Rúmið er einn mikilvægasti staðurinn í húsinu. Við eyðum stórum hluta lífs okkar í rúminu, þar fáum við þá hvíld sem líkaminn þarf á að halda. Hve mikla hvíld við þurfum fer eftir aldri og því hvað við höfum hreyft okkur mikið, enginn getur þó lifað af án svefns í langan tíma. Þess vegna er afar mikilvægt að vel fari um líkamann í rúminu.
Eitt af því sem fólk veltir oft fyrir sér, er hve oft á að skipta um rúmföt. Það getur reyndar verið misjafnt og farið eftir aðstæðum.
Ef maður er veikur, eða með ung börn sem sofa upp í, ætti að að skipta oftar. Það sama gildir ef maður sefur nakinn eða fer sjaldan í bað.
Þegar við sofum dettur af okkur mikið af bakteríum og dauðum frumum. Þetta laðar að sér rykmaura sem búa og fjölga sér í rúmfötunum. Úrgangur frá maurunum inniheldur ofnæmisvaldandi efni sem geta valdið kláða í nefi og augum.
Samkvæmt astma og ofnæmissamtökum ætti maður að skipta um rúmföt fjórtánda hvern dag. Einnig er mikilvægt að hafa það í huga að maður ætti ekki að skipta á rúminu um leið og farið er á fætur.
Það þarf nefnilega að leika bæði loft og ljós um rúmfötin, mikilvægt er að lofta út í svefnherberginu, jafnvel þó kalt sé úti. Rúmið má gjarnan standa óumbúið allt fram á kvöld, kuldinn og ferska loftið drepur nefnilega maurana.
Einnig er mikilvægt að þvo rúmfötin við rétt hitastig, til þess að vera viss um að maurarnir drepist þarf að þvo rúmfötin við að minnsta kosti 60 gráður.