fbpx
Miðvikudagur 22.janúar 2025
Fókus

„Ég var oft kölluð drusla þegar ég var yngri“

Tómas Valgeirsson
Sunnudaginn 16. febrúar 2020 12:00

Mynd Eyþór Árnason

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

„Það að geta hlegið að ákveðnum veruleika á meðan tekist er á við hann sendir oft sterkari skilaboð og skilur meira eftir sig. Það getur átt til með að vera svolítið þungt ef maður fer alla leið í dramanu, eða það er að minnsta kosti áhættan,“ segir Ólöf Birna Torfadóttir, kvikmyndagerðarkona og mikil áhugamanneskja um þá list að blanda saman alvarleika og hnyttnu gríni sem sækir í ákveðinn sannleika, eins og hún orðar það.

Undanfarin ár hefur Ólöf sankað að sér talsverðri reynslu í sínu fagi eftir að hún lauk námi af handrits- og leikstjórnarbraut Kvikmyndaskóla Íslands árið 2016. Auk þess að hafa gegnt fjölmörgum hlutverkum í ýmsum verkefnum og þar á meðal unnið á tökustað Game of Thrones, stofnaði hún framleiðslufyrirtækið MyrkvaMyndir og vakti jákvæða athygli með stuttmyndunum Millenium lausnir og Síðasta sumar. Hin síðarnefnda var útskriftarverkefni Ólafar og hlaut verðlaun á Los Angeles Independent Film Festival sem fram fór í ágúst 2016. Myndin hlaut verðlaun í flokknum Best Comedy/Dramedy, Foreign.

Síðasta sumar segir frá stúlku sem er aftur flutt heim til foreldra sinna og fær vinnu í kjötvinnslufyrirtæki þar í sveit. „Sú mynd fjallaði um mjög persónulegt tímabil hjá mér, þannig að ég ákvað að gera dramedíu út frá því,“ segir Ólöf.

„Þetta fjallar allt um mjög dramatíska hluti, en allt í kringum það spilast út með svo fáránlegum hætti að það verður fyndið. Það er oft þægilegt að nota húmor til að vekja athygli á einhverju þörfu. Þetta var allt saman mjög fáránlegt en gerðist samt í raun.“

Annt um drusluna

Þessa dagana er Ólöf að leggja lokahönd á sína fyrstu kvikmynd í fullri lengd, sem frumsýnd verður þann þriðja apríl og ber heitið Hvernig á að vera klassa drusla. Þar segir frá tveimur ólíkum vinkonum og uppákomum þeirra þegar þær fara að vinna á sveitabæ yfir sumarið. Kvikmyndin er lauslega byggð á lífi Ólafar og hennar reynslu en hún eyddi sjálf miklum tíma í sveit á yngri árum og segir að henni þyki afskaplega vænt um orðið drusla.

„Ég var oft kölluð drusla þegar ég var yngri, en ekki samt í þeirri meiningu sem við þekkjum flest í dag,“ segir Ólöf. „Þetta fylgdi því meira ef maður mætti eitthvert í smá rifnum fötum, með úfið hár eða var með gat á sokkunum. Þetta var oft notað til að gera lítið úr manni, og er að vissu leyti enn gert í dag. Mér finnst titill þessarar kvikmyndar berjast svolítið gegn því.“

Þegar Ólöf varð eldri var orðið notað í neikvæðri merkingu til að lýsa klæðaburði eða hegðun á unglingsárum og svo hefur þetta orð einnig verið notað þó nokkuð oft til að lýsa bílum hennar.

