Blaðakona mælti sér mót við Iðunni Björk Ragnarsdóttur á litlu kaffihúsi í hjarta Hafnarfjarðar. Iðunn hefur búið í Hafnarfirði síðan hún var sjö ára gömul og vill hvergi annars staðar vera. Iðunn er ung, einstæð móðir sem er um þessar mundir að klára fæðingarorlof sitt. Eftir að hafa pantað okkur rjúkandi heita kaffibolla setjumst við niður á efri hæð kaffihússins þar sem Iðunn talar á einlægan hátt um reynslu sína og áföll sem mörg hver hefðu getað bugað hana endanlega.
„Ég prófaði fyrst að drekka áfengi þegar ég var fjórtán ára gömul og ég reykti fyrst gras þegar ég var fimmtán ára. Ég man að fyrir mér var þetta rosalega spennandi. Ég velti því aldrei fyrir mér hvort þetta gæti endað illa, heldur var ég bara rosalega spennt,“ segir Iðunn yfirveguð.
Þrátt fyrir að fikt Iðunnar með áfengi og vímuefni á táningsaldri hafi ekki leitt til alvarlegrar neyslu strax þá markaði það aðeins upphafið á því sem koma skyldi.
Sextán ára gömul greindist Iðunn með eitlakrabbamein og hófst þá barátta hennar upp á líf og dauða fyrir alvöru.
„Það voru 75 prósent líkur á að læknast og fór ég í gegnum hefðbundna krabbameinsmeðferð. Missti allt hárið, fór á stera og fékk svokallað „moonface“. Ég þurfti svo að fara í gegnum heilmikla lyfjameðferð og í kjölfarið geislameðferð, aðeins sextán ára gömul. Ég læknaðist af krabbameininu eftir þetta allt saman, en eftir að meðferðinni lauk fékk ég enga fræðslu um framhaldið. Hvorki ég né fjölskyldan mín áttaði sig á að ég væri ekki búin að ná fullri heilsu. Hugmyndin í hausnum á mér var sú að ég myndi klára þessa krabbameinsmeðferð og halda svo áfram með líf mitt. Á haustönn árið 2011 byrjaði ég því í skóla og hljóp í raun beint á vegg.“
Skólagangan reyndist Iðunni erfið og þau einföldu verkefni að mæta í skólann og sitja tíma í fjörutíu mínútur í senn urðu henni óyfirstíganleg.
„Þarna stóð ég allt í einu frammi fyrir því að allt það sem ég hafði áður getað gert varð mér ofviða. Ég hafði ekki fengið neinar upplýsingar um það að ég þyrfti einhvers konar líkamlega og andlega endurhæfingu og fljótlega fór ég að þróa með mér svakalegan kvíða og varð alveg ofboðslega þunglynd. Ég reyndi með hjálp fjölskyldu minnar að halda áfram í þrjú til fjögur ár. Ég þvældist á milli skóla, skipti um námsbrautir, fækkaði fögum, gekk til geðlæknis, sálfræðinga, prófaði mismunandi þunglyndislyf og reyndi margs konar störf sem ég missti svo. Þetta þróaðist út í það að ég fór að drekka rosalega mikið.“
Frá því að Iðunn kláraði krabbameinsmeðferðina sautján ára gömul gekk líf hennar illa og eyddi hún meira og minna öllum dögum sofandi. Þegar hún var orðin tvítug var vanlíðan hennar orðin gífurleg og hún fór fljótlega að misnota áfengi til þess að deyfa hana.
„Ég gat ekki sinnt neinu, gat ekki sinnt sjálfri mér né vinum mínum og ég glímdi við miklar geðsveiflur. Ég var alltaf að halda í vonina um að ég gæti haldið áfram, að ég gæti komist af stað. Ég upplifði mikla sorg og reiði af því að ég var þarna, búin að læknast af krabbameini, búin að horfast í augu við dauðann og ég átti að vera alveg ótrúlega glöð, lifa lífinu. En ég var ekki glöð og þess vegna var ég svo reið. Á þessum tímapunkti heyrði ég í fyrsta skiptið um endurhæfingu.“
Iðunn hafði aldrei vitað hvað endurhæfing snerist um, eða að slíkt fyrirbæri væri til. Hún fékk leyfi til þess að mæta til sálfræðings í mat en þegar loksins kom að tímanum var það orðið of seint.
