fbpx
Miðvikudagur 22.janúar 2025
Fókus

„Ég held að ég sé orðin ástfangin af samstarfsmanni mínum“

Fókus
Sunnudaginn 10. maí 2020 21:00

Kristín Tómasdóttir

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Kristín Tómasdóttir, hjónabandsráðgjafi með meiru, hefur gengið til liðs við DV og mun svara spurningum lesenda um málefni er varða fjölskylduna, börn og ástina. Að þessu sinni svarar Kristín spurningu frá giftri konu sem ber tilfinningar til samstarfsmanns síns og veltir fyrir sér hvaða þýðingu það hefur fyrir hjónaband hennar.

______________________

Hæ, Kristín. Mér finnst ég vera í erfiðri stöðu þessa dagana, en svo er mál með vexti að ég held að ég sé orðin ástfangin af samstarfsmanni mínum.

Ég og maðurinn minn erum búin að vera gift í 20 ár og erum komin á miðjan aldur, börnin orðin voða sjálfstæð og lífið snýst mikið bara um vinnuna. Ég hugsa stöðugt um samstarfsfélagann, roðna eins og smástelpa þegar hann er nálægt mér og hef tekið eftir því að ég er farin að mála mig og klæða mig eins og ég sé á leiðinni á ball fyrir vinnudaginn. Síðan sakna ég hans svakalega þegar hann er ekki í vinnunni og verð hálf ómöguleg.

Vandamálið mitt er í raun þetta, fyrst ég finn fyrir tilfinningum til samstarfsfélaga míns, þýðir það að hjónabandið mitt sé búið? Ætti ég að fara frá manninum mínum eða er þetta einhver grár fiðringur?

Ekkert óeðlilegt

Sælar og takk fyrir spurninguna. Starfið mitt gengur að svo miklu leyti út á að spyrja spurninga. Oftast finna skjólstæðingar mínir lausn sinna mála í sínum eigin svörum. Þess vegna kitlar það mig að vita meira um hvað liggur að baki líðan þinni en fyrst ég get ekki spurt þá fylli ég í eyðurnar og vona að það komi ekki að sök.

Ég velti helst fyrir mér hvers vegna þú setur samasemmerki á milli þess að verða skotin í vinnufélaga og að enda hjónaband þitt. Er einhver annar vandi til staðar í hjónabandinu? Langar þig út úr því? Ef ekki, þá get ég sagt þér að margir sem eiga í parsamböndum finna fyrir tilfinningum til annarrar manneskju á einhverjum tímapunkti. Það fer svo alveg eftir því hvers eðlis tilfinningarnar eru og hvernig viðkomandi bregst við þeim, hverjar afleiðingarnar verða.

Algengt að þrá eitthvað sem er ekki í boði

Hversu vel þekkir þú vinnufélaga þinn? Byggja tilfinningar þínar á fantasíum um hann eða raunverulegum samskiptum? „Ást við fyrstu sýn“ getur verið öryggistilfinning í tengslum við eitthvað sem þú þráir. Algengt er að þrá eitthvað sem er ekki í boði nema með því að ímynda sér það í annarri manneskju. Fantasíur fólks ríma oft ekki við lífsskoðanir.

Fantasíur eru hugmyndir og ímyndanir sem geta veitt sefjun þrátt fyrir að vera algjörlega á skjön við það sem sami einstaklingur myndi í raun vilja gera. Hugmyndin um vinnafélaga þinn, hvort sem hún er af tilfinningalegum eða kynferðislegum toga, getur veitt þér einhverja nautn sem þú myndir mögulega ekkert fá út úr ef af henni yrði í raun og veru.

Þá vitum við vel að þegar einhvern skortir eitthvað í parsambandi þá er auðvelt að leita annað eftir því sem ekki er uppfyllt. Út frá þeim forsendum sem þú gefur upp í spurningu þinni gef ég mér að það sé ekki allt eins og þú myndir vilja hafa það í hjónabandi þínu. Hefur þú rætt við maka þinn um það?

Er kominn tími á að kaupa sér krumpugalla í stíl?

Ef líf ykkar hjóna snýst fyrst og fremst um vinnuna, þá er ekkert undarlegt við að með tímanum líði hjónabandið fyrir það. Í góðum hjónaböndum er til staðar vinátta og þar nýtur fólk samveru við hvort annað.

Ef líf ykkar snýst um vinnuna, samvera ykkar er lítil og þú ert farin að líta í kringum þig, þá gæti verið ráð að reyna að finna þráðinn á milli ykkar hjóna á ný.

Er kominn tími á að kaupa sér krumpugalla í stíl, golfsett eða gönguskó? Búa til ánægjulegar stundir, skapa samtöl og minningar sem áður var ekki tími fyrir? Kannski gætir þú nýtt þetta skot til þess einmitt að bretta upp ermar og laga núverandi samband.

Eins og ég væri nú örugglega góð í því, þá get ég ekki sagt neinum hvort hann eigi að vera eða fara í sínu sambandi. Það er ákvörðun sem við þurfum öll að taka sjálf á okkar forsendum. En ég get sagt þér að það skilur enginn klukkan 17.00 á þriðjudegi án formála eða eftirmála.

Skilnaður er alltaf ferli sem fólk þarf að leyfa sér að ganga í gegnum og stundum þarf að taka eitt skref áfram og tvö aftur á bak. Í slíku ferli getur fólk mátað sig við aðra aðila, sumir stytta ferlið verulega með því að halda framhjá og aðrir snarhætta við þegar þeir finna að grasið er ekki alltaf grænna hinum megin.

Mögulega ert þú í skilnaðarferli. Mögulega kalla þessar tilfinningar á að þú leggir vigt og vinnu í núverandi hjónaband þitt. Andaðu inn og hlustaðu eftir því á hvorri vegferðinni þú ert.

_ _ _ _ _ _ _ _ _ _ _

Við hvetjum lesendur til að senda spurningar og vangaveltur sínar til Kristínar í tölvupósti á: hjonabandssaela@gmail.com. Spurningunum verður svo svarað hér í Fjölskylduhorninu, að sjálfsögðu nafnlaust og undir fullum trúnaði.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fókus
Fyrir 2 dögum

Einkaspæjari afhjúpar nýja leið hvernig makar fela framhjáhald – Forrit sem er í öllum iPhone símum og vekur engar grunsemdir

Einkaspæjari afhjúpar nýja leið hvernig makar fela framhjáhald – Forrit sem er í öllum iPhone símum og vekur engar grunsemdir
Fókus
Fyrir 2 dögum

Vill að RÚV geri samning við Vesturport

Vill að RÚV geri samning við Vesturport
Fókus
Fyrir 4 dögum

Sérstæð vinátta ræstingakonu og kolkrabba hefur heillað heimsbyggðina

Sérstæð vinátta ræstingakonu og kolkrabba hefur heillað heimsbyggðina
Fókus
Fyrir 4 dögum

Framkvæmdastjórinn í Paradís flytur sig um set

Framkvæmdastjórinn í Paradís flytur sig um set