fbpx
Fimmtudagur 14.nóvember 2024
Fókus

Ráðherrann sem stefndi aldrei á pólitík og glósar sér til gamans – „Þetta er samstarfsverkefni“

Tobba Marinósdóttir
Laugardaginn 12. september 2020 21:15

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Lilja Dögg Alfreðsdóttir, mennta- og menningarmálaráðherra, er fædd árið 1973 í Reykjavík. Hún er dóttir Alfreðs Þorsteinssonar, fyrrverandi borgarfulltrúa sem lést 28. maí sl., og Guðnýjar Kristjánsdóttur prentsmiðs.

Lilja hlaut óhefðbundið og fjörugt uppeldi þar sem foreldrar hennar unnu lengi vel óhefðbundinn vinnutíma. „Mamma og pabbi störfuðu bæði í blaðaprenti. Pabbi var lengi blaðamaður áður en hann varð stjórnmálamaður og mamma var í umbroti. Ég er því alin upp á vaktaplani. Mamma var á vöktum í blaðaprentinu átta til fjögur eða fimm til tólf. Hún er alger toppmanneskja, þvílíkt dugleg,“ segir Lilja sem ætlaði sér ekki að fara í stjórnmál þó að hún sé komin af pólitískum foreldrum.

Það var móðir Lilju sem upprunalega gekk í Framsóknarflokkinn sem eiginmaður hennar Alfreð starfaði síðar fyrir til lengri tíma.

„Ég fæ uppeldi sem miðar að því að við systurnar værum við sjálfar og aldrei tengt því að við værum stelpur. Pabbi fór með okkur allt og mamma fór með okkur allt. Það var engin verkaskipting þar á. Þú átt að standa þig og gera það sem þú vilt og það var aldrei talað um kyn í því samhengi,“ segir Lilja, aðspurð um hvort hún hafi þurft að berjast meira fyrir hlutunum af því að hún sé kona. „Ég hef ekki upplifað það en ég legg talsvert mikið á mig og vil standa mig vel.“

Lilja hefur vakið aðdáun fyrir glæsilegan klæðaburð og smekkvísi. Hún segir það þó ekki alltaf hafa verið svo. „Ég eignaðist til dæmis ekki hárþurrku fyrr en ég hætti í Seðlabankanum.“ Klæðaburðurinn í bankanum var minna mál og reiknivélin helsti fylgihluturinn. „Ég legg meiri áherslu á málefnin en klæðnaðinn þó það sé auðvitað gaman að vera vel til fara.“

 

Konan með háu bunkana

Tæp 68 prósent aðspurðra eru ánægð með frammistöðu Lilju sem mennta- og menningarmálaráðherra, samkvæmt könnun Maskínu sem gerð var í apríl 2019. Þó er Lilja engin já-manneskja og er óhrædd við að rugga bátnum sé þess þörf. Hún er afkastamikil og hefur á ferli sínum komið mörgum mikilvægum verkefnum í gegn og virðist keyra málin áfram af miklum krafti og eldmóð.

Þegar Lilju er fylgt eftir kemur fram önnur líkleg skýring á vinsældum hennar. Hún nær listavel að sameina virðingu fyrir fólki og húmor. Mennta- og menningarmálaráðherra er nefnilega meinfyndin og skemmtileg, sem sést til dæmis á samstarfsfólkinu sem hún hefur laðað að sér og einlægum hlátri sem berst fram eftir ráðuneytisganginum.

Skrifstofa Lilju er björt, skreytt heimagerðum listaverkum barna hennar og háir hælar eru geymdir í horni skrifstofunnar. Það eru skjöl og blöð í háum stöflum og undirstrikunarpennar og glósur víða um skrifstofuna. „Það er mikið að gera,“ segir hún og nikkar í átt að skrifborðinu. Ekki afsakandi, heldur skælbrosandi eins og henni þyki vænt um skrímslabunkana sem myndu valda mörgum kvíðakasti.

