Lögin sem keppa í Söngvakeppninni voru afhjúpuð um síðustu helgi og kennir þar ýmissa grasa. Svo virðist sem ein kynslóð sé að hverfa úr keppninni og önnur nýrri að taka við. Í þeirri nýju er að finna afkvæmi margra, frægra Íslendinga sem margir hverjir hafa gert það gott í Söngvakeppninni í gegnum tíðina.
Lagahöfundurinn Birgir Steinn Stefánsson er skrifaður fyrir lögunum Dreyma og Klukkan tifar, en það síðara samdi hann meðal annars í félagi við föður sinn, Stefán Hilmarsson. Stefán þarf vart að kynna, enda söng hann einn farsælasta Eurovision-slagara Íslendinga, Draum um Nínu. Elísabet Ormslev flytur lagið Elta þig en móðir hennar er Helga Möller, upprunalega Eurovision-stjarnan. Nína Dagbjört Helgadóttir flytur lagið Ekkó en móðir hennar er engin önnur en söngkonan Rúna Stefánsdóttir.
Ísold Wilberg Antonsdóttir er annar helmingur dúettsins í Klukkan tifar en móðir hennar er listakonan Lína Rut Wilberg, sem hefur notið velgengni víða um heim. Þá má ekki gleyma rapparanum Jóa Pé, Jóhannesi Damian Patrekssyni, sem er í lagahöfundateyminu á bak við Ævintýri. Hann er að sjálfsögðu sonur handboltakappans Patreks Jóhannessonar, eins og oft hefur komið fram, og þar af leiðandi frændi forsetans, Guðna Th. Jóhannessonar.