Vigfús Bjarni Albertsson sjúkrahúsprestur er í forsíðuviðtali í nýjasta helgarblaði DV. Hér birtist brot úr viðtalinu.
Starf sjúkrahúsprests hefur verið óhefðbundið á ákveðinn hátt síðustu mánuði, eins og flestallt annað á tímum kórónaveirunnar. „Þetta hefur verið krefjandi tími fyrir marga, til dæmis sjúklinga sem þurftu að liggja inni á sjúkrahúsi en urðu jafnframt að vera einangraðir. Það reynir á að geta ekki verið í samskiptum við fólkið sitt. Ég hef kynnst mörgum fjölskyldum sem ástandið hefur reynt mikið á. Oft var þetta mjög sárt, eins og þegar fólk lést og ástvinir gátu ekki haft útförina eins og þeir hefðu viljað. Það er líka erfitt að hafa ekki aðgang að fólkinu sínu á dánarbeðinum. Fólk hefur skilið varúðarráðstafanir vitsmunalega, en þetta hefur verið flókið fyrir fólk tilfinningalega.“
Hann varð snemma var við svokallaðan heilsuótta, þar sem fólk hafði áhyggjur af sinni eigin heilsu í faraldrinum, og einangrunin sem fylgir hefur faldar afleiðingar. „Við erum félags- og tengslaverur. Við erum vön því að geta tekist í hendur og faðmast. Ég held að mannskepnan þoli illa að vera ekki í nánd. Fyrirbærið einangrun hefur verið beitt í refsilöggjöf því hún getur brotið mannsandann niður. Þessi einangrun nú hefur ekki síður áhrif á mannsandann sem er okkar lífsorka. Það er hreinlega hægt að slökkva á lífsorku fólks. Þetta er viðkvæmur tími og við þurfum að vera almennileg hvert við annað.“
Viðtalið í heild sinni má lesa í nýjasta helgarblaði DV.
Einfalt er að gerast áskrifandi að prent- og/eða vefútgáfu blaðsins hér: dv.is/skraning