fbpx
Laugardagur 23.nóvember 2024
Fókus

Eiríkur Jónsson um það klikkaðasta sem hann hefur gert á ferlinum

Tobba Marinósdóttir
Föstudaginn 8. maí 2020 10:45

Eiríkur Jónsson fyrir helgarblað DV

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Eiríkur Jónsson fjölmiðlamaður er einn sá umdeildasti í bransanum. Hann á sér enga hliðstæðu. Tobba Marinósdóttir, ritstjóri DV, ræddi við fyrrverandi yfirmann sinn um umdeildan feril hans, eftirsjá, barnalán og ástina. Hér má sjá forsíðuviðtalið í heild sinnis sem birtist 22. apríl 2020.

Innskot frá blaðamanni: Fyrsta starf mitt sem blaðamaður fékk ég árið 2009. Ég var ráðin sumarstarfsmaður á hinn geðþekka miðil Séð og heyrt en á þeim tíma stundaði ég nám í fjölmiðlafræði í Bretlandi. Eiríkur var þá annar aðstoðarritstjóri blaðsins en Mikael Torfason ritstjóri. Það fyrsta sem Eiríkur sagði við mig var: „Ég þoli ekki fjölmiðlafræðinga.“ Eiríkur er nefnilega þannig. Segir það sem hann hugsar. Eir, eins og hann er kallaður, þekkir flesta, heilsar öllum og kann ótrúlegar sögur. Þegar ég spurði hann hvort hann vildi ekki koma í forsíðuviðtal hjá DV svaraði hann: „Oftar en einu sinni reyndi ég að fá Jónas Kristjánsson, læriföður minn, í viðtal, bæði í sjónvarp og útvarp, eftir að hann útskrifaði mig af DV. Svarið var alltaf eins: „Ég er með eigin fjölmiðil og liggi mér eitthvað á hjarta segi ég það þar.““ „Þú færð að lesa yfir viðtalið og við gerum þetta vel,“ sagði ég. „Ég les aldrei yfir viðtöl. Ef það er lélegt heilsa ég fólki ekki aftur.“ Þegar hann loks gaf sig sagðist hann ekki þola segulbandsviðtöl og samþykkti viðtalsbeiðnina með hinum ýmsu skilmálum. Svo sem að það yrði að sjást í mig á forsíðumyndinni og viðtalið væri sett upp sem samtal okkar. Ég svaraði að þetta mætti alveg vera dálítið „klikkað“. „Ókei, höfum þetta klikkað.“

Eiríkur Jónsson er læknissonur sem átti heima fyrstu árin í Danmörku þar sem hann fæddist og flutti svo til Svíþjóðar þar sem pabbi hans stundaði nám. „Fyrsta æskuminningin mín er þegar við vorum í Gullfossi á leiðinni heim frá Svíþjóð og það kom brotsjór á skipið sem skellti því á hliðina og braut rúður. Svo réttir skipið sig af. Við vorum í óskaplega fínni káetu. Þetta var eins og hótelherbergi með baðkari og öllu. Ég hendist þarna út í horn en mér fannst svo skrítið að mamma sat ennþá í baðkarinu en það var ekkert vatn eftir í því. Það var allt á gólfinu. Þetta er það fyrsta sem ég man í lífinu. Svo byrjaði lífið,“ segir Eiríkur og hlær að minningunni. Aðspurður hvernig fátækir námsmenn með tvö börn höfðu efni á slíkri ferð segir hann pabba sinn hafa verið af aðalsættum að austan, „það voru til einhverjir peningar einhvers staðar“.