„Ég drakk rosalega mikið og eitt skiptið endaði ég í partíi þar sem verið var að taka kókaín. Ég sat bara þarna og horfði á þetta efni og fór að verða forvitin. Mér var boðið að fá mér og fyrst hugaði ég með mér að ég ætti að sleppa því, en ég ákvað svo að prófa. Mér fannst þetta geðveikt. Það var eins og himnarnir hefðu opnast. Þetta var öðruvísi og þetta var frábært. Í heila viku eftir þetta þá var ég með þráhyggju. Ég vissi að helgina eftir þá þyrfti ég að redda mér meiru. Ég bara ætlaði.“
Áður en langt um leið hafði neysla Iðunnar stigmagnast og hún ákvað að flytja úr foreldrahúsum.
„Það var allt komið í klessu hjá mér. Ég var farin að springa á foreldra mína, var með læti og reifst við þau út af engu. Ég ákvað því að flytja út með vini mínum, til Reykjavíkur. Þá byrjaði þetta allt fyrir alvöru. Ég fór að sofa alla vikuna og djammaði svo í þrjá daga hverja helgi. Þarna voru engir foreldrar, ekkert eftirlit. Ég var tvítug og það var enginn að fylgjast með því hvort eða hvenær ég kæmi heim og enginn að böggast í mér. Ég djammaði hverja einustu helgi og var alltaf með eftirpartí. Við notuðum rosalega mikið af eiturlyfjum, alveg rosalega mikið. Það tók mig eitt og hálft ár frá því að ég byrjaði að drekka óhóflega þar til ég var komin á vökuna. Vinur minn flutti út frá mér og ég var orðin rosalega veik í hausnum og neyslan orðin mjög mikil. Ég var kannski vakandi í þrjá til fjóra daga og svaf svo í þrjá til fjóra daga á móti. Svo byrjaði ég bara aftur. Þetta var löngu hætt að vera djamm, ég var löngu hætt að fara niður í bæ. Ég reddaði mér efnum, fór eitthvert, var einhvers staðar heldópuð og fór svo heim.“
Það var Iðunni til happs að þegar hér var komið sögu eignaðist hún kærasta sem einnig var í neyslu. Hann hafði notað fíkniefni frá fimmtán ára aldri og vissi nákvæmlega hvað var að koma fyrir Iðunni.
„Ég er mjög þakklát fyrir hann vegna þess að hann passaði vel upp á mig og sá til þess að ég væri ekki að taka of stóra skammta. Ég var alveg farin þarna, ég var gjörsamlega stjórnlaus og neysla mín snerist aðeins um sjálfseyðingarhvöt. Mér leið svo ótrúlega illa að mig langaði bara til þess að losna undan sjálfri mér. Mig langaði að fara og mér var í rauninni orðið alveg sama hvort ég myndi deyja eða lifa. Ég var búin að gefast upp. Þetta var árið 2015 og ég var þarna búin að berjast í fimm ár fyrir því að halda lífinu, halda geðheilsunni og að reyna að gera eitthvað. Það gekk aldrei neitt upp. Ég klessti á endalausa veggi og ég var föst. Í neyslunni fann ég kvikk fix og fann að ég hafði þarna vökva sem lagaði mig á núll einni og auðvitað ætlaði ég bara að vera þar. Þetta er það sem gerist, maður gefst upp, meikar þetta ekki og fer að nota. Þangað til að það virkar ekki lengur.“
Líf Iðunnar var farið að snúast eingöngu um næsta skammt og áður en hún vissi af hafði hún misst heimili sitt og hún var á götunni með bakpoka sem innihélt allar hennar eigur.
