fbpx
Þriðjudagur 21.janúar 2025
Fókus

„Það er enginn það frægur á Íslandi að hann geti ekki gert það sem hann vill“

Tobba Marinósdóttir
Miðvikudaginn 26. ágúst 2020 20:00

Auðunn Blöndal Mynd: Valli

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Sjónvarpsmaðurinn Auðunn Blöndal varð fertugur fyrir skemmstu og er kominn langt frá ógeðsdrykkjunum sem gerðu hann frægan. Hann hefur lært á sjálfan sig, sefað athyglissýkina og honum fylgir ró og sátt. Þessi eldri og einlægari útgáfa af einum frægasta sjónvarpsmanni landsins sýnir mann sem hefur eflst í starfi og á nóg eftir.

Hér birtist í heild sinni helgarviðtal sem birtist 14.ágúst.

Auddi, eins og hann er kallaður, er fæddur á Sauðárkróki en fjöl-skyldan staldraði þó stutt við og fluttu þau í Breiðholtið þegar Auddi var tveggja ára. Því næst bjuggu þau eitt ár á Selfossi og fóru svo til Bandaríkjanna, þar sem faðir hans stundaði nám, og loks til Svíþjóðar. Auddi á tvær systur, Maríu Blöndal, sem er fjórum árum eldri en hann, og Dagbjörtu Blöndal, sem er fimm árum yngri. „Við fluttum mikið. Pabbi fór að læra flugvirkjann í Bandaríkjunum og ég held að ég hafi orðið mun betri vinur systra minna því við vorum alltaf saman á ferðalögum. Við spiluðum mikið heima og fjölskyldan var mjög samrýnd,“ segir Auddi sem flutti svo aftur á Krókinn ellefu ára gamall þar sem foreldrar hans tóku við rekstri flugvallarins.

„Ég þekkti engan á Króknum þegar við fluttum aftur til baka en það var fljótt að koma. Sauðárkrókur er mikill íþróttabær og ég fór beint í að æfa fótbolta og körfu og eignaðist fljótt vini sem eru enn mínir bestu vinir.“ Auddi þótti efnilegur í íþróttum og á nokkur mörk í fyrstu deild í fótbolta og varð Íslandsmeistari í körfubolta með Tindastól. Í dag heldur hann sig við ræktina og svo-kallaðan bumbubolta þar sem nokkrir vinir hittast og spila. Auddi er þó í hörkuformi og segist sakna þess að spila af alvöru. „Það er þessi klefastemming sem maður saknar. Allir að vinna saman að einhverju. Ég öfunda íþróttafólk af því. Að vinna saman og tapa saman,“ segir Auddi sem hefur löngum gengist við því að vera mjög tapsár og á köflum lasinn þegar það kemur að Manchester United og Tindastól í körfubolta. Húmorinn fyrir slæmu gengi liðanna er í lágmarki sem gerir þó lítið til því hann gerir grín að flestu öðru. Auddi segist þó komast í annars konar klefastemmingu í starfi sínu í dag. Vissulega sé sigrum fagnað. „Það er mikið gert grín að okkur Steinda því við fögnum öllu sem við gerum. Fyrsta þættinum, síðasta þættinum, besta þættinum, þannig að það er klefastemming í því þó hún sé öðruvísi, minni sviti og minna grátið.“

Leiðinlegt barn

„Ég launaði foreldrum mínum hvað ég var leiðinlegur krakki með því að vera góður unglingur. Ég launaði þeim þessi 15 ár af viðbjóði með því að byrja að drekka seint og vera bara fínn unglingur,“ segir Auddi sem var það erfiður að um tíma var haldin hegðunardagbók fyrir hann í grunnskólanum í Breiðholti þar sem hann stundaði nám. Á Sauðárkróki fann hann sig í íþróttunum og var almennt nokkuð slakur, foreldrum sínum til mikillar gleði. „Við vinirnir byrjuðum ekki að drekka fyrr en kannski um 18 ára. Það var aðallega verið að hugsa um íþróttir þó það hafi verið unglingadrykkja á Sauðárkróki eins og annars staðar.“

