fbpx
Mánudagur 18.nóvember 2024
Fókus

Það má gera grín að öllu

Auður Ösp
Laugardaginn 9. maí 2020 21:00

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Dóra Jóhannsdóttir leikkona skráði sig í langtímameðferð í Svíþjóð eftir árangurslausar tilraunir á Íslandi. Hún segir frá baráttunni við alkóhólisma, söknuðinum eftir syninum sem bíður heima á Íslandi og húmornum sem yfirgaf hana aldrei.

Mitt á milli Stokkhólms og Gautaborgar, í friðsælum skógi við vatn, stendur meðferðarheimilið þar sem Dóra hefur dvalið síðustu þrjá mánuði.

Þangað hafa fjölmargir Íslendingar leitað í gegnum tíðina og öðlast bata. Og Dóra er ekki eini Íslendingurinn sem dvelur þar þessa stundina.

Ólíkt nær öllum Íslendingum hefur Covid-19 faraldurinn nánast farið fram hjá Dóru. „Ég er eiginlega búin að missa af þessu öllu. Þessi vírus hefur eiginlega ekki breytt neinu hjá mér hérna, ég er bara að gera það sama og áður og það er sama dagskrá í gangi. Ég er búin að vera að tala við vini mína á Zoom og ég er ekkert að tengja við það sem þau eru að upplifa.“

Fjarveran frá syninum erfið

Hún fór fyrst í meðferð fyrir einu og hálfu ári. „Ég var búin að fara í fleiri en eina meðferð heima á Íslandi. Ég þurfti að prófa eitthvað annað, ég þurfti að finna aðra lausn,“ segir Dóra.

Langur biðlisti er inn á Vog og það blasti við Dóru að hún þyrfti langtímameðferð. „Ég var heppin að komast fljótt inn hérna. Ég er afskaplega þakklát fyrir að hafa fengið þetta tækifæri, að koma hingað út.“

Dóra tekur fram að hún hafi ekkert út á meðferðarúrræðin á Íslandi að setja. Sjálf hefur hún bæði reynslu af Vogi og Vík og ber starfinu þar og starfsfólkinu vel söguna. „En það er auðvitað hræðilegt að það skuli vera svona löng bið í meðferð heima á Íslandi. Það er í rauninni harmleikur. Sérstaklega eins og ástandið er núna í samfélaginu, margar fjölskyldur innilokaðar heima hjá sér og víða er neysla í gangi. Það er hræðileg tilhugsun.“

Meðferðin í Svíþjóð er langtímameðferð, þar sem farið er djúpt ofan í 12 spora kerfið. „Ráðgjafarnir hérna eru stór- kostlegir. Umhverfið er ótrúlega fallegt og það hjálpar líka til að vera í burtu frá öllu heima. Kúpla sig út.“

Á meðan Dóra er í Svíþjóð er tíu ára sonur hennar heima á Íslandi. Það að vera í burtu frá barninu sínu í langan tíma er nákvæmlega jafn erfitt og það hljómar. Planið var að sonur Dóru og barnsfaðir myndu heimsækja hana út til Svíþjóðar í maí, í kringum afmæli sonarins.

„Hann var auðvitað svo spenntur, og ég líka. Þegar ég sagði honum að hann myndi líklega þurfa að fara í sóttkví í tvær vikur þegar hann kæmi heim þá sagði hann að það væri allt í lagi, það væri sko alveg þess virði.“

Í dag lítur hins vegar út fyrir að það verði ekkert úr heimsókn þeirra feðga. Mæðginin þurfa að láta sér nægja að hittast í gegnum internetið. „Hann les til dæmis alltaf fyrir mig heimalesturinn á kvöldin. Þannig að ég næ að taka þátt í lífinu hans að einhverju leyti. Ég hef stundum fengið smá samviskubit yfir því að skilja barnsföður minn einan eftir með strákinn okkar á meðan það er heimsfaraldur í gangi. Þeir eru reyndar báðir alveg ógeðs- lega fyndnir og skemmtilegir. Ég veit að það er búið að vera gaman hjá þeim, þótt það hafi líka tekið á. En svo eigum við líka bæði góða að.“

Barnsfaðir Dóru er Jörundur Ragnarsson leikari. Þau kynntust í Leiklistarskólanum á sínum tíma og fóru saman í gegnum námið. Þau skildu fyrir sex árum og eru í dag mjög góðir vinir. „Við höfum unnið rosalega mikið saman í gegnum tíðina. Við erum ótrúlega góðir vinnufélagar,“ segir Dóra og á þar bæði við leiklistina og foreldrahlutverkið.