Talaði ekki í marga mánuði Eiríkur á eina eldri systur og þrjár yngri. Hann var mikill mömmustrákur og varð svolítið utanveltu eftir að fjölskyldan flutti aftur til Íslands þegar hann var fimm ára. „Ég var feiminn og sat helst alltaf í fanginu á mömmu, alveg þar til ég varð átta ára. Ég vildi ekki fara í skóla. Ég vildi bara vera hjá mömmu. Ég talaði hálfbjagað eftir að hafa búið í Svíþjóð og ákvað því að segja sem minnst. Mér leið ekki vel í skólanum en gekk vel að læra. Ég talaði einkennilega, skildi íslensku en talaði sænsku svo að ég þagnaði bara, er mér sagt. Ég sagði lítið sem ekkert í skólanum í marga mánuði en þegar ég svo loks byrjaði að tala, talaði ég óaðfinnanlega íslensku og hef haft íslenskuna að starfi síðan. En ég tala ekki stakt orð í sænsku.“ Þegar fjölskyldan flutti heim var fyrsta heimili hennar á Rauðalæk. Síðan fluttu þau í Hvassaleiti þar sem Eiríkur tók átta ára gamall strætó klukkan sjö á morgnana í skólann. „Það var alltaf kolniðamyrkur. Ég sæi fólk í dag senda átta ára gamalt barn í strætó í myrkri. Ég fór svo ekki alltaf í skólann heldur í sjoppuna með pening sem ég stal frá mömmu. Þar keypti ég pepsí, lakkrísrör og kókosbollu. Rörið notaði ég til að drekka pepsí og svo freyddi þetta allt þegar maður át kókos bolluna með.“ Eiríkur viðurkennir að hafa verið óstýrilátur og mamma hans eftirlátssöm við hann. „Pabbi reyndi að skamma mig en það gekk ekki vel. Eitt það síðasta sem hann, gamall maðurinn, sagði við systur mínar áður en hann dó, þegar þær voru að skammast út í að ég ætti að gera eitthvað, var:
„Stelpur mínar, ég er búinn að læra það fyrir löngu að það segir enginn Eiríki fyrir verkum. Ekki reyna það.“

Eiríkur Jónsson er fjölmiðlamaður án hliðstæðu.

Þú verður læknir

Eiríkur þrælaði sér í gegnum skólann og varð þægilegri í umgengni. Var sendur í sveit á Reyðarfjörð þar sem afi hans var kaupfélagsstjóri. „Ég var í uppáhaldi hjá ömmu og afa og var þar á sumrin og vildi helst ekki fara heim. Ég var bara að spila við ömmu í stássstofunni og var kallaður litli prins. Ég fór nú stundum á traktorinn með Einari Þorvarðarsyni frænda en ég var ekki mikið að vinna. Það er nú líka dáldil kúnst. Að vinna lítið. Einar frændi var nörd og kenndi mér allt um hnefaleika, myndlist og bókmenntir. Það var góður skóli. En hvað, á þetta að vera ævisaga?“ spyr Eiríkur. Ég bendi honum á að ég sé að stytta mér leið og vilji eiga þetta skrifað niður þegar hann deyr því þá verði ég fljótari með minningargreinina. „Ókei,“ svarar hann, og áfram höldum við. „Ég tók aðeins lengri tíma í að klára skólann og verða stúdent. Ég var dáldið að eltast við stelpur. Ég var ekki feiminn lengur þá. Ég var farinn að rífa kjaft,“ segir Eiríkur og viðurkennir að væntingarnar til hans varðandi nám hafi verið á einn veg. Hann yrði læknir. „Það voru bara sjö sérfræðingar í bænum. Það þótti voða fínt. Pabbi var gigtar- og lyflæknir. Í öllum fjölskylduboðum var ég spurður: Jæja, Eiríkur litli, ætlar þú ekki að verða læknir eins og pabbi þinn? Svo kom næsti gestur og næsti og allir spurðu að því sama. Svo komu jólin og þá var komin út bók sem hét Litli læknissonurinn. Ég fékk ekki aðrar jólagjafir frá ættingjum það árið. Átta stykki af sömu bókinni. Það var alveg búið að ákveða að ég yrði læknir en no way! Ekki eftir þetta. Ég var lagður í einelti og það var ekki talað um annað og allir búnir að ákveða að ég yrði læknir. Ég hefði örugglega orðið fínn læknir en þá kom upp mótþróinn. Þetta fór í taugarnar á mér sem lítið barn.“

