessu ári. Ég er búin að vera hérna síðan í janúar með Míu, en hann kom ekki fyrr en í júní. Fyrst ætlaði ég bara að vera í þrjá mánuði í kvikmyndaverkefni en svo kom Covid. Í fyrra hafði ég svo komið í nokkra mánuði þegar tökur á Ráðherranum stóðu yfir. Þá kom Mía með mér mér og mér fannst það æðislegt tækifæri að hún fengi að koma hingað og fara í skóla í nokkra mánuði. Svo þegar það kom að því að fara aftur heim þá var ég bara ekki til í það.“Aníta segir uppeldið sem Reykjavík bjóði upp á hafa kallað á heimkomu. „Það er ofboðslega mikill menningar-munur á Íslandi og Bandaríkj-unum. Það eru auðvitað aug-ljósir hlutir eins og frelsið, að hún geti skottast ein út á róló eða út í Kjötborg úti á horni, sex ára gömul. Þó hún væri tólf ára þá fengi hún ekki að fara neitt ein í Bandaríkjunum. Ef ég er að versla í matinn í súpermarkaði þá sleppi ég aldrei af henni takinu. Ég hugsaði líka hvernig einstak-ling er ég að móta? Það er allt annar einstaklingur sem kem-ur undan því að eyða æsku sinni í borg eins og Los Ange-les eða í Reykjavík. Allt í einu fannst mér óhugsandi að hún myndi ekki alast upp í Reykjavík, mér þykir svo ótrúlega vænt um þennan stað.“

Taldi niður dagana

„Ég fann þetta svo ótrúlega sterkt. Því að koma heim fylgdu alls ekki blendnar til-finningar eða málamiðlanir. Það er svo þakklátt í lífinu þegar þú upplifir svona stundir. Þegar það er enginn vafi á að það sem þú ert að gera sé það rétta. Þannig var þetta. Bara eins og þruma. Ég fór aftur út eftir að tökum á Ráð-herranum lauk og það var alveg ótrúlega erfitt. Mér fannst óbærilega erfitt að koma út úr þeim heimi sem hafði skapast við tökurnar og yfirgefa persónurnar, sem voru auðvitað ekki alvöru fólk, en ég hafði helgað mig í þennan tíma og ég var líka mjög treg að fara frá Íslandi. Þegar mér var boðið að koma í janúar og leika í Skjálfta, sem er kvikmynd gerð eftir bók Auðar Jónsdóttur, þá byrjaði ég strax að telja niður dagana í að koma aftur heim. Ég var samt ekki að hugsa um að flytja heim. En þegar tökur á Skjálfta voru að klárast og Covid tók við, þá fann ég að ég var í raun fegin að fá að vera á Íslandi áfram. Þá áttaði ég mig á að ég þurfti að staldra við og hlusta á inn­sæið.“

Aníta segist búa vel að því að hafa búið erlendis en hún bjó átta ár í London áður en hún flutti til L.A. „Mér finnst mikilvægt að hafa upplifað að fólk gerir hlutina allt öðruvísi í öðrum menningarheimum og það má gera alls konar. Það er svo mikilvægt fyrir ungt fólk að sjá og skilja hvað er verið að gera annars staðar í heim­inum og svo er núna dásam­legt að geta komið aftur heim með þá vitneskju og þroska í farteskinu og kunna að meta landið sitt á djúpstæðari hátt. Ég hef verið svo lánsöm með öllum þessi tækifærum sem mér hafa verið gefin í alls konar hlutverkum hér á einu ári, að fyrir mér er ekkert sem ég vil meira en að vera hér á Íslandi. Hér vil ég vera.“ Aníta segist ekki vera föst í hugmyndum um frama í út­löndum. Í raun sé málið af­skaplega einfalt. „Þetta snýst bara um hvernig manni líður og hvar maður er hamingju­samur. Ef ég hugsa bara um mitt listamannslíf þá er ég að nærast þúsund sinnum betur hérna heima en ég hef gert lengi. Það er bara ekki saman­burðarhæft.“