Hún telur ekki útilokað að sonurinn muni feta í fótspor þeirra. „Hann er svona lítill skemmtikraftur og hann hefur stundum talað um það að vilja verða grínisti. Á tímabili fannst honum það reyndar alveg hræðilegt hlutskipti að vera leikarabarn og eiga foreldra sem voru alltaf að vinna á kvöldin. Hann var sko ekki sáttur við að við værum bara að leika okkur eitthvað í leikhúsinu á meðan hann væri í pössun heima,“ segir Dóra. Í dag lítur sonurinn starf foreldranna öðrum augum, kemur oftast með þeim í leikhúsið og fylgist spenntur með því sem þar fer fram.

Lék bara hórur

Leiklistarbransinn á Íslandi er hark. Samkeppnin er mikil og það eru ekki allir sem lifa af. Dóra er ein þeirra sem hafa náð að lifa á listinni. Næturvaktin, Hamarinn, Mið-Ísland, Steypustöðin, Undir trénu og Ófærð eru dæmi um þau kvikmynda- og sjónvarpsverkefni sem Dóra hefur leikið í undan- farin ár. Að ógleymdu Áramótaskaupinu 2017 og 2019 þar sem hún var jafnframt yfirhandritshöfundur í bæði skiptin.

Fyrsta aðalhlutverkið á sviði eftir útskrift var ólétt unglingsstúlka úr Garðabænum, í söngleiknum Leg eftir Hugleik Dagsson. Síðan hafa hlutverkin orðið fleiri, bæði í Þjóðleikhúsinu og Borgarleikhúsinu.

„Þegar ég útskrifaðist fékk ég strax hlutverk í Þjóðleikhúsinu en ég var samt að gera eigin verkefni á fullu samhliða því, af því að ég þurfti að fá útrás fyrir framkvæmda- og sköpunarþörfina. En auð- vitað getur þetta verið erfitt, að lifa eingöngu af listinni. Ég er mjög heppin.“

Talið berst að leiklistar- bransanum og #metoo-hreyfingunni. Dóra segist svo sannarlega hafa orðið vör við kynferðislega áreitni og misbeitingu innan leikhússins.

„Á sínum tíma, þegar ég var að klára Leiklistarskólann, þá rann upp fyrir mér að ég hafði nánast bara fengið að leika hórur. Ég var meira og minna á nærfötunum allan tímann sem ég var í Leiklistarskól- anum. Þetta var auðvitað löngu áður en #metoo-hreyfingin byrjaði og öll umræðan í kringum það. Þarna áttaði ég mig á hvað ég hafði verið blind fyrir þessu og hvað þetta hefði verið skakkt. Ég hélt án djóks að þetta væri bara eðlilegt.“

Dóra segir að eftir að hún útskrifaðist og fór að vinna í leikhúsinu hafi hún líka orðið vör við hluti sem voru ekki í lagi. Í leikhúsinu hafi oft verið mikið um óþægilegar og óvið­ eigandi snertingar og klám­ fengna brandara. „Ég man þegar ég byrjaði og fannst þetta alveg rosalega óþægi­legt.“
Hún segir að ástandið í dag sé blessunarlega ekki það sama og þegar hún var að taka sín fyrstu skref í bransanum. „Ég finn ekkert fyrir svona hegðun í dag. Þetta er alla­ vega ekki eins núna og fyrir tíu árum. Það er auðvitað bara stórkostlegt að þessi hreyfing hafi átt sér stað.“

Upp á líf og dauða

Á árum áður voru fáar leik­konur á Íslandi sem einbeittu sér nánast eingöngu að gríni. Dóra nefnir sem dæmi Eddu Björgvinsdóttur og Helgu Brögu Jónsdóttur sem lengst af voru einu fulltrúar kven­ þjóðarinnar í íslensku gríni. Viðhorfið hefur stundum verið þannig að konur mega ekki láta eins og vitleysingar, þær mega ekki vera ljótar eða asnalegar. Þær eiga að vera stilltar og prúðar. Sumir vilja meina að konur séu ein­faldlega ekkert fyndnar. Dóra segir þennan hugsunarhátt sem betur fer vera á algjöru undanhaldi.

