fbpx
Þriðjudagur 24.desember 2024
Fókus

Linda þótti of lágvaxin fyrir Lögregluskólann en annað kom á daginn

Ritstjórn DV
Mánudaginn 25. maí 2020 22:00

Linda Björk Ólafsdóttir lögreglukona dróg mann út úr brennandi húsi. Hugrekkið hefur ekki hæðartakmarkanir.

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Linda Björk Ólafsdóttir var tvítug þegar hún ákvað að sækja um inngöngu í Lögregluskólann. Í þá daga voru hæðartakmarkanir og þótti Linda aðeins of lágvaxin og komst því ekki inn í skólann. En árið 2006 sótti hún um starf sem afleysingalögreglumaður, þrátt fyrir að hafa gefið starfið upp á bátinn mörgum árum áður og vildi láta á það reyna aftur. Linda var ráðin, ílengdist og þótti starfið gefandi. Í kjölfarið fór hún í Lögregluskólann. Að loknu námi fékk hún starf hjá Lögreglunni á Suðurnesjum.

Hugrekkið hefur ekki hæðartakmarkanir

Linda var því nýútskrifuð úr Lögregluskólanum þegar hún var á vakt í Grindavík. Á þessum tíma var lögreglustöð í Grindavík, en þar var ekki sólarhringsvakt. Linda og starfsfélagi hennar voru við eftirlit þegar tilkynning barst um að þykkan reyk legði frá íbúð þar skammt frá. Linda og félagi hennar fóru á vettvang og sáu reykjarmökk koma frá íbúðinni og fundu mikla brunalykt. Þau bönkuðu og hringdu dyrabjöllunni en fengu engin svör. Þau ganga aftur fyrir húsið og í gegnum glugga sér Linda að þar liggur maður hreyfingarlaus í sófa. Hann sýnir engin viðbrögð og reyna þau að banka á svalahurð og glugga og kalla inn til hans. Nágrannar mannsins eru einnig á vettvangi og sameinast allir um að banka, kalla og athuga hvort einhvers staðar sé gluggi opinn, svo hægt sé að komast inn. Svo er ekki og félagi Lindu fer aftur að framhlið hússins til að kanna stöðu mála þar. Engin viðbrögð Maðurinn sýnir engin viðbrögð og biður Linda einn nágrannann að sækja verkfæri sem nýta megi til að spenna upp hurðina.

Þau ná svo í sameiningu að spenna hana upp. Mikinn reyk leggur út um dyrnar og Linda tekur ákvörðun um að fara inn í íbúðina. Reykurinn umlykur allt en Linda leggst á gólfið, þreifar sig áfram og skríður í átt að sófanum. Meðan á þessu stendur magnast reykurinn, en Linda dregur peysukragann fyrir vit sín til að skýla sér sem mest fyrir reyknum. Linda kemst að sófanum og þreifar eftir fótum mannsins. Hún reynir að vekja hann, en fær engin viðbrögð. Maðurinn er meðvitundarlaus. Þarna tekur Linda ákvörðun um að standa upp, hún nær að grípa utan um manninn, sem var töluvert stærri og þyngri en hún sjálf, og byrjar að draga hann í átt að dyrunum. Við þetta missir hún peysukragann frá andlitinu og er því alveg berskjölduð fyrir reyknum. Maðurinn bregst ekkert við í fyrstu en þegar Linda nálgast svaladyrnar rankar hann við sér. Hann byrjar að berjast um og slá frá sér. Linda útskýrir fyrir honum að hún sé lögreglumaður og sé að reyna að koma honum út úr íbúðinni. Maðurinn heldur áfram að berjast um, en á einhvern ótrúlegan hátt nær Linda að koma honum út úr íbúðinni. Á sömu stundu kemur félagi Lindu og hjálpar henni að draga manninn í öruggt skjól.  Hann rankar aðeins betur við sér og Linda og félagi hennar fá þær upplýsingar frá honum að hann hafi verið einn í íbúðinni.

