Tvær leiksýningar Þjóðleikhússins, barnaleikritið Ómar orðabelgur og einleikurinn Velkomin heim, sem betur er sniðinn að unglingum, lögðu af stað í leikferð um landið fyrr í vikunni. Markmið Þjóðleikhússins er að bjóða börnum að upplifa töfra leikhússins, óháð búsetu og efnahag, og því verða fjölmargar boðssýningar á þessi verk um land allt á næstu vikum. Þjóðleikhúsið hefur haft þennan háttinn á með barnasýningar undanfarin ár en nú verður leikrit fyrir unglinga einnig í boði. Það er Gunnar Smári Jóhannesson sem leikur og semur Ómar orðabelg en leikkonan María Thelma Smáradóttir sem flytur einleikinn sinn, Velkomin heim. Verkin verða sýnd á þrjátíu stöðum um allt land og eiga því mikið ferðalag fyrir höndum.