„Ég hef orðið vör við þetta kannski svona tvisvar sinn­ um á seinustu tíu árum. Þú heyrir held ég engan segja þetta í dag. Það eru komnar svo margar flottar gríngellur. Þegar ég var að koma úr skól­ anum og inn í bransann voru margar geggjaðar gaman­ leikkonur áberandi, eins og Ilmur Kristjáns, Dóra Geir­ harðs, Katla Margrét, Bryn­hildur Guðjóns og fleiri. Þær og margar aðrar voru búnar að ryðja brautina. Síðan þá hafa ennþá fleiri bæst við. Ég vinn mikið með Sögu Garðars, og mér finnst hún klárust og fyndnust í heimi.“

Hún segist aldrei hafa feng­ið neitt sérstaklega mikið út úr því að leika drama. „Ég hef alltaf fengið mitt kikk út úr því að vera í gríni: skrifa grín og leika grín og allt í kringum það. Og mér finnst ég heppin að hafa fengið að vera svona mikið í gríni, enda segi ég oft að ég vinni við það að hlæja. Ég hef alveg pissað á mig af hlátri í vinnunni, oftar en einu sinni. Og stundum á sviði fyr­ir framan áhorfendur.“

En grín getur samt verið dauðans alvara, er það ekki?

„Jú, algjörlega, þetta getur verið upp á líf og dauða fyrir mig. Ég tek þessu mjög alvar­ lega og er oft með fullkomn­ unaráráttu. Ég er reyndar að stefna á það að vera aðeins af­ slappaðri gagnvart verkefnum sem ég tek að mér. Það er svo lýjandi að vera með verkefni á heilanum 24/7. Svo á ég það til að ofhugsa hlutina, sem eroftast alls ekki málið.“
Dóra tekur sem dæmi atriði úr Skaupinu 2018 sem vakti mikla lukku. Þar brá hún sér í gervi samfélagsmiðlastjörn­unnar Sólrúnar Diego þar sem hún þreif edikbrúsa með edik­ brúsa og skolaði svo vatn með vatni.

„Ég var viss um að þetta væri alltof heimskuleg og einföld hugmynd sem myndi aldrei ganga upp. Ég minntist samt á hana á einum handrits­ fundinum en passaði að afsaka mig alveg í bak og fyrir: „Æ, ókei, ég skal segja ykkur þessa hugmynd, en hún er samt al­ veg glötuð sko.“ En svo höfðu hinir í hópnum trú á þessu, og það var rosalega gaman að sjá viðbrögðin hjá fólki. Þetta var eiginlega ákveðin lexía fyrir mig. „Keep it simple, stupid,“ er stundum sagt. Það þarf ekki alltaf að flækja hlutina svona mikið. Fólk vill fyrst og fremst skilja grínið.“

Spuni snýst um samskipti og hlustun

Árið 2015 stofnaði Dóra Im­ prov Ísland hópinn sem und­anfarin ár hefur staðið fyrir vikulegum grín­spunasýning­ um í Þjóðleikhúskjallaranum. Á nánast hverri sýningu er fullt út úr húsi og fjölmargir koma aftur og aftur enda eru engar tvær sýningar eins.

Eða, eins og Emmsjé Gauti segir í umsögn sinni um sýn­inguna: „Ohmygod hvað þetta var gott stöff.“

Í Bandaríkjunum er mikil hefð fyrir spunaleiksýningum og hafa margar af stærstu Hollywood­stjörnunum geng­ ist undir spunaþjálfun, til að mynda Bill Murray, Tina Fey, Will Ferrell, Mike Meyers og Steve Carell. Það eru engar ýkjur að Dóra er nokkurs kon­ ar guðmóðir spuna­senunnar á Íslandi.