Hikaði ekki

Spurð hvort hik hefði komið á hana áður en hún óð inn í íbúðina, svaraði Linda því neitandi. Hún mat aðstæður þannig að bregðast þyrfti skjótt við því að reykurinn magnaðist með hverri mínútunni og varð svartari og svartari. Það tekur ákveðinn tíma fyrir slökkvilið að komast á vettvang og ekki er hægt að spá fyrir um hvert ástand mannsins hefði verið þá. Maðurinn hafði verið töluvert lengi inni í reykfylltri íbúðinni og hafði Linda mestar áhyggjur af reykeitrun. Í þokkabót sýndi hann engin viðbrögð og Linda sá að það var enn súrefni niður með gólfinu svo að mögulegt var að komast að honum. Þegar hún tók ákvörðunina um að fara inn, vissi hún að þetta væri mínútuspursmál fyrir manninn. Linda hafði hlotið góða þjálfun í Lögregluskólanum, en þar hafði hún æft reykköfun og notkun reykköfunarbúnaðar hjá slökkviliðinu. Slökkvilið var á leiðinni frá Keflavík en Linda gat ekki hugsað sér að bíða,  enda mikilvægt að ná manninum út sem fyrst. Linda fann ekki fyrir ótta er hún fór inn í íbúðina, hún bara fór inn, staðráðin í að ná manninum út. Maðurinn var svo fluttur til innlagnar á sjúkrahús með reykeitrun. Linda fékk sjálf reykeitrun og fann vel fyrir því í nokkra daga eftir atvikið. Hún áttaði sig á því eftir á að hún hefði fengið reykeitrun, en fór ekki til aðhlynningar á sjúkrahús eftir atvikið. Hún fann fyrir andþyngslum í kjölfarið og man vel eftir hversu sterk reykjarlyktin var í fötunum hennar. Hún var með tækjabelti og minnist þess hversu lengi lyktin sat föst í beltinu.

Elskar starfið

Þegar ég spurði Lindu út í tilfinningar hennar eftir þetta sagðist hún hafa verið stolt, og ætti hún svo sannarlega að vera það, enda bjargaði hún að öllum líkindum mannslífi. Hún talaði um að þau hefðu verið á réttum stað á réttum tíma og að þetta hefði greinilega átt að fara svona. Linda sýndi hugrekki og þor, enda var meginástæða þess að hún gekk til liðs við lögregluna sú að hana langaði að hjálpa öðrum og gefa af sér. Linda hafði það líka með sér að hafa verið viðloðandi  líkamsræktargeirann lengi og meðal annars þjálfað Slökkvilið Reykjavíkur á sínum tíma. Í samtali mínu við Lindu skein í gegn hversu mikið hún naut þess að starfa hjá lögreglunni og hvað henni þykir vænt um þessa starfsstétt. Linda slasaðist illa við lögreglustörf árið 2011 og hefur ekki getað sinnt starfi sínu síðan vegna þess. Linda er greinilega mjög ákveðin og dugleg kona, hún sagði mér að nú væri þetta hennar verkefni, að huga að heilsunni og að hana langaði að fara aftur til starfa. Hún var einmitt í göngutúr þegar við spjölluðum saman. Ég held að hverjum sem lesi þessa grein sé það ljóst að Linda Björk Ólafsdóttir er hörkukona sem brást þarna við af mikilli fórnfýsi og óeigingirni. Lögreglumenn og -konur eru þjóðfélagi okkar gífurlega mikilvæg og ætla ég að minna á að lögreglumenn hafa verið án kjarasamnings í 13 mánuði. Við sem þjóðfélag ættum öll að leggjast á eitt í stuðningi við þessa mikilvægu stétt.

Texti: Unnur Regína Gunnarsdóttir
Hlaðvarpið Háski kemur út á mánudögum á vef DV. Lumar þú á Lífsháskasögu? Sendu okkur endilega ábendingu á haskipodcast@gmail.com

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fókus
Í gær

Atli hélt að það væri einhver að elta hann – „Á tímabili var ég alltaf vopnaður hnífum, hnúajárni og með byssur heima“

Atli hélt að það væri einhver að elta hann – „Á tímabili var ég alltaf vopnaður hnífum, hnúajárni og með byssur heima“
Fókus
Fyrir 2 dögum

Marta fær yfir sig óánægjuskriðu eftir pistil um klæðaburð Ingu Sæland – „Marta Smarta er ekki mjög smart í krítikinni sinni“

Marta fær yfir sig óánægjuskriðu eftir pistil um klæðaburð Ingu Sæland – „Marta Smarta er ekki mjög smart í krítikinni sinni“
Fókus
Fyrir 4 dögum

Jólakort ársins frá Vilhjálmi og Katrínu

Jólakort ársins frá Vilhjálmi og Katrínu
Fókus
Fyrir 4 dögum

Anna varla eftirspurn vegna áhugasamra kaupenda – Einstakt hús í Kópavogi

Anna varla eftirspurn vegna áhugasamra kaupenda – Einstakt hús í Kópavogi
Fókus
Fyrir 4 dögum

Christina Aguilera fækkaði fötum fyrir 44 ára afmælið

Christina Aguilera fækkaði fötum fyrir 44 ára afmælið
Fókus
Fyrir 5 dögum

Myndir af leikkonunni settu allt á hliðina og nú svarar hún tröllunum fullum hálsi – Málið vekur upp spurningar um kröfur karla til kvenna

Myndir af leikkonunni settu allt á hliðina og nú svarar hún tröllunum fullum hálsi – Málið vekur upp spurningar um kröfur karla til kvenna