Auddi segist hafa verið stoltur sveitalúði alla sína tíð og aldrei upplifað Sauðárkrók sem eitthvert hallærisbæli. „Það var alveg gert grín að mér eftir að ég flutti í bæinn, ég var reglulega minntur á að ég væri frá Sauðárkróki, en mér finnst það geggjaður bær og mér finnst alltaf frábært að fara út á land.“ Sauðárkrókur hefur vissulega sinn sjarma en það verður að taka það fram að þar búa aðeins um 2.500 manns og þegar Auddi tók bílpróf þurfti að keyra til Akureyrar til að finna hringtorg og umferðarljós. Auddi segir það klárlega vera hluta af sjarmanum frekar en mínus að sínu mati.

Með skottið á milli lappanna

Foreldrar Audda skildu þegar hann var 18 ára. Þrátt fyrir að hafa ekki verið barn segir hann skilnaðinn hafa verið mikið áfall. „Þetta kom bara eins og þruma úr heiðskíru lofti og mér fannst það mjög erfitt.“ Foreldrar hans og systur fluttu í bæinn en Auddi barð-ist í bökkum við að halda sér á Króknum innan um bestu vinina og stefndi á að klára fjölbrautaskólann. Tilvonandi sjónvarpsstjarnan starfaði á leikskóla með námi til að borga niður verstu fjárfestingu lífs síns eins og hann kallar það – rauðan Hyundai Coupé sem var einhvers konar vandræðaleg útfærsla á kóreskum fólksbíl sem vildi svo innilega vera sportbíll. „Ég keypti bílinn á 100% láni. Þetta var komið í algert vesen. Bíllinn var skráður á ömmu greyið sem var alltaf að fá einhverjar rukkanir og ég var alltaf að reyna að græja þetta. Það var eiginlega allt komið í rugl hjá mér. Þá keyrði eldri systir mín bara norður og sótti mig. Pakkaði niður fyrir mig og sagði mér að ég væri að koma suður með henni, hún væri búin að redda mér vinnu. Ég fór því bara í bæinn með skottið á milli lappanna.“ Þessi slæma fjárfesting er hluti af ástæðunni fyrir því að Auddi fór aldrei í háskóla enda snerust næstu ár að miklu leyti um það að borga niður bílinn og fór svo að hann endaði með að borga hann upp tvisvar. „Þetta er versta fjár-festing lífs mín og um leið besta; ég lærði svo mikið af þessu.“ En var bíllinn ekkert að gera neitt fyrir hann félags-lega? Töffara á nýjum bíl?„Nei, það var misskilningur. Ég hélt það en það fylgdi þessu enginn status,“ segir Auddi og hlær. „Fólk gerði grín að mér. Ég var ennþá á þessum bíl þegar ég byrjaði í 70 mínútum og Sveppi, sem skammast sín aldrei, vildi lítið láta sjá sig á þessum bíl með mér.“

Sendi þvottinn með flugi

Auðunn er mjög náinn Hafdísi mömmu sinni og viðurkennir að hafa verið latur sem ungur maður sem meðal annars kristallaðist í því að þegar hann bjó fyrir norðan skutlaði hann óhreina þvottinum sínum í flug, sem mamma hans tók við á flugvellinum í Reykjavík þar sem hún starfaði. „Mamma sendi hann svo bara hreinan til baka. Þetta var agalegt, ég skammast mín fyrir þetta í dag, ég var bara latur. Ég er mjög góður á þvottavélinni í dag.“ Þegar Auddi flutti í bæinn fór hann að vinna hjá Wurth en þar störfuðu þó nokkrir vinir hans frá Sauðárkróki. „Þegar ég var að fara með ein-hverjum af vinum mínum í háskólapartí kom ekkert sérstaklega vel út að segjast vinna hjá Wurth, það vissi enginn hvað það var. Ef ég reyndi að útskýra að þar fengjust skrúfur og klósettpappír, þá dóu flest samtöl við stelpur, þannig að ég byrjaði bara að ljúga því að ég væri að fara að vinna í 70 mínútum af því að ég var alltaf að horfa á þættina með mömmu og langaði svo að vinna þar. Var alltaf að sækja um en ekkert gerðist.“