„Ég var svo heppin að ég fékk tækifæri til að búa í New York á sínum tíma, þegar maðurinn minn þáverandi var í mastersnámi þar. Þar lærði ég improv, eða spunatækni, og sketsa­skrif í Upright Citizens Brigade í New York,“ segir Dóra en þess ber að geta að Amy Poehler og fleiri stofnuðu Upright Citizens Brigade leikhúsið í New York, sem rekur einnig umræddan skóla.

„Það var rosalega dýrmæt reynsla. Þarna gafst mér tækifæri til að stúdera þessa tækni og koma svo heim með þessa þekkingu. Sem síðan gerði mér kleift að byrja með þessa „senu“ og miðla þessu til annarra.“

Árið 2017 lærði Dóra sketsaskrif og spuna hjá The Second City í Chicago, sem er nokkurs konar mekka spunaleiklistarinnar. Dóra bendir á að á bak við spuna sé gríðarlega mikil tækni. Rétt eins og í íþróttum þarf að þjálfa spunavöðvann. Reynslumiklir spunaleikarar geta auðveldlega spunnið heila leiksýningu út frá einu orði. Hún bendir á að spuni snúist fyrst og fremst um samskipti og hlustun. Eitthvað sem allir hafa gott af að tileinka sér.

„Það er rosalega gaman að horfa á „pró“ improlleikara sem hafa eytt mörgum árum í að tileinka sér þessa tækni. Það er alveg magnað hvað sumir þeirra geta töfrað fram.“

Frá árinu 2013 hefur Dóra, og seinna nemendur hennar, kennt námskeið í spunatækni: Improv-Haraldinn. Þangað mætir fólk á öllum aldri, frá átján ára og upp í áttrætt. Flestir þeirra hafa aldrei stigið á leiksvið áður. Dóra hefur einnig kennt spunatækni í meðferðinni í Svíþjóð. Hún segir algengt að fullorðið fólk kunni ekki, eða þá þori ekki, lengur að leika sér. „Margir af þeim sem koma á námskeiðin hafa ekki farið í almennilegt hláturskast í langan tíma. Það er ótrúlegt hvað það getur gert mikið fyrir fólk að sleppa sér aðeins og hlæja almennilega.“

Dóra segir að spuni geti í mörgum tilfellum hjálpað þeim sem eru að byggja sig upp, til dæmis eftir áföll. „Ég hef sjálf upplifað það að lenda í áföllum, og vera í þannig ástandi að ég treysti mér engan veginn til að fara á improvæfingu. Svo hef ég drifið mig á æfingu, gleymt mér algjörlega og hlegið og hlegið. Jafnvel þó að ég hafi verið nýbúin að fá hræðilegar fréttir. Spuni er nefnilega svo mikil núvitund. Þú þarft að tæma hugann og vera á staðnum. Það er bannað að hugsa of mikið og dvelja í huganum.

Einn kennarinn sem ég hafði úti var vanur að segja: Hugurinn er hættulegt hverfi. Maður á aldrei að fara þangað einn.“

Nærgætni er mikilvæg

Undanfarin misseri hefur Dóra líka haldið námskeið í sketsaskrifum. Rétt eins og spuni eru sketsaskrif eitthvað sem fólk lærir ekki á einum degi.

Dóra segir að þeir sketsar sem flestir tengi við snúist að einhverju leyti um mannlega bresti, óvenjulega hegðun eða galla í fari fólks, á mjög ýktan hátt.

Hún nefnir sem dæmi klassískan karakter úr Fóstbræðrum: nöldurskjóðuna Indriða sem tuðar í sífellu um „eitt- hvað bank í ofnunum“.

„Þó að þetta sé ýktur karakter, þá þekkja allir þessa týpu. Góður skets snýst um að benda á sannleikann, spegla sam- félagið og spegla áhorfendur.“

Dóra bendir á hvað grín sé mikilvægt listform. „Það getur haft svo mikil áhrif nefnilega. Það er hægt að nota grín til að breyta heiminum og varpa ljósi á það sem þarf að breyta.“

En er hægt að gera grín að hverju sem er? Má til dæmis gera grín að fötluðum, feitu fólki, barnaníði eða nauðgunum?

