Hrafnhildur Gunnarsdóttir vill kalla hlutina sínum réttu nöfnum, hún sé ekki hinsegin heldur lesbía. Hún var 54 ára þegar hún eignaðist sitt fyrsta barn og er þakklát fyrir hvernig samfélagið er nú. Hrafnhildur vissi hvert hugur eiginkonunnar stefndi þegar hún fór að finna barnaföt inni í skáp.
Forsíðuviðtal úr helgarblaði DV frá 7. ágúst birtist hér í heild sinni.
Hinsegin dagar eru löngu orðnir stærsta hátíð landsins og ná þeir almennt hámarki með Gleðigöngunni. Í ár eru þó engir Hinsegin dagar nema í mýflugumynd og alls engin Gleðiganga. Þau merku tímamót eiga sér nú stað að 20 ár eru síðan fyrsta Gleðigangan var haldin á Íslandi og stefndi allt í gríðarleg hátíðarhöld þar til COVID-19 setti strik í reikninginn, eins og á svo mörgum öðrum sviðum samfélagsins þetta árið. Landsmenn allir gátu þó rifjað upp þessa 20 ára sögu þegar Fjaðrafok, einstök heimildarmynd um þróun og þroska Gleðigöngunnar, var frumsýnd á RÚV á sunnudagskvöld.
Myndin er eftir Hrafnhildi Gunnarsdóttur, eina fremstu kvikmyndagerðarkonu okkar Íslendinga, sem gerði einnig heimildarþættina Svona fólk, sem voru frumsýndir í fyrra og vöktu gríðarlega athygli. Þættirnir fjölluðu um baráttu íslenskra homma og lesbía fyrir fullum lagalegum mannréttindum.
Hrafnhildur er þjóðþekkt baráttukona, var um tíma formaður Samtakanna ’78, en hún er ekki par sátt við orðið „hinsegin“. „Ég vil kalla hlutina réttum nöfnum. Ég er lesbía og öll mín sambönd hafa verið með konum. Það er ekkert hinsegin við það. Mér finnst þetta orð vera bastarður. Persónulega hef ég viljað berjast fyrir því að fá bara að vera sú sem ég er. Hommar, lesbíur og transfólk er ekki hinsegin. Við erum bara venjulegt fólk,“ segir hún. Hrafnhildur hefur í um 27 ár safnað heimildum um veruleika homma, lesbía og svo transfólks á Íslandi.
Það er athyglisvert að meirihluti myndefnisins í seríunni Svona fólk hafi verið tekið af einni og sömu manneskjunni. „Alnæmið ýtti mér af stað. Það hafði mikil áhrif á mig sem unga konu þegar vinir mínir voru að deyja úr alnæmi og ég skynjaði að það var eitthvað í gangi sem þurfti að safna heimildum um,“ segir Hrafnhildur en fyrsta viðtalið sem hún tók um þessi mál var við HIV-smitaðan vin sinn. Þá var ekki aftur snúið. Og þrátt fyrir að hafa gert þessa ítarlegu heimildarþætti átti Hrafnhildur enn mikið af óbirtu efni sem hún vildi nota til að fagna afmæli Gleðigöngunnar. „Ég er búin að sitja sveitt við síðustu mánuði, tólf tíma á dag, en loksins er myndin tilbúin,“ segir hún stolt.
Rétt eins og Hrafnhildur segist ekki vera hinsegin kannast hún heldur ekki við að hafa komið út úr skápnum. „Ég var aldrei í neinum skáp. Um þrettán ára aldurinn átti ég besta vin, hálfgerðan kærasta, sem sagði við mig: Ég er viss um að þú ert lesbía.“
Hrafnhildur er fædd 1964 og þegar hún var þrettán ára, árið 1977, voru engar lesbískar fyrirmyndir sem hún gat samsamað sig.
