fbpx
Miðvikudagur 15.janúar 2025
Fókus

Sakamál: Þegar Laura hvarf

Ágúst Borgþór Sverrisson
Laugardaginn 29. ágúst 2020 19:30

Laura Ackerson. Youtube-skjáskot

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Grant Hayes og Laura Ackerson kynntust árið 2006 á litlum tónleikastað þar sem hann flutti eigin lagasmíðar, söng og lék á gítar. Með þeim tókust náin kynni og þau eignuðust saman tvo drengi. Sambandið varð stormasamt og parið sleit samvistir árið 2009. Upphófst þá hatrömm forræðisdeila.

Sagan gerist í NorðurKarólínu í Bandaríkjunum og teygir sig raunar með óvæntum og undarlegum hætti til Texas. Grant Hays bjó í bænum Raleigh en Laura í Kinston eftir að þau slitu samvistir og hófu að deila um forræði yfir börnunum.

Af ókunnum ástæðum var Grant úrskurðað forræði yfir sonunum til bráðabirgða til eins árs, á meðan hafði Laura aðeins umgengnisrétt við þá um helgar og féll henni þetta mjög þungt. Í millitíðinni áttu bæði að gangast undir sálfræðimat og aðrar athuganir. Grant hélt því fram að Laura ætti við geðræn vandamál að stríða. Laura staðhæfði hins vegar að Grant neytti ofskynjunarlyfja og hefði undarlegar hugmyndir um gang tilverunnar. Hann hafði reynt að fá hana til að trúa því að hann væri tímaferðalangur, að verur frá öðrum hnöttum sætu um hann og freistuðu þess að nema hann á brott, og þessar verur væru sama fólkið og stjórnaði Bandaríkjunum.

Árið 2009, rétt eftir sambandsslitin við Lauru, kynntist Grant leikkonunni Amöndu og þau giftust. Hún var þá 46 ára gömul og ferill hennar sem leikkonu var gjörsamlega misheppnaður. Hún hafði leikið aukahlutverk í örfáum sjónvarpsþáttum en sárafá önnur verkefni fengið. Grant var þrítugur um þetta leyti og barðist við að koma sér á kortið sem lagasmiður og söngvari. Grant og Amanda Hayes eignuðust saman dóttur.

Örlagadagurinn 13. júlí

Um mitt sumar 2011 var Laura bjartsýn á framtíðina. Hún var þá farin að geta nýtt menntun sína sem hönnuður og var að stofna tvö fyrirtæki með viðskiptafélögum sínum. Laura var um þetta leyti 27 ára gömul. Hún var afar vongóð um að henni yrði dæmt forræði yfir sonunum tveimur en úrskurður í því máli átti að falla rúmum mánuði síðar.

Þann 12. júlí fékk hún tölvupóst frá Grant þar sem hann bauð henni að koma í heimsókn og hitta drengina. Þetta var óvenjulegt enda var næsti umgengnistími Lauru um komandi helgi. Hún þáði boðið hins vegar með þökkum og ók eins og hálfs klukkustundar leið frá heimabæ sínum, Kinston, til Raleigh.

Um kvöldið átti Laura von á símtali frá mikilvægum viðskiptafélaga. Sú kona varð uggandi þegar henni tókst ekki að ná sambandi við hana enda var það mjög ólíkt Lauru að svara ekki slíkum símtölum né hringja til baka.

Tveimur dögum síðar var lýst eftir Lauru en þá hafði enginn heyrt frá henni og hún hafði, að sögn, ekki birst heima hjá Grant og Amöndu til að ná í syni sína þegar umgengnistími hennar þá helgi rann upp.

Lögreglan hóf rannsókn sína ekki fyrr en upp úr 20. júlí. Fljótlega fannst bíll Lauru fyrir utan fjölbýlishúslengju í Raleigh. Í einni íbúðinni bjuggju Amanda og Grant Hayes. Aðkoman vakti undir eins grunsemdir lögreglu því íbúðin angaði af klór. Hún var auk þess afar tómleg og í hana vantaði muni á borð við sturtuhengið, ryksugu og margt fleira.

Í íbúðinni fannst miði með undirritaðri yfirlýsingu þess efnis að Laura afsalaði sér forræði yfir drengjunum og umgengni við þá gegn 25.000 dala greiðslu. Undirskriftin líktist skrift Lauru en enginn sem þekkti hana lagði trúnað á þetta.