Hús er bara hús

Í júní hófust tökur á kvik­myndinni Svar við bréfi Helgu eftir samnefndri bók. Con­stantine, eiginmaður Anítu, kom þá til landsins og var fljótur að átta sig á að eitthvað lá Anítu á hjarta. „Við áttum í kjölfarið mjög heiðarlegt og erfitt samtal. „Ég sagði hon­um að ég fyndi það svo sterkt að það væri ekkert annað í boði fyrir mig og fyrir dóttur okkar. Hann fór ekki strax í vörn eins og ég bjóst við. Ég varpa þessari sprengju á hann en hann sagði: „Aníta, ég ætla að vera nógu skynsamur til þess að taka mér smá tíma og hugsa málið.“ Hann gerði það og kom til baka með tillögu. Við erum að klára að byggja okkur hús í Los Angeles sem er að verða tilbúið og hann spurði hvort ég væri ekki tilbúin í að við færum aftur út, kláruðum húsið og gengjum frá okkar málum og myndum svo flytja til Íslands eftir ár.Ég svaraði að ég þyrfti að fara út í göngutúr að hugsa málið og gjörsamlega grét þar úr mér augun við tilhugsun­ina. Þá hugsaði ég bara: Nei, þetta gengur ekki. Ég var svo viss í hjarta mínu að þetta væri rétt. Þegar hjartað er að tala svona ákveðið til þín eins og það gerði hjá mér, þarf að standa með því,“ segir Aníta sem býr nú á Ásvallagötu með fjölskyldunni sinni. Nýja húsið stendur hins vegar autt í Los Angeles. „Þetta er bara hús, hús er bara hús. Við getum leigt það út. Húsið er bara efniviður. Hús eða æska barnsins míns?“

Nú talar hún með höndunum og leggur áherslu á það sem hún segir. „Það er bara ekki spurning hvað ég vel. Ég gat illa hugs­að mér að dóttir mín myndi missa þessa nálægð við ömmu sína, frænku og stórfjölskyld­una. Ég ólst upp í mjög nánu sambandi við ömmur og afa og það er svo mótandi.“ Aníta er lausnamiðuð og flækir ekki málin að óþörfu. Þegar hún er spurð hvað eiginmaður hennar ætli sér í atvinnumálum hefur hún ekki áhyggjur. „Fólk er ekki að koma saman í Bandaríkj­unum. Hann getur unnið í sínum verkefnum mestmegnis úr fjarlægð. Það er svo spenn­andi orka í bransanum hérna heima, svo hver veit nema að hann fari að gera eitthvað hér. Það er bara allt opið.“

Lífshættuleg þráhyggja

„Það sem mótaði mig mest sem barn og ungling var leikhúsið. Ég eyddi mestu af mínum tíma frá 9 til 16 ára í leikhúsinu. Ef ég var ekki þar var ég að hugsa um hve­nær ég kæmist þangað næst. Þegar jafnaldrar mínir voru á djamminu þá var ég í leik­húsinu og vildi hvergi annars staðar vera. Ég var alltaf mjög meðvituð um það að leiklistin er afl sem getur auðveldlega hrifið fólk með sér. Ég var því strax 10 ára gömul farin að hugsa um hvort ég væri svona hrifin af leiklist vegna sviðsins og athyglinnar, eða hvort það væri eitthvað dýpra og meira. Ég gerði mér strax grein fyrir því að ef ég ætlaði að gera leiklistina að ævi­starfi mínu yrði það að vera af réttum ástæðum.“ Aníta er komin af listafólki og vissi að sviðslífið var ekki bara dans á rósum. „Ég vissi að þetta er oft krefjandi og erf­itt líf. Fjölskyldumynstrið sem fylgir því og peningavesen.“

