Í gær og í dag fóru fram inntökupróf í læknisfræði við Læknadeild Háskóla Íslands. DV hefur undir höndunum nokkrar þeirra fjölmörgu spurninga úr þeim hluta prófsins sem fór fram í dag og varðar almenna þekkingu. Er lesendum boðið að spreyta sig á þeim og sjá hvort þeir eigi jafnvel erindi í prófið að ári. Svörin má finna neðst. Spurningarnar kunna að vera umorðaðar, enda byggðar að öllu leyti á minni þeirra er þreyttu prófið fyrr í dag.
Metfjöldi þreytti 12 klukkustunda langt prófið
Metfjöldi þreytti prófið að þessu sinni en um 384 sóttu um að hefja nám í læknisfræði og eru það umtalsvert fleiri en undanfarin ár sem þá tóku á móti tvöföldum árgöngum vegna styttingar framhaldsskólastigsins úr fjórum árum í þrjú. Þeim sem verma 60 efstu sætin verður boðið að hefja nám við deildina í haust.
Að venju var prófið skipt í 6 hluta og hver hluti tveggja klukkustunda langur og því um alls 12 klukkustunda próf að ræða.
Spurt var um líffræði og lífeðlisfræði auk sálfræði í þeim fyrsta. Yrt rökfærslu og siðfræði í öðrum og eðlisfræði og upplýsingalæsi í þeim þriðja. Fjórði hluti snéri að stærðfræði og félagsfræði og sá fimmti að efnafræði.
Spurningarnar má finna hér að neðan.
Fyrir áhugasama er inntökuprófið haldið einu sinni á ári og kostar 20.000 kr. að spreyta sig. Prófað er úr öllu framhaldsskólaefni ofannefndra greina.
Spurningar úr almenna þekkingarhluta Læknadeildar
- Hver er forseti Alþingis?
- Hvað fljúga kríurnar langt á ári að jafnaði?
- Hvert er hlutfall hafs og lands á yfirborði jarðar?
- Hvaða dómkirkja varð eldi að bráð árið 2019?
- Hvenær er alþjóðlegi pí-dagurinn?
- Í hvaða landi hafði Samherji umdeilda starfsemi?
- Hvaða sjúkdómi veldur Yersinia pestis?
- Hver hét upphaflega Stefani JoanneAngelina Germanotta?
- Hvað hræðist sá sem hrjáist af hemofóbíu?
- Hvar er best að sjá Loðmund, Snækollur og Fannborg?
- Hvenær hóf Tesla sölu á bílum á Íslandi?
- Hverju tilheyra maki, uramaki, sashimi og nigiri?
- Hver er umboðsmaður Alþingis?
- Við hvaða hitastig frýs hreint vatn á Fahreinheit kvarða?
- Hvaða ráðherraembætti gegnir Þórdís Kolbrún Gylfadóttir Reykfjörð?
- Hvar er flugvöllurinn Arlanda?
- Hver er nýr útvarpsstjóri?
- Hvaða þýðingu hefur hugtakið Kibbutz í Ísrael?
- Hver er forseti Brasilíu?
- Hver er höfundur bókanna um Fíusól?
- Hvenær kjósa Bandaríkjamenn sér forseta næst?
- Hvaða trúfélagi tilheyra John Travolta, Tom Cruise og tónlistarmaðurinn Beck?
- Á hvaða bæ féll snjóflóð í janúar 2020?
- Hvaða Suður-ameríska sendiráð hýsti Julian Assange lengi vel?
- Hvaða land er með lénsendinguna .FO
- Hvernig er 2020 skrifað með rómverskum tölustöfum?
- Hvaða eyja er stærst Kanaríeyja?
- Ólympíuleikum í hvaða borg var frestað vegna Covid-19 faraldursins?
- Hvaða prótín er í mannshári?
- Hvað er sólarljós lengi til jarðar?
- Hver er forstjóri Útlendingastofnunnar?
- Hvaðan er Nóbelsverðlaunahafinn Olga Tokarczuk?
- Frá hvaða landi kemur K-pop?
