fbpx
Miðvikudagur 22.janúar 2025
Fókus

Elvar Gunnarsson er maður margra titla – „Ég áttaði mig á því að ég vildi ekki gera eitthvað sem mér var kennt að væri gott“

Tómas Valgeirsson
Sunnudaginn 1. mars 2020 13:42

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

„Það er eitthvað sem heillar mig svo mikið við regluleysi í listsköpun,“ segir Elvar Gunnarsson, leikstjóri, tökumaður, handritshöfundur, framleiðandi, tónlistarmaður, teiknari og faðir fjögurra dætra. Elvar hefur verið háður listsköpun frá unga aldri í hinum ýmsu formum. Snemma á lífsleiðinni lærði hann á píanó og byrjaði að rappa aðeins ellefu ára gamall, auk þess að vera einn höfuðpaura XXX Rottweilerhunda áður en hann sagði skilið við sveitina. Að eigin sögn hóf hann snemma að rappa og spila á hljóðfæri, en hann segir kvikmyndaáhugann hafa verið ríkjandi alla hans ævi og skilgreinir hann sig sem „fullgildan vídeólúða.“ Þetta skrifar hann á vídeóleiguráf, myndasögulestur, reglulegar heimsóknir í Nexus og ekki síst hressilegt, menningaruppeldi frá foreldrum sínum.

„Ég var einnig rosamikill vínylsafnari sem krakki og keypti mikinn vínyl þegar hann kostaði bara 50 kall. Ég átti mikið safn af því og ódýrum VHS-spólum og kveikjan að mínum nördaskap fólst svolítið í því að grafa, vita hvað er gott og hvað er ekki,“ segir Elvar. „Þegar ég hætti í Rottweiler þá fór ég meira að segja að vinna á Aðalvídeóleigunni, aðallega var það til að byrja með vegna þess mig vantaði pening en þar náði ég svolítið að rækta kvikmyndanördið í mér.“

Á tökustað
Elvar ásamt Gunnari Kristinssyni við tökur á Möru/It Hatched.

Tilraun í einni töku

Elvar útskrifaðist úr Kvikmyndaskóla Íslands árið 2005 og gerðist skömmu seinna kennari við skólann. Í gegnum árin hefur hann unnið að fjölda tónlistarmyndbanda og sinnt sínum eigin verkefnum á milli. Auk þess semur Elvar rapptónlist í frístundum sínum en hyggst ekki gefa hana út. Segir hann þetta vera meira líkt áhugamáli til að halda sköpunargleðinni gangandi. Hann segir þetta ekki vera ósvipað ferlinu þegar hann gerði sína fyrstu kvikmynd í fullri lengd, en í því ferli var öllu tjaldað til en afraksturinn mun trúlega aldrei líta dagsins ljós.

„Ég vil ekki gera það sem mér sagt að sé gott í hefðbundnum skilningi. Þetta er galin pæling,“ segir Elvar. „Í kvikmyndanámi er þér kennt hvað sé gott hvað sé það ekki. Ég hef sjálfur verið sekur um að detta í slíkan pakka þegar ég hef verið að kenna, en grunnreglan er að afskrifa ekki geira- eða flokkamyndir sem eitthvert rusl, heldur þarf að finna og grúska í því sem þær skila til manns persónulega og læra að meta snilldina í hinu óvenjulega. Strax eftir kvikmyndanámið gerði ég mynd í fullri lengd, í einni töku meira að segja. Það heppnaðist, þótt hún verði ekki séð af almenningi, en ég fékk góðan lærdóm út úr henni. Ég sá að þetta væri góð mynd innan þess ramma sem mér var kennt að væri góð mynd, en ég fattaði að hún væri einfaldlega bara leiðinleg, alveg fokkleiðinleg,“ segir Elvar. „Ég áttaði mig á því að ég vildi ekki gera eitthvað sem mér var kennt að væri gott.“

Reynsluboltar Halldór Gylfason og Halldóra Geirharðsdóttir bregða fyrir í hrollvekju Elvars.