 

Glósar sér til gamans

Lilja á eina yngri systur, Lindu Rós sem er þremur árum yngri og starfar í félagsmálaráðuneytinu í málefnum flóttamanna. Aðspurð um hvort Linda sé mjög pólitískt þenkjandi brosir Lilja. „Já, við erum mjög miklar vinkonur þannig að það er allt rætt,“ segir ráðherrann í því sem síminn hringir.

„Hringir hún!“ segir Lilja og lýsist upp. Það er greinilegt að systrasamtölin eru algeng og kærkomin.

„Ég er í viðtali og það er verið að tala um þig. Ég sagði að þú værir mjög mikil Framsóknarkona,“ segir Lilja í símann og það er mikið hlegið áður en þær kveðjast og Lilja lofar systur sinni að halda sig á mottunni varðandi yfirlýsingar um hana.

„Þegar mamma var að vinna fór pabbi oft með okkur systur í bíó, stundum tvisvar í viku. Við sáum allar myndir. Ég fæ enn nostalgíu við að fara í bíó. Þetta var æðislegt,“ segir Lilja. Fjölskyldan var alla tíð mjög samheldin og hefur Lilja dálæti sitt á bókum og sagnfræði frá föður sínum sem kenndi þeim systrum snemma að viska og geta ætti rætur sínar að rekja til góðra bóka og hefur Lilja haldið þeim hugmyndum á lofti.

„Það er læsi þjóðar okkar sem kom okkur frá því að vera ein fátækasta þjóðin og á þann stað sem við erum í dag. Að geta lesið sér til gagns er ómetanlegt. Mér finnst ofboðslega gaman að lesa og nýt þess alltaf meira og meira,“ segir Lilja og veiðir bók upp úr veskinu sínu. „Þetta er okkar maður, Aristóteles,“ segir hún og blaðar í bókinni sem hún virðist glósa í bak og fyrir.

Glósar þú í bækurnar?

„Já. Ég skrifa oft svona aftast í þær. Tek saman það sem mér finnst áhugavert,“ segir Lilja sem hefur sérstakan áhuga á sagnfræði-, hagfræðiog stjórnmálabókum.

Þú glósar auðvitað í allar spennubækur líka, er það ekki?

„Jú, mjög nákvæmlega,“ hún skellir upp úr. „Nei, ég geri það nú ekki.“

Trump og hagfræðin

Talið berst að hagfræði en Lilja lærði alþjóðahagfræði við Columbia University og hefur meðal annars starfað hjá Alþjóðagjaldeyrissjóðnum og Seðlabankanum.

„Þú verður góður hagfræðingur með því að skilja samfélagið þitt. Hagfræðin segir okkur svo margt. Ég er til dæmis núna að lesa bók sem heitir The Riches of This Land eftir Jim Tankersley. Hann er að spá í það hvað kom fyrir amerísku millistéttina og af hverju hún fer allt í einu að kjósa Trump.

Hafandi lært og búið í Bandaríkjunum kom þetta mér ekki mjög á óvart. Þá kemur hagfræðin inn og af hverju hún er svona spennandi. Raunlaun verkafólks í Bandaríkjunum hafa verið þau sömu síðastliðin 25 ár. Millistéttin þarf því að hafa miklu meira fyrir hlutunum í dag en fyrir 25 eða 30 árum. Þegar það gerist á sér stað samfélagsbreyting og millistéttin fer að kjósa Repúblikana í stað Demókrata. Þarna þarf að ná utan um hver kjör fólks eru til þess að skilja hvað það er síðan líklegt til að gera.“

Þörf á tækifærum

Lilja segir það gríðarlega mikilvægt að allir fái tækifæri. Án þeirra sé voðinn vís og fólki haldið niðri líkt og ástandið í Bandaríkjunum ber vitni um. „Niðurstaða mín er sú að menntun sé helsta hreyfiaflið ásamt nýsköpun. Samfélög sem sjá til þess að menntakerfið sé öflugt og fjölbreytt og standist alþjóðlegan samanburð, þeim vegnar vel. Að sama skapi er mikilvægt að huga stöðugt að nýsköpun.

Stjórnvöld voru að samþykkja nýja stefnu Vísinda- og tækniráðs, sem er mjög metnaðarfull og leggur grunninn að sterkara samfélagi,“ segir Lilja. Hún bendir á að í sterkri íslenskukunnáttu leynist einnig tækifæri. „

„Ég brenn til dæmis fyrir velferð barna með annað móðurmál en íslensku, því ég kem úr Breiðholtinu og hef séð hvernig það hverfi hefur þróast. Ég vil bæta stöðu þessara barna því við vitum að ef þau ná ekki góðum tökum á íslenskunni þá er erfiðara að fara á framhaldsskólastig.

Þessi bók sem ég er að lesa núna gengur svolítið út á það að menntun er mesta hreyfiafl samtímans. Og núna vil ég tengja menntunina og hagfræðina. Það kemur í ljós þegar við erum að skoða atvinnuleysið í dag að 50% eru grunnskólamenntuð, sama er að gerast í Bandaríkjunum. Þetta segir okkur að þarna þarf menntakerfið að koma betur inn til þess að búa til tækifæri. Það geta allir, með menntun sem hentar þeim, fundið sína fjöl í lífinu.“

Ef vinnumarkaðurinn er skoðaður sést að það er þörf fyrir breiðan hóp fólks og segir Lilja að þar halli á verkog listnám. „Það þarf að vera skýrt í hugum fólks að verkog listnám sé metið til jafns við háskólanám. Allir hafa frjálst val og við þurfum að tryggja það að börn átti sig á hvað sé í boði. Það byrjar ekki í 10. bekk heldur miklu fyrr.“

Ryksugan látin víkja fyrir samverustundum

Eiginmaður Lilju er Magnús Óskar Hafsteinsson hagfræðingur en þau kynntust heima hjá foreldrum hennar í afmæli hjá Lindu Rós, systur Lilju, fyrir 23 árum.

Langir og krefjandi vinnudagar í bland við fjölskyldulíf og heimilishald eru oft krefjandi. Aðspurð um „mömmusamviskubit“ segist Lilja ekki þjást af því. „Ég er ekki með samviskubit og ég fylgist rosalega vel með þeim,“ segir Lilja en Eysteinn Alfreð sonur þeirra Magnúsar er 13 ára og dóttir þeirra Signý Steinþóra er 10 ára.

„Ég reyni að fara með þeim eins mikið og ég get þótt þetta séu langir dagar. Ég eyði mjög miklum tíma með fjölskyldunni. Það er vinna og fjölskylda. Ég geri ekki mikið annað en það er helst að mér finnist tíminn vera svo stuttur sem maður er með þau hjá sér. Þau vaxa svo hratt. Það er aðallega það sem mér finnst erfitt,“ segir Lilja

„Mamma og pabbi unnu alltaf mjög mikið en við vorum samt mikið saman. Þetta snýst ekki um fjölda klukkustunda sem er eytt saman heldur hvernig þið eyðið tímanum þegar þið eruð saman.“

Lilja bendir á mynd af langömmu sinni sem var fædd 1910 og vann alla sína tíð og rak matsölu í Aðalstræti 12. „Mínar fyrirmyndir eru konur sem vinna og eru líka með heimili. Auðvitað er alveg nóg að gera. Ég hugsa alveg hvort ég sé nokkuð að gleyma einhverju í Mentor,“ segir Lilja og vísar í upplýsingakerfi sem grunnskólar nota til að halda utan um heimanám.

„Þetta er samstarfsverkefni. Maðurinn minn sér til dæmis um að halda utan um tómstundir barnanna og sinnir okkur öllum mjög vel. Magnús er vakinn og sofinn yfir velferð barnanna ásamt því að hafa mikinn áhuga á stjórnmálum. Mamma og tengdaforeldrarnir eru einnig afar hjálpsöm og stuðningsrík. Ég er mjög þakklát fyrir fjölskyldu mína. Ég myndi ekki ná að sinna þessu öllu ein, það er víst.“

Forgangsröðunin skiptir sköpum við að halda mörgum boltum á lofti og virðist Lilja vera með það á hreinu. Þegar heim er komið er ekki verið að rífa strax upp ryksuguna. Þrifin eru látin bíða og við tekur samverustund.