„Ég var mikið heima hjá fyrrverandi kærasta mínum, en það var ekki alltaf í boði og þegar ég var ekki þar þá vonaðist ég til þess að mega hanga heima hjá vinum mínum. Ef ekki, þá vorum við kannski á einhverju flakki, að redda efnum og finna stað þar sem maður gat verið dópaður. Vonaði að það væri eitthvert partí sem maður gat verið í. Svo allt í einu stóð maður einn, vinir manns dauðir eða búið að henda manni út. Þá stóð ég og hugsaði með mér hvert ég ætti að fara. Þetta var ótrúlega vond tilfinning, að vita að ég ætti hvergi heima. Ég gat hvergi verið og það vildi enginn hafa mig, sem er skiljanlegt. Hver vill hafa dópista heima hjá sér í marga daga. Ég endaði því oft á flakki með draslið mitt í tösku, öll fötin mín skítug og ég skítug. Það er óhugnanlegt að hugsa um þessa tíma í dag, vegna þess að ég gat ekki einu sinni séð um sjálfa mig. Þegar ég bjó í íbúðinni minni þá var alltaf drasl, aldrei vaskað upp, eldhúsið var ógeðslegt, herbergið mitt var ógeðslegt og ég fór í alvörunni ekki einu sinni í sturtu. Þetta var svakalega slæmt.“
Fjölskylda Iðunnar reyndi hvað hún gat til að koma vitinu fyrir hana, bað hana um að fara í meðferð og takast á við fíknina. Vanlíðan Iðunnar var gríðarleg og hún tók þá ákvörðun að flytja heim til foreldra sinna og reyna að verða edrú.
„Ég fór inn á Teig, sem er svona eins og göngudeildarmeðferð, og strax fyrstu vikuna var ég í rauninni fallin. Ég byrjaði að tala við fyrrverandi kærasta minn og við fengum okkur bjór saman. Allt í einu var ég hætt að mæta heim, fjölskyldan farin að leita að mér og ég missti öll tök. Ég ákvað að fara inn á Vog og ég man að kvöldið áður þá hugsaði ég með mér að ég ætlaði að kveðja bjórinn. Tók vinkonu mína með mér og ætlaði að fá mér einn. Þegar ég kláraði bjórinn minn var vinkona mín rétt byrjuð á sínum og ég fékk mér annan. Kvöldið endaði svo á því að ég drakk fimm bjóra og eina ástæðan fyrir því að ég fór heim var sú að klukkan var orðin eitt og það var búið að loka. Þarna sá ég svo skýrt að ég hafði enga stjórn.“
Á Vogi leið Iðunni ekki vel. Þar dvaldi hún í tíu daga og þrátt fyrir að hún viti að meðferð þeirra hafi hjálpað mörgum þá hentaði hún henni illa.
„Þetta var virkilega erfitt, sérstaklega fyrir manneskju með tvíþættan vanda. Ég var að takast á við kvíðaröskun, þunglyndi og fíknisjúkdóminn líka. Þarna fór ég inn í aðstæður og átti að fara að sinna einhverju prógrammi. En ég kunni ekki einu sinni að vera edrú. Þarna voru konur og karlar saman og ég var afar auðvelt skotmark. Margir karlmenn eltu mig uppi og voru mikið ofan í mér og ég þurfti stundum að biðja aðrar stelpur, sem voru meiri hörkutól en ég, um að biðja þá um að labba í burtu. Þetta var mikið áreiti og slæmt umhverfi fyrir manneskju eins og mig. Þetta ýtti undir alkóhólíska hegðun mína, þar sem ég hélt að ég væri „one of a kind“, það væri ekki hægt að lækna mig. Enn ein sjúkdómsgreiningin í bankann, ég var ómöguleg og ég gat þetta ekki. Þetta var á „lúppu“ í hausnum á mér og fyrst ég gat ekki verið í lagi þegar ég var ekki að nota, af hverju ætti ég þá að geta það eftir að ég hafði verið í neyslu? Búin að setja alls konar reynslu inn í upplifunarbankann. Miklu verri fortíð sem ég þurfti að fara að takast á við til þess að verða edrú.“
Eftir að Iðunn kláraði meðferð sína á Vogi fór hún í áframhaldandi meðferð á Vík, en eftir vikudvöl þar gekk hún út.