Lét sig síga ofan í pottinn

„Nítján ára flutti ég að heiman og fékk afa til að lána mér íbúð sem hann átti niðri í bæ og bjó þar með konu sem átti barn. Alltaf í uppreisn. Mamma og pabbi voru ekki sátt en vildu ekki æsa sig við afa sem hafði lánað mér íbúðina. Þetta var þægilegt. Lág leiga. Afi vildi að ég borgaði 5000 kall á mánuði og ég vann sem aðstoðarhúsvörður í Norræna húsinu. Ég skipti um perur, sýndi bíó og flaggaði. Það var erfiðast þegar það þurfti að flagga í hálfa stöng um páska því þá þurfti að ná öllum flöggunum í beina línu.“ Þegar sambandið lognaðist út af og flöggin urðu skökk lét Eiríkur tilleiðast og skráði sig í Háskólann. Eiríkur er frægur fyrir að fara eigin leiðir svo læknisnám kom aldrei til greina. Hann skráði sig í heimspekinám og vermdi þar bekkinn með ýmsum litskrúðugum persónum eins og til dæmis Hannesi Hólmsteini. Heimspeki hefur gjarnan verið kölluð fagið sem fólk lærir ef það veit ekki hvað það vill læra. „Já. Þess vegna fór ég í heimspeki. Það voru þarna sex eða sjö strákar með mér í námi sem í dag eru allir prófessorar. Svo voru þarna einhverjar konur. Það var mikil bylting hjá þeim. Konur voru að skilja við mennina sína og skrá sig í nám. Uppreisn í eldhúsunum. Ekki fyrir löngu fór ég í sund og sá þar gamla konu með göngugrind klöngrast ofan í pottinn. Hún heilsar mér en ég kannast ekkert við hana. Þá kom í ljós að þetta var gömul kærasta úr heimspekinni. Hvað, ertu eitthvað lasin? spyr ég. Nei, ég er bara svo gömul, svaraði hún. Ég mundi að hún hafði verið eitthvað eldri en ég, en ekki svona gömul. Ég bara lét hausinn á mér sökkva dálítið ofan í pottinn.“

Þetta var „show“

Þegar námi lauk og ekki var meiri heimspeki að fá í Reykjavík flutti Eiríkur til Frakklands. „Þetta var landflótti. Ég gat aldrei lært frönsku, svo það var dæmt, en mig langaði að komast frá Reykjavík. Búa í stórborg og sjá alvöru líf. Upplifa franska rómantík. Þetta gekk ekki nógu vel svo ég kom heim og bankaði upp á hjá gamalli kærustu á Baldursgötu með litlu ferðatöskuna mína. Ég var heppinn að hún var heima. Ég gat ekki sagt foreldrum mínum að þetta hefði ekki gengið. Ég skammaðist mín fyrir að þetta gekk ekki upp í Frakklandi. Ég var búinn að vera mánuð í DV og fólk keypti blöð. Eigendurnir urðu ríkir og smáauglýsingar mokseldust.“ Þegar einokun ríkisútvarpsins var rofin með lögum og frjálst útvarp leyft réð Eiríkur sig sem fréttastjóra á Stjörnunni sem var stofnuð um svipað leyti og Bylgjan. Þar hafði hann stjörnu- og furðufréttir í hávegi. Sá kafli varði í rúm tvö ár en þá missti Eiríkur vinnuna og skrifaði tvær bækur á milli starfa. Ævisögu Davíðs Oddssonar og aðra um rússneska vinnukonu sem lenti í Fljótshlíð og lýsti þeirri vist sem verri en fangabúðunum í Rússlandi. Var þetta góð bók? „Farðu á bókasafn. Já, þetta var góð bók. Hún seldist vel. Fólkið í Fljótshlíð reyndi að fá lögbann á bókina á Þorláksmessu og hún seldist og seldist.“ En Davíð. Var hann til í ævisöguna? „Já, en svo ekki. Það er lengri saga svo þú verður að lesa hana annars staðar en það er allt í fínu á milli okkar núna. Þegar hann hætti við var ég búinn að eyða fyrirframgreiðslunni og sagði bara no way. Ég verð að skrifa þessa bók.“ Eftir bókaskrifin bauðst Eiríki vinna á Bylgjunni í morgunútvarpinu og í kjölfarið fékk hann þá hugmynd að þátturinn hans ætti best heima í sjónvarpi. „Ég var að taka viðtal við Davíð Oddsson og hann horfði alltaf út í loftið. Svo ég sagði við hann: Davíð, segðu mér nú eitt í einlægni og horfðu í augun á mér, og þá áttaði ég mig á því að ég var með myndavélamóment í útvarpi.“ Þátturinn Eiríkur var því settur í loftið. Rétt rúmlega 10 mínútna langur, alla virka daga í fimm ár. Þúsund þættir. Á þessum tíma var Eiríkur giftur og búinn að eignast tvö börn í viðbót, Lovísu og Baldur, með þáverandi konu sinni. Öll börn Eiríks hafa starfað um tíma sem blaðamenn við góðan orðstír. „Ég er mjög stoltur af börnunum mínum. Hanna lærði blaðamennsku í Bandaríkjunum og síðar mannréttindi í Englandi. Lovísa er í doktorsnámi í Svíþjóð og Baldur er í doktorsnámi í kínverskri heimspeki í Sjanghæ.“ Aðspurður hvort hann hafi verið góður pabbi svarar hann: „Já, á minn hátt. Ég hafði þau mikið með mér og þau voru hænd að mér. Hanna var alltaf með mér í Kaupmannahöfn. Við þvældumst saman á kaffihúsum og átum ís.“

