fbpx
Miðvikudagur 22.janúar 2025
Fókus

„Ég þarf að biðja hana um að „passa“ börnin okkar“

Fókus
Sunnudaginn 31. maí 2020 22:30

Mynd/Getty

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Kristín Tómasdóttir, hjónabandsráðgjafi með meiru, hefur gengið til liðs við DV og mun svara spurningum lesenda um málefni er varða fjölskylduna, börnin og ástina í nýju Fjölskylduhorni. Þessa vikuna svarar Kristín spurningu um stjúptengsl, en þau geta oft verið erfið bæði börnum og foreldrum.

_ _ _ _ _ _ _ _ _

Blessuð, Kristín.

Þannig er mál með vexti að ég er búin að vera í sambandi við kærustuna mína í nokkur ár og við búum saman. Ég á barn úr fyrra sambandi sem ég er með aðra hvora viku. Kærastan mín á hins vegar erfitt með að vera stjúpmamma. Ég þarf að biðja hana um að „passa“ ef ég þarf að vinna kvöldvaktir, eða ef ég vil skjótast eitthvað frá, jafnvel þó hún sé ekki með nein plön. Jafnvel hef ég oft þurft að biðja foreldra mína um pössun af því að kærastan mín kærir sig ekki um að „passa“, jafnvel þó hún sé bara að fara að vera heima. En það eru liðin þónokkur ár sem við höfum verið saman og nú erum við farin að huga að því að eignast annað barn og ég er hræddur um að dóttir mín eigi eftir að verða miður sín þegar hún sér kærustu mína vera mömmu fyrir systkini sitt, en bara einhvers konar skemmtilega frænku fyrir sig. Hvernig er hægt að tækla þetta?

 

Blessaður

Takk fyrir spurninguna. Við förum í svo mörg hlutverk í dagsins önn, en það er ólíkt hvernig við veljum að tækla þau. Það sem þér þykir eðlilegt í stjúpforeldrahlutverki kann kærustunni þinni að þykja óþægilegt eða erfitt. Mögulega leggið þið mismunandi merkingu í það hvert hlutverk stjúpmóður er og til þess að koma í veg fyrir togstreitu gæti verið ráð að taka samtalið um hvernig þið viljið hátta þessu.

Í guðs bænum ekki panikka

Hefur þú spurt kærustuna þína hvernig henni líður sem stjúpmóður? Hefur hún sjálf reynslu af stjúpforeldrum? Hvar mótuðust hugmyndir ykkar um það hvað góð stjúpmóðir gerir?

Það mun kannski koma þér á óvart hvað hugmyndir ykkar og reynsla eru ólík í þessum efnum, en í guðs bænum ekki panikka. Þið getið lært hvort af öðru og samtalið getur skapað vettvang til þess að koma ykkur saman um hvernig þið viljið gera þetta.

Samningar og samningafundir

Þegar pör byrja saman er algengt að báðir aðilar séu með ákveðnar hugmyndir í kollinum, um það hvernig þau vilja haga framtíðinni. Það sem þó gleymist oftar en fólk grunar, er að bera þessar hugmyndir undir nýja kærastann/kærustuna.

Við erum með samninga í kollinum um að hinn aðilinn eigi að „passa“ stjúpdóttur sína og elda læri á sunnudögum, en samningurinn var aldrei borinn undir alla aðila samningsins og undir hann var aldrei kvittað. Þegar það kemur svo í ljós að ákveðnir liðir samningsins voru ekki samþykktir, makinn er vegan og kann ekki að elda læri, getur það valdið vonbrigðum, sem hefði verið hægt að koma í veg fyrir með samningafundi.

Ég veit að þetta hljómar þurrt, formlegt, ópersónulegt og leiðinlegt, en punkturinn er þessi: Gott getur reynst að bera saman bækur sínar um hvernig þið viljið hátta mikilvægum þáttum í lífi ykkar og barnanna ykkar, áður en þið ákveðið innra með ykkur hvernig þetta eigi að vera.

Stjúptengsl eru ósýnileg

Þegar rætt er um „stjúpblindu“, er átt við að stjúptengsl eru ósýnileg á öllum sviðum samfélagsins. Hlutverk blóðforeldra er miklu skýrara og um það er skrifað í lög, Biblíuna, lífsleiknibækur og víðar.