 

Ólafía og Ólöf

Aðspurð hvaða atvik úr tökum hafi mest staðið upp úr rifjar Ólöf upp daginn þegar hún fékk stjörnuglampa í augun, þegar hún hitti Ólafíu Hrönn Jónsdóttur leikkonu. „Ég komst ekki yfir það hvað mér fannst geggjað að leikstýra Ólafíu Hrönn. En að hitta hana var eitt það vandræðalegasta sem ég man eftir,“ segir Ólöf og bætir við:

„Ég var mjög stressuð að vinna með henni. Þegar hún kemur fer ég og tek á móti henni. Ég kynni mig og segi einfaldlega: „Hæ, ég heiti Ólöf,“ og hún tekur í höndina á mér og segir strax: „Nei.“ Ég gleymi því seint hvað mér brá mikið. Þetta er svolítið merki um húmor hennar, en þetta setti mig alveg úr jafnvægi, verandi svona stressuð fyrir. Eftir þetta var ég eins og algjör kjáni. Hún var samt svo æðisleg og í dagslok náði ég að tengjast henni og fékk þetta móment þar sem við ræddum hlutverkið.“

Þess má geta að Steinunn Ólína Þorsteinsdóttir og Þorsteinn Bachmann fara einnig með hlutverk í kvikmyndinni, en með aðalhlutverkin fara þær Ásta Júlía Elíasdóttir og Ylfa Marín Haraldsdóttir.

 

Mynd Eyþór Árnason

Leiðinleg færibandavinna kveikti neistann

Ólöf segir það hafa skipt miklu máli að hafa jafnt kynjahlutfall á tökuliðinu og fer fögrum orðum um framleiðsluteymið. Kvikmyndin er að mestu tekin upp í Hvalfirði og segir Ólöf að hugmyndin hafi byrjað að gerjast árið 2015, þegar hún – líkt og aðalpersónan í útskriftarverkefninu – vann sjálf við kjötvinnslu. „Ég var þarna í svo ótrúlega leiðinlegri færibandavinnu það sumar og þá hafði ég lítið annað að gera en að festast í hausnum á mér. Þarna var ég að vinna í sérfæðinu og starfið gekk út á að mauka mat allan daginn.“

Sagan varð smám saman til á vinnustaðnum og Ólöf segir að innblásturinn hafi komið frá hennar reynslu, sögum annarra og kostulegri eyðufyllinga. Þá bætir hún við að umfang þessarar fyrstu kvikmyndar hennar í fullri lengd hafi endað á því að verða stærra en vaninn er með frumraunir.

„Þetta varð allt svolítið stórt. Þetta er í rauninni ekki þessi týpíska byrjendamynd, sem hefur tvo leikara og einn tökustað. Við höfðum lítið fjármagn en bjuggum þarna til heilt samfélag yfir þetta sumar og notuðumst við fjölda tökustaða. Þetta hafðist allt á endanum og við fórum svolítið á hörkunni í gegnum allt. Það voru líka allir í teyminu svo opnir og ólmir í að vera með. Ég er mjög þakklát fyrir það.“

Með kvikmyndinni vonast Ólöf til þess að hægt sé að brjóta þá mýtu, ekki síður í augum borgarbarna, að það sé leiðinlegt að vera í sveitinni. Hún hvetur sem flesta til þess að prófa það, að minnsta kosti einu sinni ef ekki reglulega.

 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fókus
Fyrir 3 dögum

14 merki þess að veitingastaðurinn er slæmur

14 merki þess að veitingastaðurinn er slæmur
Fókus
Fyrir 3 dögum

Ragna á von á barni

Ragna á von á barni
Fókus
Fyrir 4 dögum

Vissi að hjónabandið væri dauðadæmt þegar eiginmaðurinn sagði þessi tvö orð í brúðkaupinu

Vissi að hjónabandið væri dauðadæmt þegar eiginmaðurinn sagði þessi tvö orð í brúðkaupinu
Fókus
Fyrir 4 dögum

Taylor Swift sogast inn í stóra Hollywood-dramað – „Ég er Khaleesi og eins og hún þá vill svo til að ég á nokkra dreka“

Taylor Swift sogast inn í stóra Hollywood-dramað – „Ég er Khaleesi og eins og hún þá vill svo til að ég á nokkra dreka“