Eftir að hafa sigrast á eitlakrabbameini sem hún greindist með aðeins sextán ára gömul, féll Iðunn Björk Ragnarsdóttir í heim fíkniefnaneyslu. Í gegnum nokkurra ára neyslutímabil tókst Iðunn á við hvert áfallið á eftir öðru og segir hún mikinn kjark þurfa fyrir fíkla til þess að verða edrú.
Í dag er Iðunn búin að vera edrú í 23 mánuði, hefur eignast dóttur og sinnir lífi þeirra mæðgna af alúð.
„En þetta er ekkert djók, það þarf heilmikinn kjark til að verða edrú. Þeir fíklar sem ég hitti og umgekkst eru manneskjur sem hafa orðið fyrir mörgum áföllum, og þá sérstaklega í æsku. Hafa gengið í gegnum allt of mikið. Það er ástæða fyrir því að allir fíklar fá sér. Það er ekki bara vegna þess að það sé svo gaman að reykja gras. Það er einhver grunnur að þessu, þetta er flótti. Þetta er svo auðveld leið til þess að deyfa sig, vera á flótta, komast burt frá sjálfum sér og því sem er í gangi. Þegar maður er síðan kominn í neysluna er maður svo fastur, að maður er tilbúinn til þess að gera hvað sem er af því að maður getur ekki tekist á við það að verða edrú. Ég var í alvörunni tilbúin til þess að gera hvað sem er og var þar af leiðandi að bæta í áfallabankann. Ég var að búa til áföll í þeim aðstæðum sem ég vildi óska að ég hefði aldrei þurft að vera í. Í lokin af minni neyslu var þetta bara þörf. Ég þurfti efnin, ég gat ekki lifað nema fá þau. Þannig að þegar fíkill ætlar sér að verða edrú, þá er hann ekki bara að takast á við æskuna og mögulega einhver áföll sem hann gekk í gegnum þá, heldur er hann líka að takast á við allt neyslutímabilið. Svo verður fíkillinn edrú og þá fer hann að upplifa að hann man kannski ekki eftir mörgum vikum hingað og þangað.
Þá vakna upp spurningarnar: Hvar var ég, hvað kom fyrir mig, hvað gerði ég? Með hverjum var ég, í hvaða bíl var ég, með hvaða fólki og hver var að keyra? Ég man eftir einum sófa sem ég sat í og að hafa hlustað á ákveðið lag með ákveðinni manneskju. Hvar hitti ég hana, hvert fór hún síðan og af hverju er hún ekki hér? Þetta er ákveðið áfall líka. Af því að þegar þú ert í neyslu og undir áhrifum allan tímann, þá ert þú ekki að vinna úr upplýsingunum sem eru í gangi hjá þér. Þú ert ekkert að vinna úr því sem er að gerast í kringum þig. Þess vegna skil ég svo vel að sumt fólk verði aldrei edrú eða jafnvel láti lífið í neyslu, vegna þess að þetta er ofboðslega erfitt. Það er alveg magnað þegar fólk nær að verða edrú. Fíklar eru fólk sem þarf fyrst og fremst aðstoð og umhyggju. Það er það eina sem við erum að leita að í þessu lífi, ást og umhyggja. Það er ekki mikið af því í neysluheiminum. Svo er svo erfitt að ætla að kenna fíklinum um ástand hans, vegna þess að hann gat bara ekki annað. Ég hugsaði til dæmis aldrei að núna skyldi ég sko hefna mín á öllum eða að mig langaði til þess að vera vond við fjölskyldu mína. Ég gat bara ekki verið edrú svo ég fór bara á „autopilot“. Öll ljós kveikt, en enginn heima.“
Segist Iðunn vel skilja hvers vegna mikið af því fólki sem fallið hefur í heim fíkniefna nái aldrei að snúa blaðinu við aftur. Áföllin séu hreinlega of mörg til þess að geta tekist á við þau. Viðtalið við Iðunni má lesa í heild sinni í nýjasta tölublaði DV.