Amanda Hayes neitaði sök. Youtube-skjáskot

Ótrúleg meðferð á líkamsleifum

Það er engin ástæða til að fara í grafgötur með að lausnin á því hvað hafði komið fyrir Lauru blasti fljótlega við. Hér hafði verið framinn glæpur af yfirlögðu ráði, útreiknaður. En að sama skapi virtust gerendurnir lítið hafa hugsað út í það hvernig þau ætluðu að komast upp með glæpinn.

Í íbúðinni fundust lífsýni úr Lauru en gögn úr eftirlitsmyndavélum og stórverslunum Walmart og Target sýndu að hjónin höfðu keypt alls konar búnað sem að gagni getur komið við að losa sig við lík, til dæmis hlífðargleraugu, svarta plastpoka, vélsög, klór, einangrunarlímband og ýmislegt fleira. Daginn eftir þessi innnkaup hafði Grant leigt flutningabíl og keypt mörg kælibox.

Einnig höfðu hjónin séð til þess að börnin þrjú væru hjá móður Amöndu daginn sem Lauru hafði verið boðið í heimsókn, einmitt til að hitta syni sína.

Gögn úr eftirlitsmyndavélum sýndu Amöndu setja einhverja ótilgreinda hluti í bleyti. Kom á daginn síðar að hún hafði reynt að leysa líkamsleifar Lauru upp í sýrubaði. Það hafði ekki tekist og því ákváðu hjónin að flytja líkið í kældum flutningabíl til Richmond í Texas þar sem systir Amöndu bjó, við vík eina þar sem krókódílar synda um í fljótinu sem rennur þar í gegn. Amanda fékk bát systur sinnar lánaðan og hann var notaður til að varpa líki Lauru í vatnið.

Eftir nokkra leit fundust höfuð og búkur sem reyndust vera líkamsleifar Lauru. Rannsóknarlögreglumaður sem stýrði rannsókninni í Texas sagði í fjölmiðlaviðtali að þetta hefði verið hryllilegasta aðkoma að vettvangi glæps sem hann hefði upplifað á 30 ára ferli sínum.

Grant Hayes verður minnst fyrir eitthvað annað en tónlist hans. Youtube-skjáskot

Sökuðu hvort annað um glæpinn

Aldrei tókst að úrskurða nákvæmlega hvernig Laura hefði látist en þó var talið að hún hefði fengið þungt högg á höfuðið. Það er hafið yfir allan vafa að hún var fyrir löngu látin áður en henni var varpað niður í fljótið til krókódílanna.

Ástæðan fyrir þessum ótrúlega glæp er talin vera sú að Grant og Amanda vildu flytja með drengina, ásamt dóttur sinni, til New York og losna við Lauru úr lífi sínu. Þar ætlaði Grant að freista gæfunnar sem tónlistarmaður. Mikil hætta virtist á því að Laura myndi vinna forræðismálið.

Bæði Amanda og Grant neituðu sök í málinu og bentu hvort á annað. Grant sagði að Amanda hefði hatað Lauru en Amanda sagði að hún hefði aðstoðað við að losna við líkamsleifar Lauru af ótta við Grant.

Bæði voru fundin sek um morð af yfirlögðu ráði. Grant hlaut ævilangt fangelsi. Amanda hlaut 13 ára fangelsi fyrir hlutdeild sína í morðinu á Lauru og 20 ára fangelsi fyrir meðferð sína á líkamsleifum hennar.

Málið þykir vera með óhugnanlegustu og óvenjulegustu glæpum í Bandaríkjunum á seinni árum og er þó þar af nógu að taka.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fókus
Fyrir 2 dögum

Gefa sparnaðarráð fyrir ferðir til Íslands – „Það er ekki búist við þjórfé á Íslandi“

Gefa sparnaðarráð fyrir ferðir til Íslands – „Það er ekki búist við þjórfé á Íslandi“
Fókus
Fyrir 2 dögum

Sigurrós um hörmuleg örlög bróður síns – Segir að aðrir íbúar hafi viljað opna inn til hans en því hafi verið hafnað – „Hann hefði ekki þurft að deyja þarna“

Sigurrós um hörmuleg örlög bróður síns – Segir að aðrir íbúar hafi viljað opna inn til hans en því hafi verið hafnað – „Hann hefði ekki þurft að deyja þarna“