Þau sem þora

Elvar undirstrikar mikilvægi svokallaðra flokkamynda í íslenskri kvikmyndasögu og segir þær hafa mótað hann gífurlega, bæði á uppeldisárunum og síðar um ævina. Hann segir það ekki vera tilviljun að margar íslenskar kvikmyndir séu oft keimlíkar þar sem nemendum er yfirleitt kennt á ákveðna ramma í frásögn og stíl sem eru sagðir virka. Þeir sem þorðu að gera flokkamyndir á þessum tíma í íslenskri kvikmyndagerð, þeir skammast sín fyrir þær oftar en ekki og það skil ég ekki, segir Elvar.

„Ég heillaðist mjög ungur af kvikmyndum sem fóru yfir strikið og gerðu hluti sem enginn þorði að gera; hvort sem það eru kvikmyndir eins og Blóðrautt sólarlag, Okkar á milli eða Morðsaga. Ég var meira að segja það mikill lúði að ég fór heim til Reynis Oddssonar, sem leikstýrði Morðsögu, og talaði við hann um myndina. Ég átti bara kvöldstund heima hjá honum og konunni hans og var svolítið mikið í þessu. Ég hafði gaman af því að yfirheyra fullt af liði sem mér þótti áhugavert. Ég var ekki bara aðdáandi þess efnis sem menn eins og Reynir gerðu, heldur líka að þeir þorðu að gera það.“

Elvar rifjar upp gullaldarskeið RÚV þegar ýmiss konar sjónvarpsmyndir réðu þar ríkjum og voru oft stórfurðulegar og truflandi, en hrollvekjur voru sérlega algengar á níunda áratug síðustu aldar. Elvar vísar í sjónvarpsmynd Egils Eðvarðssonar, Steinbarn, sem hafði gífurleg áhrif á hann.

„Sjónvarpsmyndir RÚV eru einhverjar skemmtilegustu myndir kvikmyndasögunnar á Íslandi, en það hafa svo fáir séð þær í dag því aðgengi að þeim er nánast farið. En Steinbarn er fyrsta kvikmyndin sem hræddi mig og í ýmsum verkum mínum hef ég verið að sækja í þau áhrif sem sú kvikmynd hafði á mig.“

Forn vættur og meðgöngumartröð

Elvar hefur síðastliðin ár unnið með hóp ungs kvikmyndagerðarfólks að því að klára hrollvekjuna It Hatched, sem gengur einnig undir heitinu Mara. Myndin er sögð vera óður til horfinna tíma í hrollvekjugeiranum og í ætt við hrollvekjur sem gerðar voru seint á áttunda áratugnum. Nefnir Elvar kvikmyndir eins og Rosemary’s Baby og The Shining sem gífurlegan innblástur.

Verkefnið hófst fyrir fimm árum og það hefur verið annasamt ferli að sigla afrakstrinum í höfn. Upphaflega stóð til að afhjúpa myndina árið 2017 en ýmsar tafir hafa sett strik í reikninginn. Til að bæta gráu ofan á svart gekk Elvar í gegnum erfiðan skilnað meðan á framleiðslunni stóð. Ekki bætti heldur úr skák að í miðju skilnaðarferli blasti maki hans við augum á hverjum degi í eftirvinnslu myndarinnar, en það er leikkonan Vivian Ólafsdóttir, sem fer með eitt af aðalhlutverkum hrollvekjunnar.

Elvar segir þó kvikmyndina vera á góðum stað og segist vera spenntur að geta sýnt áhorfendum afraksturinn. Myndin segir frá ungu pari sem flytur frá Bandaríkjunum til afskekkts staðar á Íslandi, þar sem til stendur hjá parinu að gera upp gamalt hús og opna gistiheimili.

Á bakvið vélina
Elvar leikstýrir barnsmóður sinni og fyrrum maka.

Við fyrstu sýn fagna þau kyrrðinni og horfa fram á við bjartsýnum augum, en dag einn finna þau djúpa holu á kjallaragólfinu og þar undir býr forn vættur sem aðeins hefur heyrst um í þjóðsögum. Konan gildnar skyndilega og virðist hafa orðið ólétt á svipstundu. Í kjölfarið verpir konan eggi eina nóttina og hægist ekki mikið á atburðarásinni eftir það. Auk Vivian fer Gunnar Kristinsson með annað aðalhlutverkið en einnig bregður fyrir þekktum leikurum á borð við Halldóru Geirharðsdóttur, Þór Túliníus, Björn Jörund og Halldór Gylfason.

