Rapparinn Vigdís Howser Harðardóttir, sem gengur undir listanafninu Fever Dream, tók upp nýtt tónlistarmyndband á dögunum. Það er ekki frásögu færandi að myndbandið var tekið upp á strippklúbbi í Berlín. Það komu ótal margir að myndbandinu, þar á meðal stripparar af staðnum sem Vigdís kallar femínista á öðru stigi en femínistar á Íslandi.
Vigdís er að vinna í nýrri tónlist. Hún ætlar að gefa út blandskífu (e. mixtape) með fjórum lögum í apríl. Vigdís tók upp myndbandið fyrir lagið „Don‘t Call Me Baby“ sem er þegar komið út. Myndbandið kemur út seinna í mánuðinum.
Síðustu mánuði hefur Vigdís verið í mikilli lægð í tónlistarbransanum. Hún hefur verið að einbeita sér að því að skrifa texta og semja tónlist. Í haust ætlar hún að flytja til Bandaríkjanna í von um að komast inn á tónlistarsenuna þar.
„Rappheimurinn hérna í Þýskalandi er rosalega karllægur, eiginlega bara gaurar í þessum bransa hérna. Og svo eru þeir eiginlega allir að rappa á þýsku. Ég er ekkert að „blowing up“ hérna úti en er með góðan hóp á bakvið mig og búin að vinna hart að mér til að fjármagna þetta,“ segir Vigdís.
„Ég held að þetta myndband eigi alveg eftir að fara langt. Það er geðveikt flott og geðveikt heitar gellur í því. Þetta er ekki bara hugsað sem eitthvað týpískt rapparamyndband fyrir gagnkynhneigða karlmenn að njóta. Það er dragdrottning í myndbandinu, ég er með hinsegin lið og ógeðslega mikið af fólki sem er að vinna kynlífsvinnu í teyminu,“ segir hún og bætir við að myndbandið eigi að vera valdeflandi.
Vigdís Howser sá um að leikstýra tónlistarmyndbandinu og samdi handritið. Oliver Zimmermann var aðstoðarleikstjóri. Jóhanna Rakel var stílistinn.
Myndbandið er tekið upp á Angels, róttækum strippklúbb, í Berlín.
„Þetta er fyrsti strippklúbburinn í Berlín sem stofnar verkalýðsfélag. Þær hafa einnig stofnað risa samtök, Berlin Feminist Collective. Svo eru þær líka bara mestu snillingar sem ég hef kynnst. Þetta eru femínistar sem eru á allt öðru stigi en femínistarnir sem við þekkjum á Íslandi. Þetta eru femínistar sem eru með allt önnur markmið í lífinu og allt annað viðhorf gagnvart konum og kyngervi. Það er mikið af transfólki sem vinnur í þessum bransa,“ segir Vigdís.
„Svo var ég eiginlega bara í smá sjokki hvað þær eru þolinmóðar, þetta er bara allt öðruvísi en þetta er á Íslandi og ég bjóst ekki við því. Maður heyrir alltaf bara um eina tegund af strippara. En þessi klúbbur er mjög sérstakur fyrir þetta, fyrir að vera öðruvísi en aðrir strippklúbbar,“ segir hún.
Vigdís þekkir marga dansara á klúbbnum og komst þannig í samband við eigandann, sem er kona, um að fá að taka upp myndbandið þar.
Vigdís segir að upptökudagurinn hafi farið mjög eðlilega fram. Hún dáist af konunum sem komu að myndbandinu og vinnusiðferði þeirra.
„Við höfðum aðeins 12 tíma til að taka upp myndbandið og bara klára þetta. Stelpurnar voru svo þolinmóðar á setti. Svo allt öðruvísi en á settum sem ég hef verið á,“ segir Vigdís en hún er fyrrverandi meðlimur Reykjavíkurdætra.
„Á þeim settum var mikil þolinmæði en þetta var allt annað. Vinna strippara er náttúrlega að miklu leyti að bíða eftir að fá kúnna. Þannig þær eru vanar.“
Vigdís samdi lagið eftir að hún fékk alveg nóg af því að vera sífellt kölluð „baby“, „honey“ og „darling“ af karlmönnum.
„Þaðan kom textinn: „Don‘t call me baby, just fill up my wallet,“ og frá því kom sú hugmynd að taka þetta upp á strippstað,“ segir hún.
„Í myndbandinu er ég líka að mála mynd af draumaheim, strippklúbbur þar sem eru engir kúnnar og allir eru ríkir,“ segir Vigdís og hlær.
Margir vina og kunningja Vigdísar starfa í kynlífsiðnaðinum. Þetta er ekki framandi fyrirbæri fyrir henni en hún segir að það hafi ekki verið með vilja gert að kynnast þessum heimi svona vel.
„Ég hef einhvern veginn óvart komið mér inn í þennan heim. Ég hef verið að vinna í kynlífspartýum með tarot-spilalestur þar sem fólk er bara að gera alls konar. Svo hef ég kynnst fólki í kringum það. Þetta er allt svo opið hérna í Berlín. Hér erum við frekar að hífa okkur upp sem dýr, en ekki sem mannfólk sem þarf að fylgja einhverjum ákveðnum reglum. Það er svona sem Berlín er,“ segir Vigdís en bætir við að hún sé frekar saklaus og stundum komi upp tilfelli þar sem hún fari hjá sér.
„Mér líður ekki óþægilega, bara vandræðalega. Ég get ekki alveg tekið öllu alvarlega, ég er svo mikið frá Hafnarfirði eitthvað.“
Vigdís er mikið inn í hinsegin senunni í Berlín sem hún segir vera mjög frábrugðin þeirri á Íslandi.
„Eins og á Gay Pride, hérna eru allir naktir að ganga um göturnar. Það er bara allt annað „vibe“ hérna,“ segir hún.