Vann frítt í fjóra mánuði

Auddi er hreinskilinn með það að fram að þessu hafði hann verið nokkuð latur. Ekki sýnt metnað í starfi sínu hjá Wurth eða í skóla. Grínþátturinn 70 mínútur var á þessum tíma vinsælasta sjónvarpsefni landsins, stýrt af tvíeykinu Simma og Jóa, Sigmari Vil-hjálmssyni og Jóhannesi Ábjörnssyni. Þarna fann ungi sveitastrákurinn metnað sem kom sterkt fram í þrautseigju hans við að koma sér inn hjá þeim félögum. Hann ætlaði að verða sjónvarpsmaður. Annað kom ekki til greina.„Simmi Vill ákvað að gefa mér séns. Ég var búinn að suða í honum um að fá að taka eina falda myndavél. Ég hitti hann fyrst á djamminu og var að reyna að selja honum hvort ég mætti koma og reyna fyrir mér. Hann var svo kurteis að hann sagði bara jájá og svo fékk ég númerið hjá honum. Ég mætti bara upp eftir. Hann ákvað að gefa mér séns fyrir rest. Það var fallegt af honum,“ segir Auddi en á þessum tíma voru Simmi og Jói sjálfir orðnir of þekktir til þess að leika í földu myndavélinni sem var vinsælasti liðurinn í þættinum.„Ég vann frítt í fjóra mánuði við að sanna mig. Ég mætti þrisvar sinnum í viku í Wurth klukkan sex á morgnana og vann til þrjú. Þá fór ég í tökur með 70 mínútum.“ Þarna var enginn skortur á dugnaði, orku og hugmyndum. Auddi segir lykilatriði fyrir þá sem vilja starfa í sjónvarpi að móta sínar eigin hugmyndir og að þrautseigjan skili sér.„Stundum kemur fólk til mín og spyr hvað það ætti að gera í fjölmiðlum. Það er ekki mitt að segja þér hvað þú átt að gera, heldur átt þú að koma með hugmyndir. Þegar ég var að koma mér að mætti ég með fullt af hugmyndum að földu myndavélinni sem ég var búinn að skrifa niður. Ég mætti ekki bara og sagði: „Má ég vera með?“ Það sem mér finnst samt leiðinlegast er þegar ungt fólk spyr hversu vel þetta sé borgað. Þú getur ekki byrjað á því að hugsa um það. Það þarf að byrja á því að vinna sig upp í að fara á laun og svo í að þetta verði ágætis laun.“

Enginn á Íslandi það frægur

Auddi átti það til að stuða marga. Hann er skapstór, athyglissýkin átti um tíma stærri hluta af honum en honum þykir í dag fallegt og hann hefði jafnvel flokkast sem frekja. Það er þó líklega sú frekja sem náði allan hringinn yfir í þrautseigju sem kom Audda á þann stað sem hann er á í dag.„Þegar ég var að byrja þá dýrkaði ég að fá spurninguna: „Ert þú ekki gaurinn í földu myndavélinni?“ Þetta kom í svona bylgjum. Fyrst fannst mér þetta alveg geggjað og ég vonaðist til að fólk þekkti mig. Svo kom stutt tímabil þar sem mér fannst ég voða spaði en það entist stutt sem betur fer. Almennt er það bara hrós ef fólk vill tala við þig.“ Auddi segir frægð á Íslandi ekki vera hamlandi. „Ég hef aldrei skilið það að fólk segist þurfa að versla á nóttunni. Það er bara mesta bull sem ég hef heyrt. Það er enginn það frægur á Íslandi að hann geti ekki gert það sem hann vill.“