Stjúphlutverkið er ekki jafn skýrt og margir stjúpforeldrar upplifa fyrir vikið að þeir séu vanmetnir, eða ofmetnir, og að staða þeirra sé annaðhvort tekin sem sjálfsögð, eða að krafta þeirra sé ekki óskað við ákveðnar aðstæður. Það er erfitt að finna jafnvægið í tengslum við hvenær stjúpforeldrar mega skipta sér af og hvenær ekki, hvenær þeir mega taka ábyrgð og hvenær það er óæskilegt.

Er það sjálfsagt að stjúpforeldri „passi“ stjúpbarnið sitt? Ábyrgðin á barninu er þín og þó þú þurfir stundum að setja barnið í pössun, þá má kærastan þín velja að taka ekki þá ábyrgð. Að sjálfsögðu getur kærastan þín óskað eftir því að taka aukna ábyrgð með tímanum en það er hennar val, ekki skylda. Ef þið, aftur á móti, eignist barn saman, þá er ábyrgðin meira sameiginleg og þið þurfið að koma ykkur saman um hver situr yfir barninu þegar þið getið ekki gert það sjálf.

Líttu á þetta sem tækifæri

Gagnvart dóttur þinni er svo um að gera að útskýra hvernig þið ætlið að hátta stjúptengslum í ykkar fjölskyldu. Fyrirsjáanleiki er alltaf góður fyrir börn, enda eykur óvissa á kvíða. Að sama skapi er mikilvægt fyrir börn að vita hver ber ábyrgð á þeim og til hvers þau geta leitað. Þá hefur það sýnt sig, að því meiri samstaða sem er meðal foreldra, því betra er það fyrir barnið.

Þið eruð feðgin, heima hjá ykkur getur þú verið foreldri og kærastan þín getur leikið hlutverk skemmtilegu frænkunnar, eins og þú orðar það. Þið getið líka haft foreldrakerfi þar sem þú og kærastan þín eruð foreldrar á heimili ykkar feðgina. En til þess að það gangi upp þurfið þið að vera samtaka með það og skilgreina hvað felst í ábyrgð foreldranna.

Prófaðu að líta á þetta allt sem tækifæri, tækifæri til samtals við kærustuna þína, til samningsgerðar um framtíðina, til þess að skýra út fyrir dóttur þinni og undirbúa ykkur litlu fjölskylduna undir mögulegan, nýjan fulltrúa. Það gæti orðið bæði spennandi og skemmtilegt.

_ _ _ _ _ _ _ _ _ _ _

Við hvetjum lesendur til að senda spurningar og vangaveltur sínar til Kristínar í tölvupósti á: hjonabandssaela@gmail.com. Spurningunum verður svo svarað hér í Fjölskylduhorninu, að sjálfsögðu nafnlaust og í fullum trúnaði.

 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fókus
Fyrir 2 dögum

Er steinhissa á því sem hann sér aftur og aftur á Íslandi

Er steinhissa á því sem hann sér aftur og aftur á Íslandi
Fókus
Fyrir 2 dögum

Einkaspæjari afhjúpar nýja leið hvernig makar fela framhjáhald – Forrit sem er í öllum iPhone símum og vekur engar grunsemdir

Einkaspæjari afhjúpar nýja leið hvernig makar fela framhjáhald – Forrit sem er í öllum iPhone símum og vekur engar grunsemdir
Fókus
Fyrir 2 dögum

Tímamót hjá Helga Ómars – „Af einhverjum óútskýranlegum ástæðum er það rétt“

Tímamót hjá Helga Ómars – „Af einhverjum óútskýranlegum ástæðum er það rétt“
Fókus
Fyrir 2 dögum

Hera Björk varð fyrir hatrammri aðför: „Þetta var í hundraðatali og endaði í þúsundatali og var augljóslega skipulagt“

Hera Björk varð fyrir hatrammri aðför: „Þetta var í hundraðatali og endaði í þúsundatali og var augljóslega skipulagt“
Fókus
Fyrir 4 dögum

Fyrrum landbúnaðarráðherra og sagnamaður selur miðbæjarperlu á Selfossi

Fyrrum landbúnaðarráðherra og sagnamaður selur miðbæjarperlu á Selfossi
Fókus
Fyrir 4 dögum

Sérstæð vinátta ræstingakonu og kolkrabba hefur heillað heimsbyggðina

Sérstæð vinátta ræstingakonu og kolkrabba hefur heillað heimsbyggðina