Lilja hefur alla tíð haldið fjölskyldunni til hlés og segir það meðvitaða ákvörðun. „Ég er í þessu starfi því ég valdi mér það. Börnin mín og maðurinn minn hafa ekki valið sér það. Mér finnst að þau eigi rétt á að vera þau á sínum forsendum en ég tek þau mikið með mér þó þau séu ekki endilega á myndum með mér. Mér finnst að heimilið sé griðastaður. Hjá foreldrum mínum var það svipað. Vinnan er vinnan og heimilið er heimilið.”

Fullar rútur af reiðum bankamönnum

Lilja er ekki óvön því að takast á við „fordæmalausa tíma“ en hún stóð í stafni skútunnar þegar hún starfaði hjá Seðlabanka Íslands í bankahruninu og stýrði að hluta til þeirri löngu og ströngu vinnu sem afnám fjármagnshaftanna fól í sér og íslenskt efnahagslíf átti allt sitt undir. „Sem endaði með þessum stöðugleikaframlögum sem eru aldeilis fín núna þegar þarf að fjármagna eitt og annað vegna COVID-ástandsins,“ segir Lilja en vinnan á bak við afnám haftanna var ekki einföld. „Niðurstaðan er ekki sjálfgefin. Hópurinn sem stóð að þessari vinnu var skipaður mjög öflugum einstaklingum. Markmiðið var að gera greiðslujöfnuð þjóðarbúsins sjálfbæran og að uppfylla þyrfti stöðugleikaskilyrðin og þetta tókst!“ segir Lilja stolt af samningunum sem eru kallaðir samningar aldarinnar í nýlegri bók Sigurðar Más Jónssonar.

Í bókinni, sem kallast Afnám haftanna, samningar aldarinnar? lýsir Jón Þ. Sigurgeirsson, framkvæmdastjóri alþjóðasamskipta og skrifstofu bankastjóra Seðlabankans, ástandinu sem blasti við þeim Lilju eftir hrun bankanna haustið 2008:

„Fyrr en varði hafði Reykjavík fyllst af fokvondum þýskum og japönskum bankamönnum. Í miðri ringulreiðinni brá útsjónarsamur bankamaður, Davíð Blöndal, á það ráð að útvega rútu fyrir hina allra reiðustu og láta aka þeim milli helstu stofnana. Í Seðlabankanum tókum við Lilja Alfreðsdóttir á móti þeim í móttökunni á sjöttu hæð. Seðlabankinn vann þá út frá þeirri reglu að funda með öllum sem óskuðu þess og svara öllum fyrirspurnum sama hversu óþægilegt það kynni að vera. Við ætluðum vart að trúa okkar eigin augum þegar hver full lyftan af annarri opnaðist og út stigu bálreiðir bankamenn. Virtist þetta engan endi ætla að taka. Við vísuðum þeim inn í stærsta fundarherbergi bankans og reyndi starfsfólkið í fáti að safna saman fleiri stólum fyrir þá sem brátt fylltu herbergið. Það sauð á þeim. Um leið og þeir voru sestir byrjaði háreysti sem minnti á senur í kvikmyndum sem fjalla um þýskar fangabúðir.“

„Þetta var mikil upplifun en ég var alltaf sannfærð um að við værum að breyta rétt með því að setja neyðarlögin á og standa vörð um ríkissjóð Íslands,“ segir Lilja þegar hún er spurð út í atburðarásina sem lýst er. Hún segir ríkið ekki hafa getað tekið á sig skuldir sem komu frá bankakerfinu, því annars hefði ríkissjóður lent í þroti. „Þannig að ég var alltaf mjög brött í þessari vinnu, því mér fannst ég vera að vinna fyrir þjóðina og hagsmuni hennar.

