Nú er hægt að kaupa gamla samkomuhúsið, Gömlu Borg í Grímsnesi, fyrir aðeins 29,9 milljónir. Erfiðlega hefur gengið að selja fasteignina, en hún hefur ítrekað verið auglýst til sölu á síðustu þremur árum, eða allt frá árinu 2017.
Húsið var teiknað af Þorleifi Eyjólfssyni og byggt árið 1929 af Ungmennafélaginu Hvöt. Hreppurinn tók svo fljótlega við húsinu og hefur í gegnum tíðina hýst ýmis konar starfsemi. Upphaflega var það byggt sem þinghús en hefur hýst fjölbreytta starfsemi í gegnum tíðina. Til dæmis hefur þarna verið skólahald, samkomur, leiksýningar, dansleikir og veitingasala.
Í fasteignaauglýsingu eignarinnar segir:
„Gamla Borg þinghús er svipmikið hús sem stendur á Borg í Grímsnesi við einn af fjölförnustu vegum ferðamanna á Suðurlandi, Biskupstungnabraut á Gullna hringum. Húsið er steinsteypt og var tekið gríðarlega mikið í gegn og það endurnýjað árið 1996 en þá var það orðið mjög illa farið.“ Í auglýsingu er tekið fram að húsið hafi verið mikið endurnýjað á síðustu áratugum, sé vel við haldið bjóði upp á marga notkunarmöguleika. Húsið er skilgreint sem veitingahús.
Ekki er verðmiðinn á eigninni hár, 29,9 milljónir króna sem varla duga fyrir kjallarakytru í miðborg Reykjavíkur. Hér gæti því verið um einstakt tækifæri fyrir ævintýragjarna til að koma sér fyrir á gullna hringum.