Söng- og leikkonan Hulda Kristín Kolbrúnardóttir fær reglulega óviðeigandi skilaboð frá karlmönnum eftir að hún sigraði í Söngvakeppninni með Daða & Gagnamagninu.
Hulda hefur meðal annars verið beðin um að vekja athygli á brjóstakrabbameini með því að senda ókunnugum karlmanni mynd af brjóstunum sínum. Hún greinir frá þessu á Twitter og gaf DV góðfúslegt leyfi til að deila hennar reynslu með lesendum. Maðurinn sendi Huldu skilaboð á Instagram og sagðist vera að „reyna að vekja athygli á brjóstakrabbameini.“
„Þannig að ef þú gætir sent bara mynd á mig af brjóstunum þínum. Þú þarft alls ekki að gera það en það myndi hjálpa gríðarlega mikið. Myndin yrði nafnlaus og ef andlitið þitt væri á myndinni þá væri það tekið út af, nema þú viljir hafa andlitið á myndinni. Ástæðan fyrir því að ég valdi þig er því þú ert með afar falleg brjóst. Takk fyrir,“ sagði maðurinn.
Maðurinn ítrekaði beiðni sína tvisvar, bæði í byrjun apríl og byrjun júlí.
Í samtali við DV segist Hulda aldrei hafa svarað manninum.
„Mér fannst þetta svo ótrúlega fáránlegt. Svo fór hann að vera ákafari í skilaboðunum til mín og þá blokkaði ég hann,“ segir Hulda.
Hún segir að um sé að ræða einhvern Instagram-aðgang með enga fylgjendur og fylgir aðeins einum aðila.
Hulda Kristín fær því miður reglulega svona skilaboð og það var bara síðast í gær þegar hún fékk óviðeigandi skilaboð frá karlmanni sem sagði hana vera með „flott brjóst.“
Hulda sló í gegn með Daða & Gagnamagninu sem sigraði Söngvakeppni sjónvarpsins fyrr á árinu með laginu „Think about things“. Lagið vakti heimsathygli og hefur tónlistarmyndbandið fengið yfir 15 milljón áhorf á YouTube.
Áður en Hulda tók þátt í Söngvakeppninni hafði hún fengið ein óviðeigandi skilaboð. „En eftir keppnina, og þegar tónlistarmyndbandið sprakk á netinu, þá byrjaði ég að fá nokkur svona skilaboð á mánuði. Með vaxandi fylgjendahóp þá bjóst ég alveg við einhverju svona. Fannst þessi skilaboð og hegðun bara svo ótrúleg,“ segir Hulda.
„Það er ömurlegt að fá svona skilaboð reglulega og að hann hafi haldið að þetta myndi virka er mér óskiljanlegt.“