Þó að þetta hafi auðvitað reynt mikið á, þá var það samt þannig að samstarfsfólk mitt í Seðlabankanum var mjög vandað og með hjartað á réttum stað. Lærdómurinn var einnig mikill og hann hefur nýst mér mikið. Ég nota sömu hugmyndafræðina í dag, það er, fyrst náum við utan um heilbrigði og menntun þjóðarinnar og í kjölfarið kemur atvinnulífið. Ég er eins sannfærð og ég var þá, um að við séum á réttri leið. Ef sýnin og markmiðið er skýrt, þá verða leiðirnar að því góðar.“

Stjórnmál voru ekki markmiðið

„Ég stefndi alls ekki á pólitík. Ég hafði verið mjög virk í félagslífinu og var formaður nemendaráðsins í Fellaskóla. Og ef það var eitthvað verið að gagnrýna skólann eða EfraBreiðholt þá hringdi ég í fjölmiðla. Ég elskaði að takast á um það sem skipti mig máli og þá var fljótlega farið að benda á að það væri augljóst í hvaða átt ég stefndi. Að ég færi í stjórnmál en svo fór ég í Seðlabankann og kunni alveg rosalega vel við það. Mér fannst það alveg ofboðslega gaman. Svo var ég í raun bara sótt í bankann,“ segir Lilja sem í dag horfir út um gluggann á skrifstofunni sinni í ráðuneytinu og yfir í gömlu skrifstofuna sína í Seðlabankanum.

„Það er ekkert endilega víst að fólk fái brennandi áhuga á stjórnmálum þó það taki að sér pólitísk verkefni. En ég fékk það og mér finnst þessir málaflokkar, menntaog menningarmál, vera helsta framtíðarráðuneyti þjóðarinnar. Ég er líka hrifin af fólkinu í Framsóknarflokknum, það er framsýnt og umburðarlynt.“

Aðspurð hvað henni finnist síst við stjórnmálastarfið svarar hún: „Þú ert á sviði, það hafa allir skoðanir á því sem þú ert að gera og þú verður að átta þig á því. Og þá er auðvitað mjög gott að hafa átt föður sem var í stjórnmálum. Hann sagði við mig: Svona eru bara stjórnmálin. Það þarf rosalegt margt að ganga upp til að þú náir einhverju í gegn. Það þarf að hafa mikið fyrir því að ná góðum málum í gegn og leggja mjög hart að sér. Þetta er hörkuvinna.“

Lilja segir að það sé ekki skrítið að fólkið í landinu hafi skoðanir á þeim sem það kýs til valda. „Það er líka þetta eftirlitshlutverk og aðhald sem almenningur veitir. Þú þarft að íhuga að ákvarðanir þínar hafa áhrif og hver þau verða og hvaða viðbrögð þau kalla á. Ég hef alveg hugsað stundum að þetta sé mjög krefjandi en ég valdi að starfa við þetta. Þegar fólk hefur skoðanir á því sem ég hef verið að gera þá tek ég því. Ég vissi að það yrði þannig og það þarf oft að taka erfiðar ákvarðanir sem mælast ekki alltaf vel fyrir.“

Menntun, nýsköpun og hagkerfið sem er drifið áfram af hugviti er framtíðin að sögn Lilju. „Ef við horfum í kringum okkur og skoðum hvar eru betri lífskjör og meira af vel launuðum störfum, þá er það þar sem mikið er um nýsköpun, tækni og menntun.

Þetta er áratugur framkvæmda og nýsköpunar. Þær þjóðir sem dragast aftur úr eru þær sem huga ekki að tækni og nýsköpun og það þarf að hugsa um við hvað unga fólkið okkar vill starfa.

Það er sem betur fer að aukast eftirspurn í tækni- og iðnnám og í raun allt nám.“ Það er ekki lengur horft til þess að mennta sig í einu fagi sem er svo starfað við út ævina. Fólk er í sífellt meira mæli að söðla um og auka fjölbreytni menntunar sinnar. „Við erum að sjá mikla aukningu í að háskólamenntaðir séu að fara í starfs- og tækninám,“ segir Lilja sem fagnar því.

