fbpx
Miðvikudagur 22.janúar 2025
Fókus

Sigur í Eurovision gæti bjargað efnahag Íslands – Rándýrt að halda keppnina en mörg störf skapast

Lilja Katrín Gunnarsdóttir
Sunnudaginn 15. mars 2020 21:00

Endurkoma nördanna Lagið Think About Things hefur tröllriðið Evrópu.

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Framlagi Íslands í Eurovision er spáð afar góðu gengi í keppninni og í sumum veðbönkum er lagi Daða Freys og Gagnamagnsins, Think About Things, spáð sigri. Ef björtustu spár rætast verður það í fyrsta sinn sem Ísland vinnur Eurovision síðan að ICY-gengið þreytti frumraun okkar í keppninni árið 1986 með Gleðibankann margfræga. Ef Ísland vinnur býðst Ríkissjónvarpinu að halda keppnina að ári. Yfirleitt þiggur sigurþjóðin það boð, með örfáum undantekningum. Vorboðinn ljúfi er klárlega sú trú Íslendinga að við vinnum Eurovision en núna er virkilegur möguleiki á því, í fyrsta sinn í rúman áratug.

Eurovision-hagkerfið

Með sigri í Eurovision fylgir ekki aðeins ólýsanleg sæluvíma og geðshræring heldur fylgir Eurovision-hagkerfið með í kaupbæti. Þetta hagkerfi ferðast frá sigurlandi til sigurlands og svíður mörgum sá mikli kostnaður sem fylgir keppninni. Hins vegar hefur þetta hagkerfi marga góða kosti í för með sér.

Íslendingar hafa mátt þola miklar sveiflur í ferðabransanum undanfarið og koma margar breytur inn í þá jöfnu. Oftroðningur landsvæðis, fall WOW Air, kórónaveiran, hátt verðlag og þannig mætti lengi telja. Samdráttur í ferðaþjónustu hefur gerst hratt, nánast augnabliki eftir að hér var metfjöldi ferðamanna ár eftir ár. Eurovision hefur einmitt reynst frábært tækifæri fyrir þjóðir til að markaðssetja lönd sín sem ferðamannastaði, enda horfa mörg hundruð milljónir manns á keppnina ár hvert. Eitt besta dæmi um það er Bakú í Aserbaídsjan þar sem Eurovision-keppnin var haldin árið 2012. Sextíu milljónum evra var eytt í Eurovision þar í landi, en þessi mikli kostnaður skýrist af því að heil höll, Kristalshöllin, var byggð sérstaklega fyrir keppnina. Þessi höll varð uppspretta hneykslismáls þegar upp komst að fjöldi fjölskyldna hefði verið rekinn af svæðinu á ólöglegan hátt svo höllin gæti risið. Þegar kom að Eurovision var það hins vegar gleymt og grafið og þúsundir gesta flykktust til Bakú með þeim afleiðingum að um fimm hundruð störf sköpuðust með byggingu hallarinnar.

Svíar virðast hafa náð að halda mestu jafnvægi á milli útlagðs kostnaðar í Eurovision síðustu ár og þess sem kemur aftur inn í ríkiskassann. Í Malmö árið 2013 eyddu Svíar fimmtán milljónum evra í keppnina en fengu um fjórtán aftur í gegnum ferðamenn, en alls sóttu um 32 þúsund ferðamenn borgina heim meðan á Eurovision stóð.

Innan seilingar Tekst þetta loksins í ár?

Atvinnuskapandi

Ljóst er að fjölmörg störf skapast í kringum Eurovision, en undirbúningur fyrir næstu keppni hefst í raun um leið og þeirri fyrri líkur. Ef litið er á keppnir síðustu ára hafa skapast um 150–500 störf við keppnina sjálfa ár hvert. Þá eru ekki talin með öll afleidd störf sem skapast vegna aukins fjölda ferðamanna og öflugari markaðssetningu á landi og þjóð. Síðustu ár hefur fjöldi ferðamana sem hefur lagt leið sína í Eurovision-gleðina verið á bilinu þrjátíu til fjörutíu þúsund. Þannig að það þarf ekki að efast um jákvæð skammtímaáhrif þess að halda keppnina. Hins vegar hefur reynst erfiðara að meta langtímaáhrif þess.

Líklegt er að keppnin yrði haldin í Kórnum í Kópavogi, sem er brunahannaður fyrir nítján þúsund manns, ef við Íslendingar fáum loks bænum okkar svarað á stóra sviðinu í Rotterdam um miðjan maí. Í ljósi þeirra fjölmörgu jákvæðu kosta sem Eurovision-hagkerfið hefur í för með sér myndi það vera kærkomin gjöf í skugga verkfalla, atvinnuleysis og samdráttar.

Eurovision 2019 í tölum

250 vörubílar af búnaði
232 hljóðnemar
225 starfsmenn í hátíðarhöllinni
150 hátalarar
48 eldingar á sviði
23 myndavélar
21 dagur í uppsetningu á sviði
11 kílómetrar af köplum
8 konfettisprengjur
3 dagar til að taka svið niður
2 vindvélar

Kostnaður við Eurovision síðustu ár

2020 – Rotterdam: Áætlaður kostnaður 26,5 m. evra – 3.850.000.000 kr.
2019 – Tel Aviv: 29 m. evra – 4.200.000.000 kr.
2018 – Lissabon: 23 m. evra – 3.340.000.000 kr.
2017 – Kænugarður: 30 m. evra – 4.360.000.000 kr.
2016 – Stokkhólmur: 14 m. evra – 2.000.000.000 kr.
2015 – Vín: 35 m. evra – 5.090.000.000 kr.
2014 – Kaupmannahöfn: 45 m. evra – 6.500.000.000 kr.
2013 – Malmö: 15 m. evra – 2.180.000.000 kr.
2012 – Bakú: 60 m. evra – 8.700.000.000 kr.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fókus
Fyrir 2 dögum

Einkaspæjari afhjúpar nýja leið hvernig makar fela framhjáhald – Forrit sem er í öllum iPhone símum og vekur engar grunsemdir

Einkaspæjari afhjúpar nýja leið hvernig makar fela framhjáhald – Forrit sem er í öllum iPhone símum og vekur engar grunsemdir
Fókus
Fyrir 2 dögum

Vill að RÚV geri samning við Vesturport

Vill að RÚV geri samning við Vesturport
Fókus
Fyrir 3 dögum

Sérstæð vinátta ræstingakonu og kolkrabba hefur heillað heimsbyggðina

Sérstæð vinátta ræstingakonu og kolkrabba hefur heillað heimsbyggðina
Fókus
Fyrir 3 dögum

Framkvæmdastjórinn í Paradís flytur sig um set

Framkvæmdastjórinn í Paradís flytur sig um set