„Fjölskylda mín vildi ekki taka við mér af því að ég lauk ekki við meðferðina, sem hafði verið skilyrði þeirra. Ég fór beint aftur í neyslu og við tók þriggja vikna e-pillu blakkát. Ég man eiginlega ekkert eftir þessu og vissi ekkert hvort ég myndi enda í gröfinni. Eftir þetta fór ég aftur inn á Vog og sótti um á Krýsuvík.“
Á meðan Iðunn beið eftir plássi á Krýsuvík tókst henni að halda sér edrú í einn og hálfan mánuð áður en hún féll aftur.
„Ég var farin að iða, ég hafði enga lausn og fór því bara og datt í það. Fékk svo pláss á Krýsuvík og var þar í sex daga, þá gat ég ekki meira og fór. Ég var ekki tilbúin í sex mánaða meðferð en ég held samt að Krýsuvík sé frábær staður til þess að vera á. Eftir Krýsuvík tóku við sjö mánuðir í neyslu. Mjög mikilli neyslu, svona túra neyslu. Þá var ég að í þrjá til fjóra daga og svaf svo í tvo til þrjá. Þá tók við volæði, kvíðaköst og þunglyndi þar til ég kom mér aftur af stað í neysluna. Eftir þessa sjö mánuði var ég alveg búin. Þetta tekur svo á, það er „hardcore“ vinna að vera í neyslu. Þetta er ekki neitt djók og hausinn á þér er alltaf að. Þú ert ekki bara að bregðast sjálfri þér, heldur ert þú að bregðast fjölskyldu þinni, samfélaginu og öllu. Það hata þig allir fyrir þetta.“
Eftir sjö mánaða neyslu fór Iðunn í fyrsta skiptið inn á deild 33a á Landspítalanum, fíknigeðdeild. Þar dvaldi hún í níu daga sem reyndist henni vel.
„Ég fékk rými til þess að anda, það voru miklu færri einstaklingar inni og þetta var allavega deildin fyrir mig og mínar greiningar. Ég fór svo aftur á Teig og massaði þá meðferð, mætti á hverjum einasta degi og leið meiriháttar vel. Ég sótti um í endurhæfingu hjá Virk og þurfti að bíða í um tvo mánuði eftir viðtali. Sá tími gerði mér ekki gott og ég varð ofboðslega þunglynd. Ég hafði ekkert fyrir stafni og engan til þess að leiðbeina mér. Þegar ég loksins fékk sálfræðiviðtal hjá Virk þá var ég orðin afar veik aftur. Ég var orðin hrædd við að detta í það og mig langaði að vera edrú. Ég þorði ekki að fara út úr húsi, til dæmis að hitta vinkonur mínar, því ég var viss um að ég myndi biðja þær að skutla mér eitthvert þar sem var dóp var að hafa. Ég var orðin virkilega hrædd við sjálfa mig. Ég fór í sálfræðiviðtal hjá Virk, en fékk í kjölfarið neitun á endurhæfingu. Það var slæmur skellur og ég datt í það.“
Þrír mánuðir liðu og neysla Iðunnar var orðin svo slæm að lyfin sem hún innbyrti voru hætt að gera eitthvað fyrir hana.
„Ef ég var undir áhrifum þá var ég í blakkáti. Ég var ekkert að njóta, ég var aldrei að nota til þess að mér liði vel. Ég var annaðhvort í blakkáti eða fráhvörfum og þetta var virkilega ógeðslegur tími. Ég var heimilislaus, enginn vildi hafa mig og ég kunni þetta ekki. Ég vissi ekkert hvað ég var að gera og ég hafði engin ráð. Ég kunni ekki að vera partur af þessum heimi. Í lok þessarar neyslu endaði ég í fangaklefa í þriðja skiptið þar sem ég lá inni í nítján klukkustundir eftir að ég hafði ráðist á lögreglukonu. Eftir að mér var hleypt út hringdi ég í afa minn og sagði við hann að ég gæti ekki meira. Ég fór niður á fíknigeðdeild, en þau vildu ekki taka við mér. Mig langaði að vera edrú, en ég var rosalega skemmd. Nokkrum dögum seinna fór afi með mig aftur á fíknigeðdeildina og sagði við þau að það yrði að leggja mig inn, og það var gert.“
Fram til þessa hafði Iðunn ávallt hlustað á öll læknisráð þrátt fyrir að ekkert hefði gengið upp hjá henni. Inni á fíknigeðdeildinni hitti hún sama geðlækni og áður og hann sagði henni að nú yrði hún að takast á við hlutina.