„Ég var svolítið strákaleg þegar ég var unglingur. Stundum var ég að selja dagblöð, Dagblaðið Vísi, og við þurftum öll að bíða í röð til að fá blöðin okkar. Oft kom fyrir að strákarnir héldu að ég væri líka strákur og þá fékk ég pláss framarlega í röðinni. Strákarnir pössuðu upp á aðra stráka og hentu stelpunum aftast. Þarna upplifði ég fyrst að það væru einhver forréttindi fólgin í því að vera strákur. Um tíma lýsti ég því meira að segja yfir að ég vildi frekar vera strákur en stelpa. Seinna áttaði ég mig síðan á því að það þyrfti auðvitað bara að auka réttindi kvenna og breyta veruleika okkar þannig.“ Hrafnhildur var sextán ára þegar hún sagði foreldrum sínum frá því að hún væri lesbía. „Þau tóku þessu nokkuð vel en spurðu mig hvort ég væri viss því ég hefði aldrei sofið hjá strák en ég var viss og hafði þarna bara verið skotin í stelpum. Þau voru kannski ekki að hrópa neitt á torgum um kynhneigð mína en þau studdu mig og við áttum alltaf gott samband.“
Fimm árum síðar, rúmlega tvítug, ákvað Hrafnhildur að halda út í heim – nánar tiltekið á vesturströnd Bandaríkjanna. „Mér leist ekkert á Ísland á þessum tíma. Það var mikil drykkja í gay-samfélaginu og ég fann mig þar illa. Mig langað til að læra en leist ekki nógu vel á Háskóla Íslands. Ég komst síðan inn í University of California Berkeley. Ég hafði verið að spila fótbolta hér heima, komst inn í fótboltaliðið í skólanum og fékk þá afslátt af skólagjöldunum. Þarna var ég komin langt út í heim og sé ekki eftir þessu. Þarna var mikil gróska, bæði í gay-samfélaginu og svo kvikmyndagerðinni sem ég heillaðist af.“
Hrafnhildur ætlaði aldrei að vera lengi úti en árin urðu á endanum fimmtán, með viðkomu hér heima á milli. „Ég var að vinna sem tökumaður úti í alls konar spennandi verkefnum. Það var þó mjög erfitt að komast að hér heima. Eftir öll árin úti fór ég í viðtal á Stöð 2 þar sem yfirmaðurinn spurði mig hvort ég héldi í alvörunni að ég gæti haldið á upptökuvél. Þetta var árið 1991. Ég hló að honum, sagði að ég væri búin að sigla niður Amazon-fljótið með kvikmyndatökuvél á öxlinni, og spurði hvort það væri nógu gott fyrir hann.“ Hrafnhildur fékk ekki starfið.
Staðan er önnur í dag. Hrafnhildur hefur hlotið heiðursverðlaun WIFT, Samtaka kvenna í sjónvarpi og kvikmyndum. Hún hefur setið í stjórn Nordisk Panorama, verið í stjórn kvikmyndaráðs og barðist til að mynda fyrir því að jafna beri hlut kvenna og karla í úthlutunum úr Kvikmyndasjóði. Meðal verka hennar eru Stelpurnar okkar, Óbeisluð fegurð, Öldin hennar og Hvað er svona merkilegt við það? Fyrr á árinu hafði verið tilkynnt að Hrafnhildur væri heiðursgestur á kvikmyndahátíðinni Skjaldborg en sú hátíð var blásin af, eins og allar hinar. Hún hefur nú sett félagsstörfin á hilluna enda nóg að gera á heimilinu með tveggja ára barn.