Sextán ára gömul var Aníta hins vegar komin með það á hreint að ekkert annað kæm­ist að en leiklistin og hún flutti til London í undirbúningsnám í leiklist. Árið áður hafði hún veikst mjög alvarlega af anorexíu og foreldrar hennar studdu hana í að breyta um umhverfi og fluttu með henni til Bretlands. „Að skipta um umhverfi gerði mér rosalega gott og ég náði að setja fókusinn á nám­ið.“ Aníta segir sjúkdóminn hafa tekið mikinn toll af sér og hún var lögð inn á spítala með næringu í æð og í kjöl­farið dvaldi hún á barna­ og unglingageðdeild í tvo mánuði. „Í mínu tilfelli þá finnst mér sjúkdómurinn koma út frá persónuleikaeinkenni sem er þessi ofboðslegi agi og súp­er fókus sem jaðrar við þrá­hyggju. Sjúkdómurinn talaði inn á það svið og þarna gat ég stjórnað öllu. Fyrir mig hafði sjúkdómurinn miklu meira með stjórnun, aga og þráhyggju að gera heldur en líkamlegt útlit. Þessi persónu­leikaeinkenni eru enn sterk í mér en ég hef fundið þeim heilbrigðari farveg í leiklist­inni. Ég hef meðvitað verið að beina þessari orku á upp­byggjandi stað. Ég get setið klukkustundunum saman yfir handriti og brotið það niður og sökkt mér í það á meðan áður fyrr sökkti ég mér í næringar­fræði og þráhyggjan tók lífs­hættulega stefnu,“ segir Aníta, sem segist ekki finna fyrir einkennum anorexíu í dag.

„Það er mikilvægt fyrir mig að borða vel og vera heilbrigð og hraust svo að hausinn á mér virki sem best. Ég finn að ef ég er ekki að borða vel og nóg, þá er einbeitingin ekki til staðar og ekki líkamlegur kraftur og styrkur. Ég er það lánsöm að þetta hangir ekki yfir mér í dag.“ Aníta segir að hún gæti vel hugsað sér að koma að að­stoð fyrir ungar konur í sömu sporum. „Það hefur örugglega margt breyst, en mér fannst þegar ég var að takast á við þetta að aðferðafræðin væri mjög gamaldags. Eldri maður, sálfræðingur, að segja mér hvað þetta væri hættulegt sem ég væri að gera. Ég vissi alveg hvað þetta var hættu­legt. Það er ekki rökhugsunin sem er í gangi í höfðinu á þér.“

Anita Briem leikkona

Árásarmaður í leyni

Aníta hefur verið mjög eftirsótt sem leikkona hérlendis. Má þá helst nefna sjónvarpsseríuna Ráðherrann sem Saga Film framleiðir og Rúv sýnir, kvikmyndina Skjálfta, sem Tinna Hrafnsdóttir leikstýrir og verður frumsýnd á næsta ári, kvikmyndina Svar við bréfi Helgu, byggða á samnefndri bók eftir Bergsvein Birgisson, leikstýrt af Ásu Helgu Hjörleifsdóttur, og Berdreymi sem Guðmundur Arnar Guðmundsson leikstýrir. Hún segir öll þessi verkefni vera með þeim mest krefjandi á ferli sínum en í Skjálfta leikur Aníta flogaveika konu og er hlutverkið því mjög krefjandi líkamlega. Hún sökkti sér langt ofan í karakter persónunnar sem hún leikur, með öllu því sem tilheyrir. „Síminn minn er fullur af myndböndum af mér að æfa mig að fá flogaveikiköst. Það var nauðsynlegt að ná þessu rétt.

Myndin snýst ekki um flogaveiki en flogaveikin sjálf er samt stórt púsluspil í atburðarásinni. Auður Jónsdóttir, höfundur bókarinnar sem handritið er skrifað eftir, lýsti þessu svo vel þegar hún sagði að þetta væri eins og að vera með árásarmann hangandi yfir sér og vita aldrei hvenær hann ræðst á þig.“ Aníta rannsakaði sjúkdóm-inn og andlegar og líkamlegar afleiðingar hans til þess að ná utan um persónuna sem hún myndi leika. „Auður Jóns kom mér í samband við Kára (Stefánsson, forstjóra Íslenskrar erfða-greiningar og taugalækni) og hann gaf mér góða innsýn í taugafræðina og af því að hann er svo góður sögumaður sjálfur þá gat hann útskýrt svo vel áhrifin sem sjúkdómurinn hefur á líkamlega sem og andlega velferð. Ég man að ég labbaði út af skrifstofunni hans og fékk hnút í magann. Ég hugsaði: Nú er eins gott að ég geri þetta vel. Hann fylgist með því að ég komi þessu vel frá mér og verður án nokkurs vafa óhræddur að láta mig heyra það ef ég klúðra þessu.“

