Flestir tengja fjallkonuna við ljóðalestur ungra leikkvenna í sérstökum búning á 17. júní við morgunathöfnina, sem er fastur liður hátíðahaldanna. Það er vitnað til fjallkonunnar sem persónugerving landsins og kemur fjallkonan víða fram í ljóðum. Orðið Fjallkona þykir bera með sér sterkan blæ dugnaðar, drauma og myndugleika. Á síðasta ári opnaði veitingahús við Ingólfstorg sem einmitt ber nafnið Fjallkonan en auglýsingaherferð staðarins byggði á myndum af sterkum íslenskum konum svo ljóst er að orðið fjallkona er rótgróið og virt og þykir það mikill heiður að hljóta það hlutverk.
Fyrsta þekkta notkun orðsins fjallkona er í kvæði Bjarna Thorarensen (1786–1841)
- Eldgamla Ísafold,
- ástkæra fósturmold,
- Fjallkonan fríð!
- mögum þín muntu kær
- meðan lönd gyrðir sær
- og guma girnist mær,
- gljár sól á hlíð.[4]
„Á hinum fyrstu árum þótti þetta ekki akkúrat það sem ungar leikkonur vildu vera að stússast í. Og þá neituðu þær margar. Nú þykir þetta heiður,“ segir Gísli Árni Eggertsson, æskulýðsfulltrúi og aðstoðarframkvæmdastjóri ÍTR, í samtali við Fréttablaðið árið 2003.
Í gegnum árin hafa nokkrar fjallkonur brotið blað í sögunni, eins og Eva Ágústa sem var fyrsta transkonan til að vera fjallkona og Aldís Amah til að vera fyrsta svarta konan til að vera fjallkona Reykjavíkur.
Árið 2004 var Sheba Ojienda klædd fjallkonubúning framan á forsíðu The Reykjavík Grapevine. Ritstjóri á þeim tíma kvartaði yfir hversu erfitt það hafi verið að fá fólk til að lána sér fjallkonubúning þegar það vissi hver myndi klæðast honum.
Undanfarinn sólarhring hefur myndin farið í dreifingu á Facebook og hefur til að mynda varaborgarfulltrúi Viðreisnar, Diljá Ámundadóttir Zoëga deilt myndinni.
Leikkonan Aldís Amah Hamilton var fyrsta konan með blandaðan bakgrunn og rætur að rekja til svartra til að vera fjallkona Reykjavíkur en sveitafélög víðsvegar um landið höfðu þegar fagnað fjölbreytileikanum árum áður. Brynja Muditha Dan Gunnarsdóttir var fjallkona Hafnarfjarðar árið 2002 og Isabel Alejandra Días var fjallkona Ísafjarðarbæjar árið 2016.
Aldís Amah deildi mynd á Facebook í gær og minntist dagsins.
„Ótrúlegt að það sé ár liðið frá þessum dásamlega degi, einum gleðilegasta í mínu lífi. Það hefur svo margt gerst á þessum 365 dögum síðan sem hefur, því miður, ekki verið eins gleðilegt og þrátt fyrir ótæmandi þakklæti er, satt best skal segja, mikil sorg í mínu hjarta þessa dagana,“ segir Aldís.
Eva Ágústa Aradóttir er fyrsta transkonan til að vera fjallkona. Hún var fjallkona Hafnarfjarðar árið 2017.
Dragdrottningin Gógó Starr var fjallkona árið 2018. Sigurður Heimir Guðjónsson, annað sjálf Gógó, sagði í samtali við Gay Iceland á sínum tíma að þetta væri merki um að þjóðfélagið væri að verða sífellt opnara fyrir dragsenunni og hinsegin menningu.
Árið 2006 voru tvær fjallkonur, Elsa G. Björnsdóttir og Tinna Hrafnsdóttir. Þær fluttu ljóðið Einu-sinni-var-landið eftir Steinunni Sigurðardóttur, Tinna á talmáli en Elsa á táknmáli.
Við tókum saman fleiri íslenskar fjallkonur í gegnum árin.
Sigrún Edda Björnsdóttir, leikkona, var fjallkonan árið 2018.
Söngkonan Þóra Einarsdóttir var fjallkonan árið 2017. Hún rifjaði það upp á Facebook í gær.
Selma Björnsdóttir var fjallkonan árið 2013. Mynd: Pinterest
Inga María Valdimarsdóttir, leikkona, var fjallkonan árið 2003.
Fjallkonan í ár var Edda Björgvinsdóttir leikkona.
Steinunn Ólína Þorsteinsdóttir var fjallkonan árið 1994. Anna Jóna Snorradóttir birti mynd af Steinunni árið 1994 á Facebook í gær.
Leikkonan Kristín Pétursdóttir var fjallkona árið 2013. Hún rifjaði upp daginn á Instagram í gær.
Leikkonan Helga Braga Jónsdóttir var fjallkona Akraness þegar hún var sautján ára og seinna meir fjallkona Reykjavíkur árið 1998.
https://www.instagram.com/p/CBi_pg7AHOg/