 

Kvikmyndagerð ekki stopp

Efnisveitan Netflix hefur stoppað upptökur á sjónvarpsþáttum og kvikmyndum víða um heim sökum kórónafaraldursins. Ísland er eitt af fáum löndum sem enn stendur til að halda tökum gangandi á, á vegum Netflix.

Tryggja þarf að endurnýjun eigi sér stað í kvikmyndaiðnaðinum og að landsmenn eigi kost á að mennta sig í faginu hérlendis á háskólastigi. Lilja segir Kvikmyndastefnu vera á lokametrunum og að stefnt sé að því að bjóða upp nám í kvikmyndagerð á háskólastigi.

„Við eigum að fara mjög stórhuga inn í 21. öldina. Skimunargeta okkar gerir okkur enn sterkari og heilbrigðiskerfið er sterkt sem gerir okkur í stakk búin til að taka á móti erlendum verkefnum. Ég vil að nýr Listaháskóli rísi í náinni framtíð og við bindum vonir við ný fög og aukna fjölbreytni. Ásamt því er löngu tímabært að reisa þjóðarleikvang fyrir íþróttirnar.“

Hvað listafólk varðar sem orðið hefur fyrir miklu tekjutapi eru lausnir í vinnslu sem kynntar verða fyrir ríkisstjórninni á næstu dögum. „Við erum að vinna að sérstökum aðgerðum sem listafólk getur nýtt og ég er mjög bjartsýn á að við sjáum tilslakanir hér á næstu vikum er varða menningarviðburði. Við erum einnig að setja saman leiðbeiningar fyrir menningarstofnanir ásamt almannavörnum til að hægt sé að halda viðburði.“

Þá liggur beinast við að spyrja hvað stefni í varðandi jólin, en landsmenn eru annálaðar jólakúlur með mikla þörf fyrir hinar ýmsu jólaskemmtanir. „Ég er sjálf mikið jólabarn og legg áherslu á að landsmenn komist á sína jólatónleika og skemmtanir og ég er bjartsýn á það.

Við höfum alla burði til að koma út sem sterkara samfélag eftir faraldurinn því við höfum styrkt innviði okkar til muna,“ segir Lilja og bendir á að í Bandaríkjunum séu börn sem hafi ekki farið í skóla síðan í febrúar. „Við höfum getað haldið skólunum opnum og verðum að halda skólunum opnum. Við megum ekki vera með kynslóðir sem líða fyrir það að hafa verið til dæmis í 10. bekk í faraldrinum. Við getum verið leiðandi í þessum faraldri og höfum verið það.“

Frændsemi og fjölmiðlastyrkir

400 milljónum króna í formi rekstrarstyrks var úthlutað í vikubyrjun til einkarekinna fjölmiðla til að mæta efnahagslegum áhrifum COVID-19. Lilja hefur talað fyrir slíkum styrkjum til frambúðar.

„Ég myndi vilja að fjölmiðlafrumvarpið nái fram að ganga en það þarf að nást pólitísk sátt um það. Ég er alveg opin fyrir því að gera einhverjar breytingar á frumvarpinu,“ segir Lilja en frumvarpið er lagt upp að norrænni fyrirmynd þar sem árlegir rekstrarstyrkir eru greiddir af ríkinu til einkarekinna fjölmiðla.

En hvað með einkarekna skóla? Hvað finnst þér um þá? „Ég tel að það eigi að vera fjölbreytileiki. Ég legg mikla áherslu á að það sé sterkt opinbert kerfi en það skiptir máli að ef metnaðarfullir einstaklingar vilja reka skóla finnst mér að við eigum að styðja við þá.“

Lilja, með sitt sagnfræðiblæti, getur þulið upp þróun ýmissa ríkja tengt dagvistunarmöguleikum og gleymir sér í heillandi tölfræði sem undirstrikar áherslu á að tryggja að konur komist á vinnumarkaðinn og að góð dagvistun sé tryggð.