Þegar tökum lauk svaf Aníta í tvo daga, algjörlega úrvinda. „Þetta var krefjandi en um leið alveg mögnuð saga. Per-sónan missir minnið í stóru flogaveikikasti og um leið hverfur öll meðvirkni með fjölskyldu og vinum og hún fer að krefjast þess að tekið sé á ýmsum málum þegar hún fær ferska sýn á fjölskyldulífið.“

Einn ljótasti eiginleikinn

Talið berst að kjaftasögum og um hvernig það sé að vera komin aftur í „litla þorpið“ sem Reykjavík er, í saman-burði við bandaríska stórborg. Það er vissulega fegurð fólgin í litlu, nánu samfélagi sem er fljótt að hlaupa undir bagga með vinum og ættingjum þegar illa fer, en að sama skapi er stutt í Gróu á Leiti. „Ég verð seint sannfærð um það að þetta tvennt, al-úðin sem við eigum sem sam-félag og kjaftasögur, sé tengt að einhverju leyti eða þurfi hvort á öðru að halda. Mér finnst þessi þörf til að slúðra einn ljótasti eiginleiki manneskjunnar og ég hef alltaf þolað hann mjög illa. Ég trúi svo mikið á þessa þjóð. Ég trúi því að við getum stofnað til átaks og haft Ísland bara alveg slúðurlaust 2020. Getum við ekki bara gert það?“ Upplifir þú þessa slúðurmenningu sterkari hérlendis ?„Já, ég geri það og finn þörf fyrir að halda mig aðeins til hlés af því að ég finn að um leið og ég geri það ekki þá byrja kjaftasögur og ég er frekar viðkvæm fyrir því og mér finnst það ljótt. Fólk áttar sig ekki á að kjaftasögur geta verið svo meiðandi og sært miklu fleiri en þann sem sag-an er um.“ Einlægnin sem einkennir Anítu skín sterkt í gegnum lífsviðhorf hennar. Virðing fyrir fólki er henni mikilvæg og segir hún ekki þurfa meira en að horfa á hlutina í gegnum augu barna sinna til að sjá hversu meiðandi slúður er í raun. „Ef dóttir mín kæmi heim með sögur um vini sína, færi að tala um að hún hefði nú heyrt þetta og hitt og þessi væri svo leiðinleg, ég myndi nú bara segja henni að steinhætta! Ef það er að vefjast fyrir okkur hvað er rétt og rangt og hvernig við getum verið betri manneskjur, þá er gott að hugsa hvernig maður myndi tala fyrir framan barnið sitt og spegla sig í því,“ segir Aníta.

Hún virðist alsæl og miklu meira en sátt við að hafa yfirgefið Hollywood fyrir Vesturbæjarlaug, kakó með fjölskyldunni á Kaffi Vest og mörg mögnuðustu kvikmyndaverkefni næstu ára

Aníta Briem Mynd: Anton Brink
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fókus
Fyrir 2 dögum

Paris Jackson hefur ekki snert heróín í 5 ár – Birtir áhrifaríkt myndband sem sýnir muninn á henni þá og nú

Paris Jackson hefur ekki snert heróín í 5 ár – Birtir áhrifaríkt myndband sem sýnir muninn á henni þá og nú
Fókus
Fyrir 2 dögum

Ástin logaði á hvíta tjaldinu – Ásakanir um kynferðislega áreitni, ofbeldi og einelti loga nú milli stjarnanna

Ástin logaði á hvíta tjaldinu – Ásakanir um kynferðislega áreitni, ofbeldi og einelti loga nú milli stjarnanna
Fókus
Fyrir 3 dögum

Fundu leyniherbergi í 200 ára gömlu húsi sem einhver hafði lokað af

Fundu leyniherbergi í 200 ára gömlu húsi sem einhver hafði lokað af
Fókus
Fyrir 3 dögum

Dó í ellefu mínútur og lýsir upplifuninni – Segist vita hvað bíður að handan

Dó í ellefu mínútur og lýsir upplifuninni – Segist vita hvað bíður að handan