Tríóið The Mamas kom, sá og sigraði í Melodifestivalen, sænsku Söngvakeppninni, um helgina með lagið Move. The Mamas eru Eurovision-aðdáendum kunnar þar sem þær sungu bakraddir í framlagi Svía í Eurovision í fyrra, Too Late For Love, sem John Lundvik söng og endaði í fimmta sæti.
Í morgunþætti á sænsku sjónvarpsstöðinni TV4 er farið yfir sigur The Mamas í Melodifestivalen, eða Melló eins og aðdáendur kalla keppnina. Malin Collins, blaðamaður fer yfir sigurinn en einnig möguleika The Mamas í Eurovision, sem fer fram í Rotterdam í Hollandi í maí. Í þættinum segir hún að The Mamas þurfi að takast á við tvær stórar hindranir ef þær vilja eiga möguleika á sigri.
Önnur hindrunin er sú að COVID-19 kórónaveiran gæti orðið til þess að Eurovision-keppnin verði ekki haldin í ár. Hin hindrunin er framlag Íslendinga, Daði Freyr og Gagnamagnið með Think About Things. Telur Malin að „sigurvegari Eurovision sé nú þegar fundinn.“
Þetta brot úr morgunþættinum átti að fara í að fjalla um sigur The Mamas í Melló á laugardagskvöldið, en það má segja að Daði Freyr hafi stolið senunni. Sem stendur er Daði Freyr og Gagnamagnið enn efst í veðbönkum og spáð sigri í Eurovision. Svíum er spáð áttunda sæti.
Hægt er að sjá brotið úr morgunþættinum hér fyrir neðan: