Alþjóðlega kvikmyndahátíðin RIFF (Reykjavík International Film Festival) hófst í kvöld með frumsýningu myndar Andra Snæs Magnasonar og Anní Ólafsdóttur, Þriðja Póllisins, sem fór fram í Háskólabíó.
Ekki vantaði kvikmyndagerðarfólkið, eða umfjöllunarefni og stjörnur myndarinnar, þau Önnu Töru Edwards og Högna Egilsson á sýninguna. Ekki nóg með það, heldur mætti forsetafrúin Eliza Reid, fyrrverandi forsetinn Vigdís Finnbogadóttir, borgarstjórinn Dagur B. Eggertsson og þingkonan Helga Vala Helgadóttir, auk fleirra sem eru áberandi í menningarlífi Íslendinga. Grímur voru áberandi og menningarelítan til fyrirmyndar.
RIFF er nú haldin í 17. skiptið, þar eru sýndar fjölbreyttar kvikmyndir, stuttar sem langar, íslenskar sem erlendar, gamlar sem nýjar (þó flestar séu nýjar). Flestar sýningarnar fara fram í Bíó Paradís, en um er að ræða mjög mikilvægan viðburð í íslensku menningarlífi. Hægt er að kynna sér hátíðina betur og kaupa miða eða passa hér.
Hér að neðan má sjá myndir sem teknar voru á frumsýningunni.