„Ég hefði ekki átt að gera það“

Lífið var þó alls ekki alltaf dans á rósum og Eiríkur fékk sína skelli þó að hann hefði ekki hátt um þá. „Einn daginn missti ég vinnuna, við eiginkonan skildum og ég var tekinn fyrir ölvun við akstur. Allt sama daginn. Það var of mikið.“ Eftir skilnaðinn fór Eiríkur að vinna á DV og loks Séð og heyrt sem þegar á leið gerði hann enn umdeildari. Hann segir þó að DV hafi bakað sér meiri umtal með hörkulegri málum en Séð og heyrt sem hann kallar Gotteríssjoppu. Af hverju ertu svona umdeildur? Það er hreinlega til fólk sem er illa við þig? „Ég veit það ekki. Það er fólk sem þekkir mig ekki. Ég triggera eitthvað hjá fólki. Með einhverjum stíl eða eitthvað. Ég hef aldrei gert fólki mein. Þetta er fólk sem talar um aðra sem það þekkir ekki.“ Eiríkur, það er ekki rétt. Þú hefur gengið of nærri fólki. Þú veist það. „Í fréttaskrifum? Já, ef fólk hefur brotið bókhaldslög og missir húsið sitt, þá er það frétt. Þú átt ekkert að gera það. Fréttir eru yfirleitt um það sem úrskeiðis fer. No news are good news. Annars væri ekkert að gerast. En jú, auðvitað ég er búinn að vera svo lengi að þessu að auðvitað hef ég stigið á einhverjar tær hér og þar. Það er bara eins og í lífinu.“ Er eitthvað sem þú sérð eftir? Sem var of mikið í skrifum þínum? „Já, það er bara eins og í lífinu. Ég hefði ekki átt að setja Hilmi Snæ á forsíðu Séð og heyrt og skrifa „barnar konu í hesthúsinu“. Ég hefði ekki átt að gera það. Það bara borgaði sig ekki, ég þurfti ekki að gera það. Þetta var kunningi minn, skilurðu, og ég hefði bara átt að gera eitthvað annað. Sleppa þessu. Ég bara sá þetta í því ljósi að hann var helsti kvennaljómi landsins í um áratug. Þetta hefði ekki verið þessi frétt ef þetta hefði verið Bessi Bjarnason eða Randver. Þetta var Hilmir Snær. En við erum búnir að gera þetta upp og ég bað hann afsökunar. Þetta var kannski bara gott fyrir hann. Hann er ennþá með konunni sinni. Kannski hristi þetta þau saman.“
Aðspurður hvað sé það klikkaðasta sem hann hafi gert til að ná í frétt þarf hann að hugsa sig vel um. Það er af nægu að taka. „Ætli það klikkaðasta sem ég hef gert sé ekki þegar við Gunnar Andrésson ljósmyndari vorum sendir til Eyja til að ná allri sögunni hjá Guðlaugi sundkappa sem synti í land þegar báturinn sem hann var á fórst. Við vorum þarna í viku en náðum aldrei til hans. Hann var alltaf á spítala og það endaði svo að ég skreið inn um glugga á spítalanum, fann slopp og ætlaði að þykjast vera á stofugangi. Bar mig helvíti vel með hlustunarpípu og allt en svo var ég spurður fyrir utan dyrnar hver ég væri. Þá sagði ég bara sorrí og lét mig hverfa.“