„Það er meiri hagvöxtur, atvinnuþátttaka og velmegun samhliða því að konur mennti sig og taki þátt í atvinnulífinu.“

Verandi sjálf kona í mjög karllægu umhverfi sem lengi vel hefur þrifist á frændsemi segist hún þó finna lítið fyrir því að vera beðin um vinargreiða. „Það eru lög um opinber fjármál og það er allt í opnu og gagnsæju ferli. Auðvitað er oft verið að biðja um alls konar hluti en það er ekkert endilega fólk sem kannast við mann eða þekkir til. Það er helst þá bara eitthvert ókunnugt fólk. Þeir sem þekkja mann vita að það er óviðeigandi.“

Þegar óviðeigandi hegðun berst í tal liggur beinast við að spyrja Lilju út í hvernig samband hennar sé við Sigmund Davíð Gunnlaugsson í dag en það var hann sem stóð fyrir því að fá Lilju úr Seðlabankanum og yfir í forsætisráðuneytið sér til stuðnings. Eins og frægt er orðið varð hún fyrir barðinu á Klaustursdónunum, eins og hópur stjórnmálamanna hefur verið kallaður sem svívirti samstarfsfólk sitt með niðurlægjandi tali og grófri kvenfyrirlitningu síðla árs 2018, þar sem þau sátu að drykkju á bar í miðborginni.

„Það mál er í mínum huga bara afgreitt. Ég sagði mína skoðun á þessu máli, þetta kom mér verulega á óvart og mér fannst það leitt. Ég segi alltaf hvað mér finnst og þeir vita það alveg. Ég hef setið fundi með þessu fólki og það er ekki vandamál,“ segir Lilja keik.

Það er ljóst að stóru málin eru víða og þau þarf að tækla en ekki dvelja við fortíðina. Það þarf að móta framtíð heillar þjóðar og Lilja er bjartsýn. „Ég tel að jákvætt hugfar breyti miklu og hugsa alltaf í lausnum. Eitt bros getur dimmu í dagsljós breytt, orti Einar Benediktsson. Ég hef þetta ljóð hans oft hugfast, af því að það skiptir máli að sýna mildi og miðla málum.“

 

 

 

 

 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Atli Hrafn farinn frá HK
Fókus
Fyrir 2 dögum

Sagðist ætla að sænga hjá öllum þessum pöbbum – Kom upp um sig í þessu myndbandi

Sagðist ætla að sænga hjá öllum þessum pöbbum – Kom upp um sig í þessu myndbandi
Fókus
Fyrir 2 dögum

Óvænt heimsókn til ömmu slær í gegn meðal netverja

Óvænt heimsókn til ömmu slær í gegn meðal netverja
Fókus
Fyrir 2 dögum

Þór Tulinius opnar sig um erfiðleika: „Líf dóttur minnar gengur út á að lifa af frá degi til dags“

Þór Tulinius opnar sig um erfiðleika: „Líf dóttur minnar gengur út á að lifa af frá degi til dags“
Fókus
Fyrir 2 dögum

Kristbjörg opnar sig: „Ég veit að margir eiga erfitt eða hafa stundum átt erfitt með það sama“

Kristbjörg opnar sig: „Ég veit að margir eiga erfitt eða hafa stundum átt erfitt með það sama“
Fókus
Fyrir 4 dögum

Sara Lind telur ólíklegt að hún snúi aftur heim – „Mér finnst bara næstum því allt betra í Danmörku“

Sara Lind telur ólíklegt að hún snúi aftur heim – „Mér finnst bara næstum því allt betra í Danmörku“
Fókus
Fyrir 4 dögum

Bókaspjall: Merkilegar sannsögur og dýrlegt smásagnasafn

Bókaspjall: Merkilegar sannsögur og dýrlegt smásagnasafn
Fókus
Fyrir 5 dögum

Sara Lind kynlífsfræðingur: „Ef þú ert í svona sambandi, þá ertu ástar- og kynlífsfíkill“

Sara Lind kynlífsfræðingur: „Ef þú ert í svona sambandi, þá ertu ástar- og kynlífsfíkill“
Fókus
Fyrir 5 dögum

Lýsir mjög vafasamri hegðun Russel Brand eftir að hafa tekið viðtal við hann

Lýsir mjög vafasamri hegðun Russel Brand eftir að hafa tekið viðtal við hann