„Það er kannski sérstakt að eignast barn á mínum aldri. Ég var 54 ára þegar dóttir okkar fæddist.“ Hrafnhildur og Harpa Másdóttir giftu sig 11.11.11. „Við hittumst fyrst þegar hún var með ljósmynda- og myndlistasýningu í Regnbogasal Samtakanna í tilefni af því að Hergé, sem gerði Tinnabækurnar, hefði orðið 100 ára. Ég varð alveg heilluð af verkunum hennar, auðvitað henni sjálfri líka og þarna strax hugsaði ég: Þetta er konan sem ég á eftir að giftast. Við hittumst ekki aftur fyrr en um páskana ári síðar og höfum verið saman síðan þá.“ Harpa hafði verið flugfreyja í 17 ár þegar hún söðlaði um og fór að læra myndlist við Listaháskóla Íslands þaðan sem hún útskrifaðist í fyrra.
Það var ekkert alltaf planið hjá Hrafnhildi að eignast barn. Þetta breyttist eftir að hún giftist Hörpu. „Ég var alltaf að rekast á barnaföt sem Harpa hafði verið að kaupa í fataskápnum, alls konar krúttlega stuttermaboli og fleira dót. Einn daginn tók ég mig til og spurði hana hvort við þyrftum ekki að fara að gera eitthvað í þessu,“ segir Hrafnhildur sem benti eiginkonu sinni enn fremur á að hún væri ekkert að yngjast, en Harpa er ellefu árum yngri en Hrafnhildur. Harpa var því 42 ára þegar Hrafnhildur greip til aðgerða.
„Ég er frekar framkvæmdaglöð,“ segir hún og setti sig þarna í samband við hjónin Roald Viðar Eyvindsson, útgefanda Mannlífs, og Sigurþór Gunnlaugsson viðskiptafræðing, sem voru þarna þó ekki mikið meira en góðir kunningjar Hrafnhildar og Hörpu. „Ég spurði hvort þeir vissu um einhverja homma sem langaði að verða pabbar og Roald lýsti strax yfir að þeir væru mjög áhugasamir. Við höfðum séð fyrir okkur að barnið gæti haft samband við föður sinn og okkur fannst það mikilvægt atriði. Þegar ég var formaður Samtakanna ’78 var tæknifrjóvgun eitt af þeim málum sem voru á mínu borði en þá var bara hægt að fá danskt gjafasæði og barn hafði aldrei möguleika á að hafa samband við föður sinn. Ég átti alltaf gott samband við föður minn og við vorum miklir mátar. Mér fannst mikið réttindamál að barnið hefði aðgang að föður sínum.“
Sigurþór og Roald höfðu á þessum tíma mikið velt því fyrir sér að verða feður og því fögnuðu þeir kallinu. „Roald sagði nánast strax já bara í Facebook-spjalli. Þetta tók allt smá tíma en var í raun ekki flókið því við Harpa vorum giftar. Barnið er á okkar forræði en þeir eru alltaf velkomnir enda feður stúlkunnar. Vandamálið er að þeir hafa engin lagaleg réttindi sem feður og það er eitthvað sem þarf að skoða. Fólk í okkar stöðu sem vill eignast barn hefur bara eina leið til þess að eignast barn á löglegan máta og það er að fara til meðferðarstöðvar á borð við ArtMedica sem seinna varð Livio. Það ætti að vera hægt að fara aðrar leiðir þar sem gengið væri frá lagalegum atriðum fyrir utan einkarekna meðferðarstöð. Því oft kostar slík meðferð margar milljónir,“ segir hún.