En hvað með fjölskylduna? Var mamma þín til í það að þú værir almennt bara á rasshárunum í sjónvarpinu?„Já, hún hefur alltaf stutt mig. Ég man einu sinni eftir því að hún hafi orðið reið. Þá vorum við Sveppi að keppa og sá sem tapaði þurfti að fara í undirföt af mömmu sinni. Sveppi tapaði en það var styttra heim til mömmu minn-ar en hans, svo við sóttum nærföt þangað. Svo var ég að horfa á þáttinn með mömmu um kvöldið og mundi að ég hafði gleymt að láta hana vita. Þegar hún sá Sveppa í undirfötunum sínum þá var hún ekki sátt.“

Auddi eignaðist sitt fyrsta barn fyrir níu mánuðum og segir að hann hafi hugleitt það að sonur hans geti seinna meir horft á alla þættina þar sem baukað var við misgáfulega hluti. „Það er margt af þessu efni sem eldist hræðilega því þetta er orðinn svo langur tími. Ég held að flestir tengi við það að fá í magann þegar þeir sjá gamla mynd af sér. Það er helvíti vont þegar allir geta séð það. Ég byrjaði 20 ára í sjónvarpinu og er í raun bara að þroskast þar. Ég var alveg smá stressaður um að Teddi myndi sjá sumt af þessu en ég ræddi það við Sveppa sem á þrjú börn og sú elsta er að verða 17 ára. Hann vill meina að þetta sé núll stress.“

Fær aulahroll

Auddi fer ekki í felur með að sumt í 70 mínútum hafi verið nokkuð gróft og myndi ekki sleppa í gegn í dag. Má nefna vinsæl dæmi eins og þegar Auddi gubbaði í skóinn sinn eftir ógeðsdrykk, Sveppi var látinn húka allsber frammi á gangi í vinnunni og þáttinn Hvernig á ekki að fara með dverg, þar sem þeir sýndu slæma meðferð á vini sínum Frank Høybye. „Línan færist alltaf með ár-unum, það er öðruvísi menning. Flestir grínistar eru alltaf að reyna að dansa við línuna. Það er ekki mikið sem ég sé eftir, kannski eitt og eitt atriði en það sem eldist líka illa er að ég fæ hroll við að sjá mig tala í þessum gömlu þáttum,“ segir Auddi sem í dag er sjálfstraustið uppmálað og hefur tekið þátt í fjölda beinna útsendinga, nú síðast sem annar kynnanna í Allir geta dansað.

Nýtt vikulegt hláturskast væntanlegt

Auddi segir að hann fái enn útrás fyrir fíflaskapinn og það sé helst í Drauma-þáttunum þar sem hann, Sveppi, Steindi og Pétur Jóhann hafa gert alls konar rugl til að skemmta landsmönnum. „Ég vona að ég hætti aldrei að fíflast þó maður geri annað með og sé kannski ekki að gera sömu hluti og í 70 mínútum. Ég vona að það deyi aldrei í mér. Pétur er átta árum eldri en ég og er ennþá að fíflast.“Hann segir að þó að línan færist með breyttum tíðar-anda þá líði grínið ekki fyrir það að ekki megi stuða fólk. „Við erum að skrifa núna nýja seríu sem heitir Eurogarður-inn. Ef okkur finnst eitthvað það fyndið þá stöndum við með því og ætlunin er aldrei að særa neinn. Þetta snýst um að skapa aðstæður sem eru nógu fyndnar.“ Auddi skrifar þættina með íslenskum grín-hetjum á borð við Önnu Svövu Knútsdóttur, Steinda, Dóra DNA og Arnór Pálma Arnarson leikstjóra. Þættirnir verða sýndir á Stöð 2 í september og ljóst er að þar er hláturveisla í vændum.„Þetta er í fyrsta sinn sem ég bæði skrifa og leik í þáttum þar sem er söguþráður og ég leik sömu persónuna alla þáttaröðina. Þátturinn fjallar um Badda sem leikinn er af Jóni Gnarr. Hann kaupir Fjöl-skyldu- og húsdýragarðinn af Reykjavíkurborg og einkavæðir hann. Hann ætlar að gera hann að Disneygarði Íslands. Ég mæti svo sem nýr starfsmaður þarna inn,“ segir Auddi og eftirvæntingin leynir sér ekki.