„Já,ég er á því að það megi nota hvaða umfjöllunarefni sem er, ef maður er nærgætinn. Þú þarft að vera mjög fær til að geta gert það. Ég myndi aldrei gera grín að minnihlutahópum eða fórnarlömbum samt, mér finnst að grín eigi alltaf að kýla upp, ekki niður. Ef ég myndi skrifa skets þar sem er minnst á minnihlutahópa, þá myndi ég hugsa þetta þannig: Ef ég myndi sitja og horfa á þetta við hliðina á einhverjum sem er í þessum minnihlutahóp gæti ég þá hlegið og myndi sú manneskja líka hlæja? Ég vil ekki vera rætin með mínu gríni.“

Dóra tekur sem dæmi skets sem var tekinn upp fyrir seinasta Áramótaskaup en klipptur út á síðustu stundu. Í þeim skets var talað um sjálfsvíg. Sketsinn var á þá leið að nokkrar manneskjur voru að ræða saman og hver og einn gortaði sig af því sem hann eða hún var að gera í þágu umhverfisins, einn sagðist hafa kolefnisjafnað flug, ein borðaði ekki kjöt, einn sagðist ekki ætla að eignast börn og svo framvegis. Þá segir ein í hópnum: „Ég er búin að ákveða að kála mér, það er það minnsta sem ég get gert fyrir umhverfið.“

„Mér sjálfri fannst þetta mjög fyndið en við vorum samt hrædd um að þetta myndi stuða einhverja þarna úti og það vildum við alls ekki gera. Það var samt ekki verið að gera grín að sjálfsvígum, það var verið að gera grín að þessari keppni sem við erum í við hvert annað, keppni sem er ekki hægt að vinna. En það var hárrétt ákvörðun að taka þennan skets út úr Áramótaskaupinu.

Botninn varð dýpri og dýpri

Á meðferðarheimilinu þar sem Dóra dvelur eru konur í miklum minnihluta. Og hún tekur undir með því að alkóhólismi sé meira tabú á meðal kvenna heldur en karla. Meira falinn.

„Mér finnst ekkert mál að tala um þetta, enda skammast ég mín ekkert fyrir að vera með þennan sjúkdóm. Ég meina, ekki bað ég um að fá hann. Ég er bara að reyna að gera allt sem ég get til að taka ábyrgð á sjúkdómnum, enda það eina sem ég get gert.“

Dóra telur að umræðan um alkóhólisma sé oft byggð á misskilningi. „Mér finnst eins og fólk geri sér ekki alltaf grein fyrir að þetta er sjúk- dómur. Samkvæmt læknisfrræðinni er þetta áunninn heilasjúkdómur og það þarf einfaldlega að meðhöndla þetta eins og hvern annan sjúkdóm. Ég vissi þetta ekki sjálf þegar ég fór fyrst í meðferð. Þetta var allt svo nýtt fyrir mér.“

Margir alkóhólistar koma úr fjölskyldum þar sem sjúkdómurinn hefur lagst á heilu og hálfu kynslóðirnar. Þannig var það ekki í tilfelli Dóru.

„Ég missti ekki stjórn á lífi mínu um leið og ég byrjaði að drekka. Það var ekki fyrr en undir lokin. Það var svo margt sem kom mér á óvart þegar ég byrjaði að takast á við þetta. Við getum orðað þetta þannig að ég var alltaf að ná nýjum og nýjum botni. Botninn varð alltaf dýpri og dýpri. Mig langaði svo mikið til að hætta. En ég gat það ekki.“

Dóra segir að það sé erfitt að útskýra þessa baráttu fyrir þeim sem ekki þekkja til, þeim sem hafa aldrei verið í þessari stöðu. „Ég hef reynt það, og mig langar svo mikið að aðrir skilji mig. En reynsl- an hefur sýnt mér að þeir einu sem virkilega skilja þetta eru aðrir alkóhólistar.

