Kvikmyndaframleiðandinn og listakonan Katja Adomeit er stöðugt á höttunum eftir nýjum hugmyndum og ólíkum aðferðum við þróun og framleiðslu, sem gefa nýja og óvænta niðurstöðu. Hún hefur dálæti á þeirri hlið framleiðslunnar sem snýr að sköpun, fjármögnun og leggur sérstaka áherslu á að vinna með ungu kvikmyndagerðarfólki frá öllum heimshornum.
Á Alþjóðlegu kvikmyndahátíðinni í Reykjavík (RIFF) í ár verða sýndar þrjár myndir hennar: The Orphanage, sem keppir í Vitrunum, Team Hurricane og Resin, en framleiðandinn er sérstakur heiðursgestur hátíðarinnar.
Katja er af þýskum ættum og búsett í Danmörku. Hún hefur sérstakt dálæti á þeirri hlið framleiðslunnar sem snýr að sköpun og fjármögnun og hefur það að markmiði að gera listrænar kvikmyndir að afþreyingarefni. Hún er meðal annars þekkt fyrir myndirnar The Weight of Elephants, Loving Pia, The Square og hina marglofuðu Force Majeure, auk fjölda annarra. Árið 2011 stofnaði Katja sitt eigið framleiðslufyrirtæki, Adomeit Film, og segist framleiðandinn ekki framleiða kvikmyndir sem fara eftir hefðbundnum handritsreglum, það sé meira prinsipp en staðreynd.
„Það er mikil þráhyggja hjá mér að koma að kvikmyndagerð með ýmsum óhefðbundnum aðferðum til þess að úr verði óhefðbundnar og öðruvísi niðurstöður. Ég vil ekki gera sömu kvikmyndirnar aftur og aftur. Aðferðafræði mín gengur út á það að ögra forminu og í raun verkferlum sem eru venjubundnir í kvikmyndagerð, jafnvel ögra kvikmyndasögunni ef svo má að orði komast,“ segir Katja.
„Að fjármagna öðruvísi eða frumleg verkefni getur verið algjör höfuðverkur. Margir hugsa um og notast við aðferðir sem hafa verið til í hundrað ár og sjá ekki mikla ástæðu til að breyta þeim. Fólk er vant ákveðnum verkferlum og dæma fjármögnunaraðilar oft verkefni út frá einhverju sem þeir sjá fyrir í hausnum á sér, en hafa ekki alveg tilfinninguna fyrir því sem við viljum gera. Þetta er barátta á hverjum degi.“
Spenna og áreiti í Mið-Austurlöndunum
Katja segir hvert verkefni vera krefjandi á sinn hátt enda kvikmyndagerð í eðli sínu krefjandi, þar sem vandamál koma upp við hvert horn, og góður framleiðandi sér um að finna réttu lausnirnar. Þá rifjar hún upp reynslu á tökustað sem kenndi henni ýmislegt sem hún mun aldrei gleyma.
„Ég gerði mynd með afgönskum leikstjóra og afgönsku tökuliði. Við skutum myndina í Tadsíkistan vegna þess að það er allt of hættulegt að taka upp í Afganistan. Við þurftum samt að flytja allt liðið yfir talíbanasvæði, þar sem kvikmyndaiðnaður er ekki til. Enginn á svæðinu var vanur tökuliði, þannig að við fengum alls konar leiðindi sem fylgja venjulega ekki starfinu,“ segir hún, en kvikmyndin sem Katja ræðir þar um er The Orphanage. Sú mynd segir frá fimmtán ára gömlum dreng sem býr á götum Kabúl í Afganistan. Fljótlega er hann fluttur á sovéskt munaðarleysingjahæli en á meðan stjórnmálaástandið tekur miklum breytingum í Kabúl neyðast drengurinn og hin börnin til að verja heimili sitt.
Katja segist hafa verið snortin af þessari sögu og hún hikaði ekki við að gerast framleiðandi eftir að hún kynntist leikstýrunni Shahrbanoo Sadat. Sögurnar á bak við tjöldin voru hins vegar miður ánægjulegar. „Við þurftum meðal annars að kljást við rasisma og mikil afskipti lögreglu. Í ofanálag komu þessar hefðbundnu hindranir sem fylgja svona vinnu,“ segir Katja.
„Allt evrópska tökuliðið snerist gegn leikstjóranum og mér, sökum þess að fáir vissu í rauninni hvað við vorum að gera. Enginn vissi hvað var að gerast. Í kjölfarið á þessu varð mórallinn afar dapurlegur. Tökuliðið áleit mig vera slæman framleiðanda, fólk hvorki heilsaði né talaði við leikstjórann eftir því sem á leið. Það var mikil spenna á setti og umhverfið og fordómarnir sem við fengum hjálpuðu alls ekki. Svona vandræði eru ekki heillandi á neinn veg, en þau eru nauðsynleg til þess að hægt sé að koma verki til skila.“
Bíóið í útrýmingarhættu
Katja veltir fyrir sér framtíð kvikmyndaformsins og bíóupplifunar eins og hún leggur sig, hvort yngri áhorfendur séu almennt farnir að sýna þeirri athöfn minni áhuga; að setjast í opinn sal og njóta góðrar kvikmyndaupplifunar með ókunnugu fólki.