Ekki endilega fyrir framan myndavélina

Auddi segist í dag vera mun slakari og hann fái sinn skammt af athygli í gegnum vinnuna og þurfi því ekki að sækjast eftir henni eins og hann gerði á sínum yngri árum þar sem hann var farinn að skemmta heilu partíunum fljótlega eftir að hann kom inn úr dyrunum. Þörfin fyrir að vera í fjölmiðlum sé enn á sínum stað en með breyttu sniði. „Ég sé ekki fyrir mér að fara að gera eitthvað allt annað. Þetta er það sem ég kann best. Ef ég færi aftur í skóla væri það þá helst tengt leikstjórn. Ég hef áhuga á því, mér finnst gaman að vinna með fólki og þarf ekki lengur að vera endilega sjálfur fyrir framan myndavélina.“

Mikilvægt að ræða vanlíðan

Þrátt fyrir breitt bros og djúpa vasa af gríni hefur Auddi ekki átt áfallalausa ævi. Áföll hafa mótað hann og þá sérstaklega fráfall vinar hans Örvars Pálma Pálmasonar sem svipti sig lífi aðeins 22 ára gamall. Þeir vinir höfðu fylgst að í tilraunum sínum með að skemmta fólki á Króknum og var Örvar annálaður fyrir gleði og skildi alla yfirleitt eftir í hláturskasti. „Þegar ég var busi í fjölbrautaskólanum vorum við að skemmta saman á hátíðum í skólanum, á barnum og á þorrablótum. Ég leit alltaf upp til hans. Hann var svo fyndinn og skemmtilegur. Hann var þremur árum eldri en ég og mér fannst svo geggjað að hann nennti að hanga með mér. Hann er ennþá bara einn sá fyndnasti sem ég hef kynnst á ævinni. Það er ekki hægt að kenna það sem hann hafði. Sveppi minnir mig oft á Örvar. Hann var ótrúlega fyndinn.“Röddin í Audda breytist. Hún verður mýkri og þykkari þegar hann talar um vin sinn. Það er ljóst að það er stutt inn að hjartarótum þegar Örvar berst í tal. „Þetta er hræðilegt. Þetta er svo miklu algengara en fólk heldur. Þetta er algengt að ungir menn séu að taka sitt eigið líf. Mér finnst svo erfið tilhugsunin um að hann hafi ekki fengið hjálp til að halda áfram, það gerir mig svo reiðan og leiðan. Mér finnst svo leiðinlegt að hann hafi ekki leitað sér hjálpar. Ekkert vandamál er svo stórt að ekki sé hægt að finna út úr því.“

Algengasta dánarorsök ungra karlmanna á Íslandi er sjálfsvíg en 32 karlmenn sviptu sig lífi árið 2019 og 7 konur. Auddi á sjálfur son og segir tilhugsunina um að menn sjái engan annan val-kost en að stytta sér aldur vera hrylling. Hann segir mikilvægt að halda í þá hugs-un að lífið sé aldrei það slæmt að maður eigi að láta það frá sér. „Maður lærir að lifa með þessu en ég myndi höndla þetta allt öðruvísi í dag en þá. Ég bara höndlaði þetta ekki ef ég á að vera hreinskilinn. Bara dílaði ekki við þetta. Í raun ekki fyrr en ég fór norð-ur að skemmta fyrir nokkrum árum og sameiginlegur vinur okkar Örvars lét mig aðeins heyra það, að ég hefði aldrei farið að leiðinu hans. Hann fór með mig þangað og þá bara brotnaði ég niður. Ég var bara búinn að ýta þessu frá mér. Það hentaði mér þá en svo var það miklu betra að horfast í augu við þetta.“ Hann segist sjálfur vera að reyna að tala meira opinskátt um tilfinningar sínar. Það sé flestum til góðs.

