fbpx
Miðvikudagur 22.janúar 2025
Fókus

„Konan mín er of kassalöguð“

Fókus
Sunnudaginn 5. júlí 2020 09:00

Mynd/Getty

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Kristín Tómasdóttir hjónabandsráðgjafi svarar spurningum lesenda um málefni er varða fjölskylduna, börnin og ástina í Fjölskylduhorni DV. Að þessu sinni svarar Kristín spurningu sem margir kannast við. Hvað ef maki minn er of kassalagaður og lífið er dálítið leiðinlegt?

_ _ _ _ _ _ _ _ _

„Kæra Kristín. Ég er rúmlega fertugur maður. Ég elska konuna mína og börnin, en þoli ekki þessa grjóthörðu og afsakaðu, hundleiðilegu, rútínu. Ég vil ekki ala börnin mín upp sem vélmenni án allrar sköpunargáfu. Konan mín er mjög kassalöguð og yfirleitt virkar það vel að við blöndum saman hugmyndum okkar um lífið, en hún er oft of kassalöguð að mínu mati. Börnin eiga að fara að sofa kl. 8, þrátt fyrir glampandi sól. Hvernig segi ég henni að hún verði að velja sér baráttur og leyfa sér að lifa aðeins meira? Ekki tuða yfir skótauinu alla daga. Opna kannski bara freyðivín á mánudegi og leyfa börnunum að vaka aðeins lengur. Það er sumar!“

_ _ _ _ _ _ _ _ _

Blessaður

Gaman að fá spurningu frá karlmanni. Það verður að segjast að oftar koma þær frá konum.

Mér leikur að sjálfsögðu forvitni á að vita hvað þið hafið reynt varðandi þetta. Þó svo að konan þín sé kassalöguð, eins og þú orðar það, þá gæti það einmitt hentað henni vel að kíkja aðeins út fyrir kassann sinn og þar gætir þú komið sterkur inn. Sömuleiðis hljómar það vel að maður, sem vill gjarnan opna freyðivín á mánudegi, fái stundum skýran ramma.

Hvernig var lífið ykkar í Covid? Þá fór einmitt rútína flestra í vaskinn og margir þurftu að finna nýjar leiðir til þess að halda fjölskyldu og vinnu gangandi. Getur verið að það hafi hentað þér vel og núna þegar allt er komið aftur í fastar skorður þá þrengi að þér og þú sjáir að svona þarf þetta ekki að vera? Í staðinn fyrir að bölva rútínunni er tækifæri til þess að skoða hvað er gott utan þessa stífa ramma, sem getur kryddað hið hefðbundna hversdagslíf.

Þið eruð samspil

Þegar hópur fólks býr saman þarf að vera eitthvað skipulag svo allir fái að njóta sín. Þó svo að það myndi henta þér vel að hafa enga rútínu, þá leyfi ég mér að fullyrða að slíkt gæti valdið öðrum fjölskyldmeðlimum kvíða. Eiga þau þá að haga lífi sínu eftir því í hvernig stuði þú ert hverju sinni? Nei, ég segi svona, rútínan þarf að vera, en það breytir því ekki að það sé hægt að gera undantekningar á henni, eða breyta henni þannig að hún verði ögn skemmtilegri.

Þú spyrð hvernig þú eigir að segja konunni þinni að hún sé of kassalöguð. Þarna þarf ég að minna þig á að þið eruð samspil og fjölskyldan þín er kerfi, þar sem hver og einn liður getur haft gríðarlega mikil áhrif. Í stað þess að segja konunni þinni hvernig hún á að vera, gætir þú gert tilraunir með því að gera eitthvað nýtt sjálfur. Samkvæmt fræðunum gæti það haft þau áhrif á konuna þína að hún myndi þá skyndilega gera eitthvað öðruvísi en hún er vön.

Dass af einlægni

Ef ég tek dæmi af fjölskyldu þar sem aldrei er beðist afsökunar. Allt í einu einn daginn tekur einn fjölskyldumeðlimur upp á því að segja fyrirgefðu, þá hefur það áhrif á þann sem fær afsökunarbeiðnina og mögulega hefur það aftur áhrif á viðkomandi, sem biður einhvern annan í fjölskyldunni fyrirgefningar síðar meir.

Hvað myndi gerast ef þú myndir til dæmis taka upp á því að opna freyðivín einn mánudaginn, segja konunni að þér þætti vænt um að eiga afslappaða stund og að þú þurfir á því að halda að leggja hefðbundna rútínu til hliðar? Gæti það verið áhrifaríkara en að segja konunni þinni að hún sé ferköntuð? Án þess að ég vilji fullyrða það, þá finnst mér það líklegt.

Þegar pör byrja saman gera þau oft með sér samkomulag um hvernig þau vilja hafa hlutina. En það gleymist að undirrita samkomulagið og bera það undir alla hlutaðeigandi. Mér finnst ykkar vandi hljóma sem tilefni til að taka upp þessa gömlu samninga. Hvernig vill konan þín hafa hversdagslífið, hvernig líður henni í því og hvað þarf hún til þess að það geti orðið afslappaðra og skemmtilegra? Sömuleiðis getur þú sagt henni frá líðan þinni og þörfum. Ekkert flókið, eða nokkuð sem þarf að móðga eða særa. Þetta er bara verkefni foreldra, það er að halda öllum boltum á lofti, grípa þá og sjá til þess að þeir haldi áfram að snúast. Ég er viss um að með góðu samtali, smá freyðivíni og dassi af einlægni, verður það leikur einn hjá ykkur. Gangi ykkur vel.

_ _ _ _ _ _ _

Við hvetjum lesendur til að senda spurningar og vangaveltur sínar til Kristínar í tölvupósti á: hjonabandssaela@gmail.com. Spurningunum verður svo svarað hér í Fjölskylduhorninu, að sjálfsögðu nafnlaust og í fullum trúnaði.

 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fókus
Fyrir 2 dögum

Einkaspæjari afhjúpar nýja leið hvernig makar fela framhjáhald – Forrit sem er í öllum iPhone símum og vekur engar grunsemdir

Einkaspæjari afhjúpar nýja leið hvernig makar fela framhjáhald – Forrit sem er í öllum iPhone símum og vekur engar grunsemdir
Fókus
Fyrir 2 dögum

Vill að RÚV geri samning við Vesturport

Vill að RÚV geri samning við Vesturport
Fókus
Fyrir 4 dögum

Sérstæð vinátta ræstingakonu og kolkrabba hefur heillað heimsbyggðina

Sérstæð vinátta ræstingakonu og kolkrabba hefur heillað heimsbyggðina
Fókus
Fyrir 4 dögum

Framkvæmdastjórinn í Paradís flytur sig um set

Framkvæmdastjórinn í Paradís flytur sig um set