Tók 50 ár að finna ástina

Eiríkur segist ekki geta snúið aftur á vinnustað með fullt af fólki eftir að hann fór að vinna sjálfur heima við skrif á eirikurjonson.is. „Það er ofboðslegur léttir að þurfa ekki að vakna á morgnana og fara á einhvern vinnustað og eyða þar öllum deginum, dag eftir dag, ár eftir ár með einhverju fólki sem maður velur sér ekki sjálfur. Hverslags vitleysa er það? Ég þurfti að gera þetta þegar ég var með lítil börn og var að kaupa íbúð en ég þarf þess ekki lengur. Það hvarflar ekki að mér. Vera alltaf í einhverju partýi sem þig langar ekkert í. Sem þér líður óþægilega í. Sumir vilja þetta öryggi, vera alltaf með sama fólkinu. Alltaf að hanga með sama fólkinu. Fara og hanga með fólki í sumarbústað eins og geðsjúklingar.“ Myndir þú ekki fara með vinahjónum þínum í bústað og borða steik? „Nei, helst ekki. Ég fer oft með konunni minni í sumarbústað. Hún er besti vinur minn. Það tók mig 50 ár að finna ástina. Þetta er alveg satt. Hún skilur mig og ég hana og við leyfum hvort öðru að vera eins og við erum. Hún hefur gefið börnunum mínum mikla ást og fjölskyldan mín stækkaði með hennar börnum.“ En Eiríkur, þú ert erfiður. Er hún aldrei þreytt á þér? „Jú, það getur vel verið, en ég get nú verið frískur og skemmtilegur inn á milli. Hún er sérstök manneskja. Þetta kemur ekki í fyrstu atrennu. Það er ekki hægt að stytta sér leið að ástinni.“ Þegar Eiríkur kynntist eiginkonu sinni sem hann hefur verið með síðustu 15 ár varaði fólk Petrínu, eða Petu eins og hún er kölluð, ítrekað við honum. Ekki aðeins hana heldur foreldra hennar líka. „Þau voru stoppuð í Hagkaup og fólk kallaði „warning, warning“. Vinkonur Petu reyndu að vara hana við. En hún lét sér ekki segjast. Sem betur fer,“ segir Eiríkur sem á sér svo sannarlega enga hliðstæðu, 67 ára gamall og ástfanginn upp fyrir haus

 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fókus
Í gær

Sharon Osbourne dauðsér eftir Ozempic – „Þetta sýnir bara hætturnar við þessi lyf sem lofa árangri strax“

Sharon Osbourne dauðsér eftir Ozempic – „Þetta sýnir bara hætturnar við þessi lyf sem lofa árangri strax“
Fókus
Í gær

Simmi Vill segir að þetta sé stærsta kjarabótin fyrir íslenskar fjölskyldur – „Nú verð ég kallaður karlrembupungur“

Simmi Vill segir að þetta sé stærsta kjarabótin fyrir íslenskar fjölskyldur – „Nú verð ég kallaður karlrembupungur“
Fókus
Fyrir 3 dögum

Segja atvikið í bardaganum sýna að úrslitin hafi verið fyrir fram ákveðin

Segja atvikið í bardaganum sýna að úrslitin hafi verið fyrir fram ákveðin
Fókus
Fyrir 3 dögum

Dómnefnd FKA skipuð fyrir árlega viðurkenningarhátíð 

Dómnefnd FKA skipuð fyrir árlega viðurkenningarhátíð 
Fókus
Fyrir 3 dögum

Kynlífsóðu klámstjörnunni sparkað úr landi

Kynlífsóðu klámstjörnunni sparkað úr landi
Fókus
Fyrir 4 dögum

„Konur sem sætta sig við framkomu sem þær eiga ekki skilið eru kannski í samböndum sem þeim líður ekki vel í“

„Konur sem sætta sig við framkomu sem þær eiga ekki skilið eru kannski í samböndum sem þeim líður ekki vel í“