Með athyglissjúkasta manni landsins

Spurður um hvort hann sé auðveldur í sambúð segist hann líklega ekki vera það en ýmislegt annað vegi upp á móti. „Ég er kannski ekki auðveldur í sambúð en ég er að læra. Ég er hættur að búast alltaf við hrósi ef ég ryksuga heima hjá mér. Ég var eins og smábarn, vildi alltaf klapp á bakið fyrir að taka til heima hjá mér sem er algjört bull. Nú er ég að reyna að læra að elda. Konan mín er frábær kokkur. Ég er fínn að grilla en þarf að læra að elda fyrir son minn eitthvað svona létt. Hakk og spaghettí og svona.“

Rakel Þormarsdóttir, sambýliskona og barnsmóðir Audda, er ein af fáum Íslendingum sem eru ekki á samfélagsmiðlum og algerlega laus við þörf fyrir athygli. „Ég lofaði henni því fyrir löngu að vera ekkert að ræða hana í fjölmiðlum. Hún hefur engan áhuga á sviðsljósinu og það kemur alveg fyrir að við erum kannski að stoppa í sjoppu á leiðinni norður og hún vill fara á undan mér inn. Hún nennir ekki að það sé verið að horfa á hana og einhver að spá í því að hún sé kærastan mín. Ég skil það reyndar alveg. Vinir hennar hafa gert mikið grín að henni fyrir að hún vilji enga athygli og sé ekki á samfélagsmiðlum en byrji svo með athyglissjúkasta manni landsins.“ Það verður að sjá fegurðina í því þegar andstæður leita saman og mynda jafnvægi. Það er alls óvíst hvort það hefði farið vel hefði Auddi til dæmis náð sér í samfélagsmiðlastjörnu. „Já, það væri ekki gott. Ég held að allir í kringum mig gætu ekki verið ánægðari með makavalið,“ segir Auddi, með ungbarn í annarri og ryksuguna í hinni, tilbúinn í næsta kafla lífsins.

Auðunn Blöndal
Mynd: Valli
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fókus
Í gær

Hannes Hólmsteinn opnar sig um sambúðina í Brasilíu – 47 ára aldursmunur

Hannes Hólmsteinn opnar sig um sambúðina í Brasilíu – 47 ára aldursmunur
Fókus
Í gær

Fékk þær erfiðu fréttir að hann yrði líklega ófrjór eftir meðferðina – „Við fengum einn mánuð til að reyna“

Fékk þær erfiðu fréttir að hann yrði líklega ófrjór eftir meðferðina – „Við fengum einn mánuð til að reyna“
Fókus
Fyrir 2 dögum

Tilnefningar til Writers Guild-verðlaunanna

Tilnefningar til Writers Guild-verðlaunanna
Fókus
Fyrir 2 dögum

14 merki þess að veitingastaðurinn er slæmur

14 merki þess að veitingastaðurinn er slæmur
Fókus
Fyrir 4 dögum

„Einn af helstu kvikmyndahöfundum sögunnar og maður sem bjó til ný viðmið í sjónvarpi“

„Einn af helstu kvikmyndahöfundum sögunnar og maður sem bjó til ný viðmið í sjónvarpi“
Fókus
Fyrir 4 dögum

„Það er þjóðarharmur þegar heilt byggðarlag á Íslandi verður fyrir slíkum náttúruhamförum“

„Það er þjóðarharmur þegar heilt byggðarlag á Íslandi verður fyrir slíkum náttúruhamförum“