Margrét Björnsdóttir er ósátt við kynjahalla í vali RÚV á barnaefni og bendir á að meirihluti þáttaraða sem eru í boði á RÚV eru um karlkyns söguhetjur. Hún skorar á RÚV að bæta aðgang barna að sjónvarpsefni sem sýnir stelpur jafnt sem stráka í forystu- og ábyrgðarhlutverkum.
„Ég vil auðvitað að ríkisfjölmiðill fylgi sínum eigin lögum og sýni sama metnað í sjónvarpsefni fyrir börn eins og þau gera fyrir fullorðna. Það er margt gott sem RÚV gerir en hér þurfa þau að sinna lögbundnu hlutverki sínu og bæta verulega gæði sjónvarpsefnis fyrir börn“ segir Margrét í samtali við DV.
Margrét vekur athygli á málinu á Facebook og hefur færslan vakið mikla athygli. Yfir 400 manns hafa líkað við færsluna og rúmlega 170 manns hafa deilt henni áfram þegar greinin er skrifuð. Fjöldi fólks hefur einnig skrifað við færsluna og tekið undir með Margréti.
Skarphéðinn Guðmundsson, dagskrárstjóri sjónvarps hjá RÚV, skrifar við færslu Margrétar og þakkar henni fyrir réttmæta ábendingu.
„Erum mjög meðvituð um þennan meinlega kynjahalla og höfum því markvisst verið að vinna í að leiðrétta hann. Ein mesta áskorunin þar er sú staðreynd að þessi halli helgast fyrst og fremst af almennum skorti á barnaefni með kvenkyns söguhetjum. En síðustu ár hefur það horft til mikilla bóta og þennan halla ætlum við og munum leiðrétta hið fyrsta, með öllum ráðum og dáðum því auðvitað eiga börnin okkar betra skilið,“ segir Skarphéðinn.
Hér að neðan geturðu lesið færslu Margrétar í heild sinni.
„Mig langar að vekja athygli á óásættanlegum kynjahalla í vali RÚV á barnaefni. Það er ekki boðlegt að ríkisfjölmiðill, sem öllum ber að greiða til, skuli ekki mæta lágmarks kröfum um jafnréttissjónarmið í dagskrágerð sinni – sérstaklega í sjónvarpsefni fyrir ung börn sem mótast af umhverfi sínu. Árið er 2020 og ennþá eru börn að horfa á barnaefni þar sem strákar eru sterkir og í forystuhlutverkum, á meðan stelpur eru gjarnan aukapersónur og þá til stuðnings.
Þetta er ekki bara skaðlegt fyrir stelpur heldur sendir þetta röng skilaboð til allra barna og endurspeglar ekki samfélag þar sem allir eiga jöfn tækifæri!
Ég skora hér með á RÚV að taka stökkið inní 21. öldina og fylgja eigin lögum um hlutverk og skyldur þess, þar sem segir m.a. skýrt að því beri að hafa hlut karla og kvenna sem jafnastan í starfsemi Ríkisútvarpsins og í dagskrá þess. Það er hagur allra að börn hafi aðgang að vönduðu sjónvarpsefni sem sýni stelpur jafnt sem stráka í forystu- og ábyrgðarhlutverkum.
Fyrir áhugasama er listi yfir meirihluta þáttaraða sem er í boði:
Sammi brunavörður
Bubbi byggir
Símon
Hæ Sámur
Húrra fyrir Kela
Kátur
Konráð og Baldur
Unnar og vinur
Refurinn Pablo
Lalli
Robbi og skrímsli
Pósturinn Páll
Hinrik hittir
Hvolpasveit
Flugskólinn
Stuðboltarnir
Músahús Mikka
Alvin og íkornarnir
Þvegill og Skrúbbur
Letibjörn og læmingjarnir
Múmínálfarnir.“