- Hvaða íþróttamaður dó í flugslysi 2020?
- Hvar á landinu eru póstnúmerin 600 og 601?
- Hver er forseti Ferðafélags Íslands
- Hvað heitir kórónuveiran sem veldur Covid-19?
- Hver er minnsti varpfugl á Íslandi?
- Eftir hvern er leikritið Vanja frændi sem Borgarleikhúsið setti upp á þessu ári?
- Höfuðborg hvaða sjálfstjórnarhéraðs er Barcelona?
Svör við spurningum
- Steingrímur J. Sigfússon hefur setið sem forseti Alþingis síðan í desember 2017 þegar Vinstri grænir, Sjálfstæðisflokkurinn og Framsóknarflokkurinn mynduðu þingmeirihluta.
- Krían flýgur u.þ.b. 70.000 km á ári og er það mest allra fugla. Segir á Vísindavefnum að þær fljúgi á ævi sinni sömu vegalengd og til tunglsins og til baka.
- Um sjötíu hundraðshlutar yfirborðs jarðar eru haf og því þekur land einungis um þrjátíu. Svarið er því 70/30
- Eins og frægt er kviknaði eldur í Notre Dame kirkjunni í París í apríl 2019.
- Pí-dagurinn er 14. mars, en sá dagur er víða skrifaður 3.14 og talan pí er auðvitað 3.14.
- Namibíu
- Yersinia pestis er baktería sem olli svartadauða sem geisaði í Evrópu á 14. öld.
- Söngkonan sem ber þetta tignarlega nafn þekkja auðvitað allir sem Lady Gaga.
- Hemofóbar hræðast blóð
- Loðmundur, Snækollur og Fannborg eru fjöll í Kerlingarfjöllum.
- Tesla opnaði þjónustumiðstöð sína á Íslandi árið 2019.
- Þetta máttu búast við að sjá á matseðli á Sushi veitingahúsi
- Tryggvi Gunnarsson er umboðsmaður Alþingis
- 32°F
- Þórdís Kolbrún er í dag ferðamála-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra Íslands og gegndi um tíma stöðu dómsmálaráðherra.
- Arlanda er í Stokkhólmi.
- Stefán Eiríksson er nýr útvarpsstjóri.
- Kibbutz eru samyrkjubú í Ísrael.
- Jair Bolsonaro er forseti Brasilíu.
- Kristín Helga Gunnarsdóttir skrifaði bækurnar um Fíusól.
- Forsetakosningar í Bandaríkjunum eru næst í nóvember á þessu ári.
- Þeir tilheyra vísindakirkjunni.
- Snjóflóð féll á Flateyri. Sömu nótt féll flóð í Súgandafjörð gegnt Suðureyri og skall flóðbylgja á bænum. Daginn eftir var réttur aldarfjórðungur liðinn frá mannskæðu snjóflóði í Súðavík.
- Sendiráð Ekvador.
- Færeyjar
- MMXX er 2020 með rómverskum tölustöfum.
- Tenerife er stærst eyjanna.
- Ólympíuleikunum 2020 í Tókýó var frestað vegna faraldursins.
- Keratín.
- Sólarljós er 8 mínútur og 20 sekúndur að berast til jarðar frá sólinni. Ljóshraði er rétt tæplega 300.000.000 metrar á sekúndu og vegalengdin á milli sólar og jarðar u.þ.b. 150.000.000 kílómetrar.
- Kristín Völundardóttir er forstjóri Útlendingastofnunar.
- Olga er frá Póllandi.
- K-pop er frá Suður-Kóreu.
- Körfuboltamaðurinn Kobe Bryant lést í voveiflegu þyrluslysi í janúar 2020.
- Þau eru bæði á Akureyri.
- Ólafur Örn Haraldsson er forseti Ferðafélagsins.
- Kórónuveiran sem veldur Covid-19 heitir SARS-CoV-2.
- Glókollur er minnsti varpfugl á Íslandi og Evrópu.
- Anton Tsjekhov skrifaði leikritið Vanja frændi.
- Barcelona er höfuðborg sjálfstjórnarhéraðsins Katalóníu