„Ég tók brjálæðiskast á lækninn, sem ég hafði aldrei gert áður. Þarna var ég búin að reyna að hlýða öllu og öllum, en ekkert breyttist. Hann gaf mér þá lyf sem bjargaði lífi mínu. Ég hafði upplifað verki og óeirð í líkamanum í mörg ár án þess að vita af því, þetta var bara orðið eðlilegt ástand hjá mér. En allt í einu slokknaði á þessu. Ég hafði oft kvartað yfir því að eitthvað væri að og að þetta væri ekki venjulegt ástand á líkama mínum og mér eftir krabbameinsmeðferðina, en það var ekki hlustað á mig. Þegar ég fékk lyfin hætti hausinn á mér að þeytivinda allt fram og til baka og ég er alveg viss um að krabbameinslyfin höfðu gríðarleg áhrif á allt kerfið. Við vitum í rauninni ekkert hvaða áhrif þau hafa á heilann og efnaskipti í heilanum. Ég er alveg viss um að það það hafi orðið einhverjar skemmdir á serótónín- og dópamínframleiðslu hjá mér.“
Þegar Iðunn gekk út af 33a fór hún í fyrsta skiptið í fullt prógramm hjá 12 spora samtökum. Hún mætti á fund á hverjum einasta degi í sex mánuði og fékk sér sponsor.
„Þetta bjargaði lífi mínu. Þessi samtök eru frábær af því að það er svo margt fólk sem kemur út úr meðferð og hvað svo? Hvað á það svo að gera? Þarna fékk ég stuðning, umhyggju og umburðarlyndi. Það er þessi jafningjastuðningur sem skiptir svo miklu máli – að geta speglað hegðun sína í einhverjum öðrum. Einnig fór ég í endurhæfingu á endurhæfingargeðdeild Klepps.“
Í dag er Iðunn búin að vera edrú í 23 mánuði, hefur eignast dóttur og sinnir lífi þeirra mæðgna af alúð.
„En þetta er ekkert djók, það þarf heilmikinn kjark til að verða edrú. Þeir fíklar sem ég hitti og umgekkst eru manneskjur sem hafa orðið fyrir mörgum áföllum, og þá sérstaklega í æsku. Hafa gengið í gegnum allt of mikið. Það er ástæða fyrir því að allir fíklar fá sér. Það er ekki bara vegna þess að það sé svo gaman að reykja gras. Það er einhver grunnur að þessu, þetta er flótti. Þetta er svo auðveld leið til þess að deyfa sig, vera á flótta, komast burt frá sjálfum sér og því sem er í gangi. Þegar maður er síðan kominn í neysluna er maður svo fastur, að maður er tilbúinn til þess að gera hvað sem er af því að maður getur ekki tekist á við það að verða edrú. Ég var í alvörunni tilbúin til þess að gera hvað sem er og var þar af leiðandi að bæta í áfallabankann. Ég var að búa til áföll í þeim aðstæðum sem ég vildi óska að ég hefði aldrei þurft að vera í. Í lokin af minni neyslu var þetta bara þörf. Ég þurfti efnin, ég gat ekki lifað nema fá þau. Þannig að þegar fíkill ætlar sér að verða edrú, þá er hann ekki bara að takast á við æskuna og mögulega einhver áföll sem hann gekk í gegnum þá, heldur er hann líka að takast á við allt neyslutímabilið. Svo verður fíkillinn edrú og þá fer hann að upplifa að hann man kannski ekki eftir mörgum vikum hingað og þangað.
