Tónlistarkonan Laufey Lín Jónsdóttir var heldur betur hissa þegar ein vinsælasta söngkona heims, Billie Eilish, deildi myndbandi hennar á Instagram. Í samtali við DV segist Laufey vera í „mjög miklu sjokki en ótrúlega ánægð.“
Sjá einnig: Laufey vekur athygli Billie Eilish – Deilir myndbandinu til 66 milljóna fylgjenda
Billie Eilish er með rúmlega 66 milljón fylgjendur á Instagram og deildi myndbandi Laufeyjar, þar sem hún syngur ábreiðu af laginu, „My Future“, í Instagram Story. „My Future“ er nýjasta lag Billie Eilish og hefur fengið yfir 70 milljón spilanir á Spotify.
https://www.instagram.com/p/CEpFSi4HeHW/
„Þetta kom mér mjög á óvart, ég bjóst alls ekki við þessu,“ segir Laufey Lín og rifjar upp þegar hún áttaði sig á að Billie Eilish hafði deilt myndbandinu hennar. Allt í einu byrjaði hún að fá fullt af meldingum (e. notifications) á Instagram.
„Þetta var mikið af Billie Eilish aðdáendasíðum og ég fór að hugsa að kannski hefði Billie deilt myndbandinu mínu, en mér fannst það svo ólíklegt,“ segir hún og hlær.
Laufey Lín semur eigin tónlist og er mikið fyrir djasstónlist. „Ég deili oftast ábreiðum af lögum eftir fólk sem er ekki lifandi lengur. Þannig að þetta er í fyrsta skipti í langan tíma sem ég deili myndbandi af mér syngja lag sem var samið á þessari öld, fyrir utan mína tónlist. Ég var alls ekki að búast við því að hún myndi deila myndbandinu því ég næ varla að sjá allar mínar meldingar, þannig ég hef enga hugmynd um hvernig hún sá myndbandið mitt. En ég er bara í sjokki,“ segir Laufey.
Hún segir að ástæðan fyrir því að hún hafi tekið ábreiðu af My Future hafi verið vegna þess að það sé „svo mikið djass í laginu. Og mín tónlist er svipuð, blanda af djassi og smá popptónlist,“ segir hún.
Áður en Billie Eilish deildi myndbandinu var Laufey með um 47-48 þúsund fylgjendur á Instagram. Hún er núna með rúmlega 55 þúsund fylgjendur. Hún segir tölurnar ekki skipta hana miklu máli en það skemmtilegasta við nýju fylgjendur hennar er að stór hluti þeirra eru Íslendingar. „Ég hef búið erlendis í langan tíma þannig það er svo gott að tengjast Íslendingum og sjá fleiri Íslendinga,“ segir hún.
Vinnur að plötu í London
Laufey stundar nám við Berklee-tónlistarskólann í Boston og flutti þangað árið 2018. Hún flutti nýlega til London til að vinna í plötunni sinni, þar sem skólinn er alfarið á netinu núna. Það er óhætt að segja að spennandi tímar séu framundan hjá Laufeyju.
„Það er einhvern veginn allt að gerast á sama tíma. Það gerist eitthvað nýtt spennandi á hverjum einasta degi,“ segir hún.
https://www.instagram.com/p/CEHu7JJnZk9/
Laufey Lín hefur getið sér gott orð sem söngkona og vakið athygli landsmanna fyrir sína einstöku rödd. Hún sló í gegn í Iceland Got Talent árið 2014, en þá var hún aðeins fjórtán ára gömul. Hún tók einnig þátt í The Voice Ísland árið 2015 og komst í undanúrslit. Það er ljóst að Laufey Lín á framtíðina fyrir sér og verður gaman að fylgjast með henni.