„Það sem býr undir þessari kvikmynd er hræðsla við barneignir,“ segir Elvar. „Þegar hugmyndin var að fæðast ímyndaði ég mér að mér þætti myndin ekki nógu spennandi nema hún hefði þennan undirtón.

Ég fékk félaga minn til að skrifa hluta af handritinu með mér og hann upplifði það þegar hann eignaðist barn, að þá fæddist það í belgnum. Úr því að ég hef sjálfur verið viðstaddur fæðingu dætra minna rennur í gegnum huga minn hugsunin um hvað fæðingar séu skrýtnar og mannslíkaminn almennt.“

Elvar vísar þá í frumraun Davids Lynch, hina víðfrægu Eraserhead, sem fjallar í grunninn um hræðslu við kynlíf og spennu vegna barneigna. Elvar tekur undir það með blaðamanni að máttur góðra hryllingsmynda sé oft falinn í að endurspegla eða varpa ljósi á mannlegar tilfinningar, sem búa í hvaða skepnu eða afli sem persónur mæta. Segir kvikmyndagerðarmaðurinn að það hafi verið meðvitað að segja sögu um konu sem verður skyndilega ólétt og verður þá fjandinn laus vegna alls konar spennu og geti margir mjög auðveldlega tengt við það.

Drungalegt Plakat myndarinnar vakti gífurlega athygli á samfélagsmiðlum þegar það var afhjúpað á sínum tíma. Hönnuður er Ómar Hauksson.

 

Skilnaður, leiðsögn og búddismi

Vivian Ólafsdóttir.

Aðspurður um skilnaðinn segir Elvar að ferlið hafi tekið á, eins og eðlilegt sé, en þegar aðstæður voru sem erfiðastar hvíldi á honum sú bölvun að vera í nálægð við fyrrverandi spúsu sína hvert sem hann fór.

Hann segir þetta hafa verið ákaflega súrrealískt og að á leið hans til útlanda hafi hann rekið augun í fimm mismunandi auglýsingar þar sem Vivian skaut upp kollinum og segir Elvar það hafa verið eins og salt í sárið, á einmitt þeim tímapunkti þegar hugurinn var sem mest að reyna að horfa fram á við frá fyrra lífi. „Þetta var svo furðulegt allt og mér leið eins og eitthvert afl væri að fíflast í mér,“ segir Elvar.

Í kjölfar skilnaðarins ákvað Elvar að kúpla sig frá kvikmyndagerðinni tímabundið og sneri sér að leiðsögumannastarfi og hugleiðslu í anda búddisma. „Ég slysaðist í rauninni inn í búddismann og var fyrst, eins og eflaust fleiri, mjög efins með ferlið. Síðan um leið og ég fann þessa hugarró og var kominn í tengsl við tilfinningar og hugarfar sem var mér ókunnugt var kominn allt annar tónn í sjálfan mig,“ segir Elvar og varpar ljósi á það sem dró hann að því að gerast leiðsögumaður.

„Ég er mikið sagnfræðinörd og það fylgir svolítið leikstjórastarfinu að vera góður að stýra eða leiðbeina stórum hópum. Þess vegna var það nokkuð magnað hvernig leiðsagnarstarfið sameinaði þetta tvennt og það er búið að vera æðislegt.“

 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fókus
Fyrir 2 dögum

Einkaspæjari afhjúpar nýja leið hvernig makar fela framhjáhald – Forrit sem er í öllum iPhone símum og vekur engar grunsemdir

Einkaspæjari afhjúpar nýja leið hvernig makar fela framhjáhald – Forrit sem er í öllum iPhone símum og vekur engar grunsemdir
Fókus
Fyrir 2 dögum

Vill að RÚV geri samning við Vesturport

Vill að RÚV geri samning við Vesturport
Fókus
Fyrir 3 dögum

Sérstæð vinátta ræstingakonu og kolkrabba hefur heillað heimsbyggðina

Sérstæð vinátta ræstingakonu og kolkrabba hefur heillað heimsbyggðina
Fókus
Fyrir 3 dögum

Framkvæmdastjórinn í Paradís flytur sig um set

Framkvæmdastjórinn í Paradís flytur sig um set