Þá vakna upp spurningarnar: Hvar var ég, hvað kom fyrir mig, hvað gerði ég? Með hverjum var ég, í hvaða bíl var ég, með hvaða fólki og hver var að keyra? Ég man eftir einum sófa sem ég sat í og að hafa hlustað á ákveðið lag með ákveðinni manneskju. Hvar hitti ég hana, hvert fór hún síðan og af hverju er hún ekki hér? Þetta er ákveðið áfall líka. Af því að þegar þú ert í neyslu og undir áhrifum allan tímann, þá ert þú ekki að vinna úr upplýsingunum sem eru í gangi hjá þér. Þú ert ekkert að vinna úr því sem er að gerast í kringum þig. Þess vegna skil ég svo vel að sumt fólk verði aldrei edrú eða jafnvel láti lífið í neyslu, vegna þess að þetta er ofboðslega erfitt. Það er alveg magnað þegar fólk nær að verða edrú. Fíklar eru fólk sem þarf fyrst og fremst aðstoð og umhyggju. Það er það eina sem við erum að leita að í þessu lífi, ást og umhyggja. Það er ekki mikið af því í neysluheiminum. Svo er svo erfitt að ætla að kenna fíklinum um ástand hans, vegna þess að hann gat bara ekki annað. Ég hugsaði til dæmis aldrei að núna skyldi ég sko hefna mín á öllum eða að mig langaði til þess að vera vond við fjölskyldu mína. Ég gat bara ekki verið edrú svo ég fór bara á „autopilot“. Öll ljós kveikt, en enginn heima.“
Þegar Iðunn hafði náð að vera edrú í fimm mánuði komst hún að því að hún gengi með barn. Bæði hamingja og hræðsla helltist yfir hana, en var hún staðráðin í að þeirri gjöf skyldi hún taka opnum örmum.
„Í dag hugsa ég um tvo einstaklinga. Mig og dóttur mína. Hún er gjöf, birtan í lífi mínu. Hún er verkefni sem ég sinni og ég held að hún hafi haldið mér gangandi í gegnum þetta allt saman. Þetta er rosalega óraunverulegt. Ég var alveg viss um að ég myndi deyja úr ofneyslu. Ég var korter í það að sprauta mig og fór yfir í það að eiga heilbrigt, fallegt og gott líf. Ég vakna á morgnana og næ að sinna öllu. Það var mikil vinna að komast hingað en ég gerði þetta. Ég gerði þetta í hænuskrefum og mér er sama þótt það taki mig þrjá mánuði eða þrjú ár í endurhæfingu, af því að mér skal takast þetta, ég ætla mér það. Ég þurfti að fara alveg til baka til upphafsins vegna þess að kröfurnar sem ég hafði lagt á sjálfa mig voru ruglaðar, það var allt eða ekkert. En í dag þá minni ég mig á það að vera stolt af því sem ég er að gera, öllum litlu hlutunum. Þannig er ég búin að byggja sjálfa mig upp á nýtt. Auðvitað getur álag eins og það að eignast barn orðið fíkli að falli og hefur oft gert það. En þegar ég varð edrú þá var ég svo innilega tilbúin til þess að takast á við sjálfa mig og gera þetta. Ég vissi hvað ég þyrfti að gera og lagði góðan grunn að edrúmennskunni. Mér finnst æðislegt að vera móðir og ég er svo þakklát fyrir dóttur mína. Ég ætlaði mér aldrei að eignast börn og mér líður í alvöru eins og hún sé gjöf; mér hafi verið hún gefin. Áður en ég fékk jákvætt óléttupróf þá vissi ég að ég væri ólétt og ég vissi strax að ég vildi eiga hana. Hún er mín hvatning í lífinu.“
Allir þeir erfiðleikar sem Iðunn hefur gengið í gegnum í lífinu hafa mótað hana sem manneskju og í dag má greinilega sjá hamingjusama unga móður sem leggur hart að sér.
„Þetta er hægt og með aðstoð getur hvaða fíkill orðið edrú. Lykillinn er að gefast ekki upp og halda áfram að prófa leiðir sem eru í boði. Þetta tók mig margar tilraunir en á endanum tókst mér þetta með mikilli hjálp frá bæði fjölskyldu og fagaðilum. Það er alltaf von.“