Undanfarið hefur nokkuð borið á umræðu um erfið rekstrarskilyrði í miðbænum. Verslanir hafa flutt sig um set og veitingastöðum hefur verið lokað. En eigendur nýs gallerýs, Gallery Grásteinn við Skólavörðustíg 4, hafa mikla trú á miðbænum enda má segja að Skólavörðustígurinn sé í senn blómstrandi menningar- og túristagata.
Tíu manna hópur list- og handverkmanna stendur að baki gallerýinu. Í þessu fallega húsi eru til sölu og sýnis keramikverk, skartgripir, trévörur, ljósmyndir, grafík, ullarverk og myndlist – allt eftir meðlimi gallerísins.
Á efri hæð húsins er fallegur og bjartur sýningarsalur sem leigður verður út til sýninga af ýmsum toga. Það er listamaðurinn vinsæli Hjalti Parelius sem ríður á vaðið en ný sýning hans verður opnuð í þessum sal laugardaginn 17. ágúst og svo aftur á Menningarnótt, 24. ágúst, frá kl. 16 til 20. Sýningin mun standa til 30 ágúst en eftir það fer hún til Berlínar.
Hjalti Parelius heldur uppá 10 ára starfsafmæli með þessari opnun í Gallery Grásteini. Þetta er fyrsta einkasýning Hjalta í fjögur ár hér heima, en vegna anna hefur listamaðurinn ekki haft nóg af verkum til þess að halda sýningu þar sem verkin hafa selst jafn óðum.
Allir eru hjartanlega velkomnir í Galllery Grástein.