Stelpan þeirra verður tveggja ára seinna í ágúst. Hún heitir því fallega nafni Hólmfríður Bóel, nefnd eftir móður Hrafnhildar. „Mamma bjó hjá okkur síðustu árin áður en hún lést. Harpa hafði þá sagt við hana að hún ætlaði að nefna fyrsta barnið sitt í höfuðið á henni, og það gekk eftir.“ Hrafnhildur bendur á að Hólmfríður Bóel sé einstaklega heppin með bakland, hún eigi ekki tvö foreldri heldur fjögur. „Það eru ekki fjögur augu á henni heldur átta. Hún er enn svo lítil að þegar hún kallar á okkur mömmurnar segir hún bara „mamma og mamma“ og þegar hún kallar á pabbana tvo „pabbi og pabbi“. Hún er síðan mjög líbó varðandi hverja hún kallar ömmu og afa. Hún er að reyna að átta sig á þessu öllu. Hún á ömmur og afa strákamegin, tvö sett. Okkar megin á hún bara einn afa á lífi. Foreldrar mínir eru látnir og mamma Hörpu dó þegar Harpa var þriggja ára. Ég upplifi því líka sterkt hvernig móðurhlutverkið er Hörpu mikilvægt.“
Hólmfríður Bóel byrjar á leikskóla í haust. „Það verður uppgötvun fyrir hana þegar hún sér að ekki allir eiga tvær mömmur og tvo pabba. Það hefur hins vegar orðið svo mikil breyting á samfélaginu í átt að umburðarlyndi að ég hef engar áhyggjur. Auðvitað hugsum við alltaf um hag barnsins. Ég man auðvitað svo langt aftur og hugsa stundum að það hefði verið óhugsandi á áttunda áratugnum að tvær lesbíur og tveir hommar myndu eignast saman barn. Ég þarf stundum að taka mig á og muna að samfélagið er orðið svo breytt.“
Stúlkubarnið er hvers manns yndi en Hrafnhildur rifjar upp að á sínum tíma hafi þær fengið að heyra ýmsar varnaðarraddir því það væri svo erfitt að eiga ungbarn eftir fertugt, hvað þá fimmtugt. „Við fengum að heyra að við myndum aldrei komast í gegn um þessar svefnlausu nætur og við yrðum alltaf úrvinda. Hún er síðan svo dásamlegt eintak, sefur alla nóttina. Þegar ég segi mínum vantrúuðu vinum frá þessu fæ ég að heyra að hún sé bara draumabarn eldri foreldra. Ég svara þá að hún sé draumabarn allra foreldra.“
Hrafnhildur segir að þegar hún flutti heim frá Bandaríkjunum hafi hún verið í þeirri sérstöku stöðu að vera komin með svolítið nóg af Gay Pride. „Þegar ég kom heim um 2000 var ég búin að upplifa Gay Pride verða að sífellt meiri hátíð markaðssetningar í San Francisco. Það var því mjög hressandi að Gleðigangan var að byrja hér á þessum tíma. Gangan hefur breyst mikið á þessum tuttugu árum. Stundum hefur hún verið pólitísk, stundum hefur hún litast af innri átökum í Samtökunum ’78 og stundum hefur gangan verið tónuð niður í það sem þær drottningar sem ég þekki kalla „vanilla“. Það hefur verið dásamlegt að sjá hátíðina verða stærri en 17. júní. Við höfum þá sérstöðu hér á landi að Gleðigangan er viðurkennd.“ Hún segir markmiðið alltaf skýrt. „Okkar réttindabarátta snýst um að ná jöfnum réttindum á borð við réttindi þeirra sem eru í normalíseruðum samböndum og þeirra sem kallast normalíserað fólk.“
Hrafnhildur óttast alltaf bakslag og nefnir dæmi af vinkonu sinni sem býr í Danmörku. „Kennari dóttur hennar var mjög undrandi á því að mæður stelpunnar væru í lesbísku sambandi. Þessi vinkona mín upplifði að sýnileiki lesbía og homma væri þarna ekki lengur til staðar. Þessi réttindabarátta stendur því alltaf yfir. Ég þekki pólska stúlku sem flutti hingað með kærustunni sinni. Þær fluttu hingað til að vera saman, en samt í felum, því þeirra samfélag viðurkennir þær ekki sem par á sama hátt og gert er í íslensku samfélagi. Við á Íslandi höfum náð langt en baráttan er alltaf í gangi. Við höfum náð langt en megum ekki gleyma að stundum er það ekki nóg,“ segir hún.