fbpx
Miðvikudagur 01.janúar 2025
Fókus

Myndin af Garðari barnungum – Drengur þjakaður af heimilisofbeldi

Ágúst Borgþór Sverrisson
Miðvikudaginn 29. apríl 2020 19:50

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Þegar Garðar Baldvinsson rithöfundur var 8-9 ára gamall drengur, þjakaður af ofbeldi og streitunni sem fylgdi því, fannst honum sárast að geta ekki farið að vinna fyrir fjölskyldunni og þannig tekið fulla og óskoraða ábyrgð á henni. Þungi ábyrgðar sem ekkert barn á að bera hvíldi á honum, því hann reyndi af veikum ætti að vernda yngri systkini sín fyrir ofbeldi og halda fjölskyldunni saman.

Garðar birtir ljósmynd af sér frá árinu 1969, mynd sem við lestur pistil hans vekur í hugskoti lesandans tilhugsun um barn sem er þjakað af streitu, angist og depurð.

Heimilisofbeldi hefur verið nokkuð í umræðunni undanfarið þar sem aukin einangrun á heimilum í kórónuveirufaraldrinum er talin auka hættuna á því. Fjallað var um ýmsar birtingarmyndir heimilisofbeldis í fréttaskýringaþættinum Kveik í gærkvöld og meðal annars greindi lögregluþjónn frá því að þetta ofbeldi væri miklu margbrotnara en almennningur gerði sér grein fyrir. Til dæmis væru mörg útköll vegna ofbeldis barna gegn foreldrum sínum.

Ofbeldi móður hefur litað allt líf Garðars Baldvinssonar eins og hann fer yfir í pistli sínum. Hann skrifar meðal annars:

Ég tók einu sinni saman fjölda árása móður minnar á mig (auðvitað áætlun) og fann út að hún barði mig líklega 2.000 sinnum um ævina, svívirti með niðurlægingum og rifrildum við mig eitthvað um 60.000 sinnum í bernsku (og áfram þar til hún dó). Auk þess réðst hún ca 500 sinnum á pabba með handalögmálum og hnífsegg og svívirti hann með ásökunum, rifrildum og slíku kannski 10.000 sinnum í bernsku minni. Í viðbót við þetta lokaði hún mig og bræður mína ofan í kjallara og slökkti ljósið eftir að hafa sprautað á okkur ísköldu vatni kannski 500 sinnum á tilteknu árabili.

Hinni óheilbrigðu ábyrgðarkennd barnsins sem drepið var á hér að framan lýsir hann með þessum hætti:

Ofbeldið einangrar mann frá upphafi. Maður þorir ekki að tala um það við neinn. Bæði af hreinni og ótrúlegri skömminni, en líka vegna þess að ofbeldismanneskjan hótar manni meira ofbeldi ef maður segir eitt einasta orð um ástandið. Þannig stendur maður gersamlega aleinn sem bara pínulítið barn sem veit varla hvað er að gerast og enn síður hvað á að kalla hlutina. En ég allavega upplifði þetta einhvern veginn þannig að ég væri jafningi hennar og þeirra og gæti því tekist á við þetta einn og sjálfur í huga mínum. Og tók á vissan hátt ábyrgð á ofbeldinu strax frá fimm eða sex ára aldri, bæði að það stafaði af einhverju sem ég hefði gert, en líka með því að reyna að verja og vernda yngri systkini mín um leið og ég reyndi að passa upp á það, frá fimm ára aldri, að þau dræpu ekki hvort annað á fylleríunum né heldur í slagsmálunum þegar þau voru edrú. Oft fannst mér sárast að geta ekki farið að vinna fyrir fjölskyldunni átta níu ára gamall og þannig tekið fulla og óskoraða ábyrgð á henni.

Þessi ábyrgðarkennd með öllum hinum erfiðu tilfinningunum sem barnið hefur engin orð yfir eða skilning á, laumar sér inn í allar hugsanir og tilfinningar barnsins. Það er erfitt jafnvel fyrir mig núna 65 ára gamlan að finna hvernig þetta sligaði þennan átta níu ára gamla dreng, hvað þá fyrir fólk sem aldrei hefur upplifað svona langvarandi stríðsástand á heimilinu.

Fram kemur í skrifum Garðars að vonlítið sé að hjálpa ofbeldisfólki sem ekki vill þiggja neina hjálp:

Í Kveiksþættinum var farið vandlega yfir hvaða úrræði stæðu ofbeldisfólkinu til boða. Og að í úrræðin leituðu aðeins þeir sem vildu aðstoð – að sjálfsögðu leita hinir ekki þangað. Mamma neitaði alla ævi að það væri eitthvað að hjá sér og leitaði aldrei ráða því henni fannst hegðun sín eðlileg af því pabbi og við værum svo erfið, það var allt okkur að kenna. Aldrei henni. Þetta er næstum skólabókarlýsing á geðveiki, á því að hún gekk ekki heil til skógar.

Það kom einmitt fram í þættinum hjá Kveik að ósköp venjulegt fólk gæti farið að beita ofbeldi við erfiðar aðstæður, eins og núna í heimsfaraldri. Nefndar voru ástæður eins og álag, óvissa, kvíði og fjárhagsáhyggjur. Allt þetta jókst gríðarlega árið sem ofbeldið hófst, þegar ég var fimm ára.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fókus
Fyrir 2 dögum

Þriggja hæða einbýlishús með einstökum bakgarði á 298 milljónir

Þriggja hæða einbýlishús með einstökum bakgarði á 298 milljónir
Fókus
Fyrir 2 dögum

Vikan á Instagram – Hefur blokkað yfir 850 manns á miðlinum

Vikan á Instagram – Hefur blokkað yfir 850 manns á miðlinum
Fókus
Fyrir 3 dögum

Ellý spáir fyrir Guðna og Elizu: „Það er allt í lagi að fara í sitthvora áttina og allir eru vinir“

Ellý spáir fyrir Guðna og Elizu: „Það er allt í lagi að fara í sitthvora áttina og allir eru vinir“
Fókus
Fyrir 3 dögum

Ellý svarar spurningunni sem brennur á fólki og segir að þetta verði næsti landsliðsþjálfari – „Hann er maðurinn“

Ellý svarar spurningunni sem brennur á fólki og segir að þetta verði næsti landsliðsþjálfari – „Hann er maðurinn“
Fókus
Fyrir 5 dögum

Ungur og upprennandi leikari lést í hörmulegu slysi

Ungur og upprennandi leikari lést í hörmulegu slysi