Saga Icelandair hófst fyrir rúmum 80 árum þegar lítið flugfélag var stofnað á Akureyri. Svonefnd flugþerna var ráðin til starfa árið 1946 til að sinna farþegum.
Icelandair á rætur að rekja til ársins 1937 þegar stofnað var flugfélag á Norðurlandi að nafni Flugfélag Akureyrar. Saga flugfélagsins spannar því rúma átta áratugi og er samtvinnuð sögu Íslands á 20. öldinni. Í mars 1940 var Flugfélag Akureyrar flutt til Reykjavíkur og nafni þess breytt í Flugfélag Íslands. Áður höfðu tvö félög með þessu sama nafni starfað um skamma hríð, 1919-1920 og 1928-1931.
Vorið 1942 tókst Flugfélaginu fyrir heppni að eignast fyrstu tveggja hreyfla flugvél Íslendinga. Þetta var átta sæta Beechcraft D-18 landflugvél og með henni má segja að reglubundið áætlunarflug hafi fyrst hafist hér á landi. Flogið var til Akureyrar, Egilsstaða og Hornafjarðar. Haustið 1944 urðu þau tímamót í íslenskri flugsögu að íslenskar áhafnir flugu í fyrsta sinn yfir Atlantshaf.
Konur fengu hlutverk
Um leið og farþegum fjölgaði í flugvélunum varð þörf fyrir að þeim væri sinnt á ferðalaginu. Langan tíma tók að fljúga á milli staða, jafnvel innanlands. Nú fengu því konur hlutverk í fluginu. Fyrsta svonefnda flugþernan, Sigríður Gunnlaugsdóttir, var ráðin til starfa hjá Flugfélagi Íslands sumarið 1946 og ekki vantaði áhugann.
Þegar næsta staða var auglýst hálfu ári síðar sóttu 50 konur um hana. Samt var þetta erfitt starf, sérstaklega í millilandafluginu, þegar tvær flugfreyjur þurftu að þjóna tugum farþega við erfiðar aðstæður klukkustundum saman. En flugævintýrið heillaði og flugfreyjustarfið varð strax virðingarstaða. Kristín Snæhólm varð hlutskörpust í samkeppninni og átti hún farsælan flugfreyjuferil allt til ársins 1980.
Líkamlega erfitt að þola þýstinginn
Flugfarþegar urðu lengi vel að sætta sig við talsverð óþægindi í flugferðum. Flugvélarnar voru lengi að komast milli landa, bæði vegna þess að þær fóru mun hægar yfir en nútíma vélar og eins varð að fljúga lægra vegna þrýstingsmunarins. Stundum var beinlínis líkamlega erfitt að þola hann. Því var nánast ógerlegt að fljúga ofar veðri og vindum.
Þetta gjörbreyttist þegar Flugfélag Íslands eignaðist tvær skrúfuþotur. Kaupin vöktu mikla athygli hérlendis og þóttu stórt framfaraspor í flugmálum landsmanna. Þær voru fyrstu íslensku flugvélarnar sem knúnar voru með hverfilhreyflum og höfðu þrýstijöfnunarbúnað í farþegarýminu. Því var hægt að fljúga allt upp í 25.000 feta hæð, en á fyrri vélum urðu menn að vera með súrefnisgrímur ef farið var yfir 10.000 feta hæð. Með tilkomu þessara nýju véla var í fyrsta sinn í sögu flugs á Íslandi hægt að fljúga fram og til baka á einum degi. Flugtíminn til Kaupmannahafnar styttist til dæmis um heilar tvær klukkustundir, varð fjórar og hálf klukkustund.
Saga Class kynnt til sögunnar
Haustið 1972 ákváðu stjórnvöld að beita sér fyrir sameiningu Loftleiða og Flugfélags Íslands. Stjórnir beggja félaganna náðu samkomulagi 11. apríl 1973 og stofnfundur Flugleiða var haldinn 20. júlí 1973. Fyrst um sinn flugu flugvélarnar undir merkjum Loftleiða Icelandair og Icelandair, en söluskrifstofurnar voru senn sameinaðar. Reksturinn gekk brösuglega, meðal annars vegna erlendrar samkeppni. Menn vildu þó reyna að finna leiðir til að nýta sér mismunandi auraráð flugfarþega og kröfur um þægindi.
Ákveðið var að skipta farþegarýminu um borð í Flugleiðavélunum í tvennt og bjóða aukin þægindi og meiri þjónustu gegn hærri greiðslu. Nýjungin var nefnd Saga Class og var fyrst reynd 1. apríl 1984. Reyndar sátu Saga Class-farþegarnar áfram í eins sætum og almennir farþegar. Það var ekki fyrr en árið 1988 sem gömlu sætunum var skipt út fyrir ný og breiðari sæti á Saga Class.
Flugstöðin í Keflavík vígð
Flugstöð Leifs Eiríkssonar var vígð 15. apríl 1987. Upphaflega hafði verið gert ráð fyrir því að hún yrði 24.000 fermetrar en það þótti allt of stórt. Engan óraði sjálfsagt fyrir því að farþegum sem færu um stöðina myndi fjölga svo ört að innan fárra ára yrði hún of lítil. Þegar fyrsta skóflustungan var tekin fóru 460.000 farþegar árlega um Keflavíkurflugvöll en árið 2006 voru þeir orðnir 2.000.000.
Tvívegis hefur því þurft að bæta við húsrýmið og árið 2007 var gólfflötur Leifsstöðvar orðinn 56.000 fermetrar. Sjötugsafmæli Icelandair Group, afkomandi Flugfélags Akureyrar, fagnaði 70 ára afmæli sínu í stórhýsi Flugsafnsins á Akureyrarflugvelli 3. júní 2007. Félagið var þá með 19 Boeingþotur í rekstri og flaug til 25 áfangastaða í Evrópu og Norður-Ameríku, allt að 160 ferðir á viku frá öllum áfangastöðum. Alls störfuðu um 3.000 manns hjá Icelandair Group sumarið 2007.