Hið árlega og vinsæla sundlaugarbíó RIFF sem alltaf hefur verið uppselt á fer fram í Sundhöllinni í Reykjavík þann 28. september. Á boðstólum verður The Host (Skrímslið, frá 2006), hin stórfræga skrímslamynd virta suðurkóreska leikstjórans Bong Joon-ho. Kvikmyndinni verður varpað á tjald í gömlu innilauginni, sem verður hituð upp.
Heilmikið havarí verður í öllum krókum og kimum Sundhallarinnar þar sem andrúmsloftið verður tileinkað þessari sérstöku mynd. Fólk getur alveg búist við því að skrímsli troði sér inn í sturtuklefann hjá því, þó aðeins í karlaklefann.
Hinn stórkostlegi suðurkóreski leikstjóri Bong Joon-ho, sem stýrir myndinni, vann aðalverðlaun Cannes-hátíðarinnar í vor með myndinni Parasite og verður sú mynd lokamynd RIFF-hátíðarinnar.
En í Sundbíóinu er ein af fyrri myndum hans sýnd. The Host varð á nokkrum nokkrum mánuðum aðsóknarmesta bíómynd Í Kóreu frá upphafi. Þrettán milljón miðar seldust á myndina frá júlí mánuði og fram í nóvember. Í Suður-Kóreu búa aðeins 50 milljón manns, þannig að ansi stór hluti þjóðarinnar, sem getur hreyft sig, hefur efni á bíómiða, kann að lesa og tala, hefur sjón og heyrn, kann að hugsa og getur fundið kvikmyndahús á kortinu í Samsung símanum sínum hefur keypt miða á myndina. Myndin átti síðan eftir að vinna til margra alþjóðlegra verðlauna.