„Hvernig getum við fengið áhorfendur til að horfa aftur á öðruvísi bíómyndir í kvikmyndahúsum frekar en bandarískt afþreyingarefni? Hefur eitthvað upp á sig að reyna? Ættum við frekar að hugsa út fyrir þann ramma og finna nýjar leið til að gefa út listrænar kvikmyndir?“ spyr framleiðandinn og segir það ljóst að ungmenni séu ólíklegri til að njóta listrænna mynda, eða kvikmynda almennt í bíósal og kjósi frekar spjaldtölvur, síma og streymisveitur. „Þegar ég fer í kvikmyndahús vil ég vera flutt í annan heim og skemmta mér. Heima í stofu sækist ég meira í sjónvarp,“ segir Katja.
„Svo er spurning með verðið í bíó. Það gæti verið til of mikils mælst ef unglingar eru stöðugt að velja á milli þess sem er í kvikmyndahúsum, þannig að eðlilega er samkeppnin mikil, en sem betur fer hefur verið að opnast góður flötur fyrir stærra efni með öðrum leiðum, til dæmis streymisveitum. Það vantar svo sannarlega ekki úrvalið af efni sem er í boði, heldur snýst þetta meira um hvar á að leita.“
Danskan breytti öllu
Hvernig varð kvikmyndagerðin fyrst fyrir valinu?
„Ég ætlaði mér í raun aldrei að verða kvikmyndagerðarkona, og þaðan af síður framleiðandi, en fagið valdi mig og áætlanirnar stækkuðu og stækkuðu,“ svarar Katja og bætir við að hún hafi upphaflega nánast slysast inn í starf framleiðanda.
„Þegar ég bjó í Berlín á yngri árum vann ég sem aðstoðarmaður framleiðenda fyrir fyrirtæki sem reyndar kom illa fram við mig, en kenndi mér margt. Svo flutti ég til Nýja-Sjálands til að komast burt frá því og komst að því að ég var skyndilega farin að finna fyrir fráhvörfum frá þessum bransa. Þá ákvað ég að sækja um alls konar stöður og eina fyrirtækið sem sýndi mér áhuga var danska framleiðslufyrirtækið Zentropa. Einu fyrirmælin sem ég fékk þar voru: „Lærðu dönsku og þá færðu vinnu.“ Þá lagði ég áherslu á það næstu þrjá mánuði að læra dönsku og fékk stöðu sem aðstoðarmaður. Hægt og rólega fór ég að framleiða stuttmyndir í frítíma mínum og þá small allt framhaldið saman. Þegar ég byrjaði langaði mig til að gera listrænar myndir, þessar sem færu inn á þessar klassísku kvikmyndahátíðir – Toronto, Berlinale, Cannes, allt svoleiðis. Núna hefur þetta breyst og ég stuðla meira að sýn gefins leikstjóra og markmiðið er að vinna verkefni sem gera listrænar myndir að afþreyingarmyndum, sem er spennandi millivegur. Það besta við mína vinnu er annars vegar að veita ráðgjöf og hins vegar innblástur,“ segir hún.
Ísland, hestar og loftslagsmál næst á dagskrá
Um þessar mundir vinnur Katja að kvikmynd í fullri lengd sem gerð er fyrir meira fjármagn en hún er vön og fjallar um málefni sem er mikið í umræðunni. Myndin heitir The Dying Branch og situr danska leikstýran Annika Berg við stjórnvölinn, en þær Katja unnu áður saman við Team Hurricane. Að sögn framleiðandans er þetta kvikmynd sem sýnir hvernig mannfólk er verk náttúrunnar og snýr myndin að loftslagsmálsmálum. „Þetta er mynd sem sýnir hvernig náttúran berst alltaf á móti á meðan manneskjan verður alltaf fyrr til að deyja út.“
Fyrir utan að hafa unnið mikið í Danmörku og Þýskalandi hefur framleiðandinn starfað meðal annars í Frakklandi, Rússlandi, Þýskalandi, Bandaríkjunum, Úkraínu og á Nýja-Sjálandi. Það fylgir starfinu að ferðast víða og er hún öllu vön í slíku, en Katja segir, án þess að hugsa sig um, að Ísland sé á meðal allra uppáhaldsstaða hennar í heiminum. Segist hún þó vera hlutdræg sökum þess að hún sé mikil hestamanneskja en hún á sjálf tvo íslenska hesta.
Um það sem heilli hana mest og sé aðalástæða þess að hún ákvað nýverið að framlengja heimsókn sína umfram RIFF-hátíðina, segir Katja: „Ég ferðaðist eitt sinn hringveginn og hafði sjaldan upplifað náttúru í hreinni mynd. Auk þess dýrka ég birtuna og litina. Ferðin þá var hin dásamlegasta; róin og kyrrðin var svo mikil og ég fann fyrir miklum mun á sjálfri mér eftir ferðina, bæði líkamlega og andlega. Ég myndi aftur á móti ekki taka mig vel út um miðjan hávetur þegar birtan öll farin.“