Það er erfitt að vera í stanslausu stríði við sjálfan sig. Það er eins og maður sé andsetinn,“ segir Dóra. „Aðrir í kringum mann skilja ekki af hverju maður getur ekki hætt og maður skilur það ekki sjálfur. Það er kannski það versta. Ég er ekki komin með langan edrútíma sjálf, rétt þrjá mán- uði og meira að segja ennþá í meðferð og get því kannski ekki gefið fólki mörg ráð, en ég vil taka þátt í að fræða fólk um þetta og ég vil auka skilning á alkóhólisma. Ég vil líka bara vera opin og heiðarleg með þetta. Vonandi hjálpar það einhverjum.“

Dóra segist aldrei hafa séð ástæðu til að fara leynt með sjúkdóminn. „Það sem ég get gert er að bera ábyrgð á sjálfri mér og þiggja þessa leiðsögn, hlusta á þá sem hafa reynslu af bata.“

Langar að leikstýra Skaupinu

Dóra verður áfram í Svíþjóð um óákveðinn tíma. Hún ætlar að fylgja því sem ráðgjafarnir segja. Hún einbeitir sér að batanum. Einn dag í einu. Námskeiðin eru alltaf í gangi hjá Improv Ísland þótt þeim hafi verið frestað fram á sumar út af Covid-19. Hún er með hugmynd í maganum að sjón- varpsþáttaröð sem hún stefnir á að byrja að skrifa eftir með- ferð. Svo er eitt ákveðið markmið á listanum.

„Ég uppfyllti minn æðsta draum þegar ég fékk að skrifa Skaupið. Ég var búin að horfa á hvert Skaup aftur og aftur í mörg ár, sat og greindi Skaupið og pældi í atriðunum. Ég stefni á að leikstýra Skaupinu einn daginn. Það er sko ekkert leyndarmál. En mér liggur ekkert á. Ég krossa bara fingur og er þolinmóð.“

Hún kveðst líka vera stolt af sjálfri sér fyrir að hafa farið út í meðferð. „Það er full vinna, og erfitt að vinna í sjálfum sér á þennan hátt, og reyna að ná bata. Og ég er ofboðslega þakklát fyrir prógrammið, ég hef ofurtrú á því. Ég er að berjast við þetta og ég ætla að gera allt sem ég get til að ná árangri. Og ég er bjartsýn á að mér takist þetta. Ég er spennt fyrir framtíðinni og ég er spennt fyrir edrúlífinu.“

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fókus
Í gær

Hverju skyldu útlendingar eiga bágt með að trúa um Ísland?

Hverju skyldu útlendingar eiga bágt með að trúa um Ísland?
Fókus
Fyrir 2 dögum

Bókarýni: Brotakennt baksvið stjórnmálanna

Bókarýni: Brotakennt baksvið stjórnmálanna
Fókus
Fyrir 2 dögum

Hvað á það á heita? – Nafnaþráðurinn sem sló í gegn á netinu

Hvað á það á heita? – Nafnaþráðurinn sem sló í gegn á netinu
Fókus
Fyrir 2 dögum

Ekki allir sáttir með gestalistann hjá Gísla Marteini í kvöldi – „Hvað er að ykkur nöldrarar?“

Ekki allir sáttir með gestalistann hjá Gísla Marteini í kvöldi – „Hvað er að ykkur nöldrarar?“
Fókus
Fyrir 4 dögum

Vildu njóta sín í lúxusbaði á Íslandi en fengu þetta í staðinn – Sjáðu myndbandið

Vildu njóta sín í lúxusbaði á Íslandi en fengu þetta í staðinn – Sjáðu myndbandið
Fókus
Fyrir 4 dögum

Joe Rogan segir að Kamala Harris hafi neitað að ræða þetta við hann í viðtali

Joe Rogan segir að Kamala Harris hafi neitað að ræða þetta við hann í viðtali
Fókus
Fyrir 4 dögum

Hugh Jackman í hringiðu framhjáhaldsskandals – Vinkona fyrrverandi leysir frá skjóðunni

Hugh Jackman í hringiðu framhjáhaldsskandals – Vinkona fyrrverandi leysir frá skjóðunni
Fókus
Fyrir 5 dögum

Oliver þoldi ekki brjóst sín og fór í brjóstnám – „Ef þetta er það sem lætur þér líða betur, þá gerirðu þetta“

Oliver þoldi ekki brjóst sín og fór í brjóstnám – „Ef þetta er það sem lætur þér líða betur, þá gerirðu þetta“