Allar líkur eru á því að breska leikkonan Lashana Lynch muni taka við dulnefni njósnarans James Bond, 007 í samnefndri mynd sem væntanleg er í kvikmyndahús snemma á næsta ári.
Guardian greindi fyrst frá fréttunum sem leggjast misvel í aðdáendur myndarinnar sem er tuttugasta og fimmta sinnar tegundar. Undanfarnar fimm myndir hefur leikarinn Daniel Craig glætt njósnarann lífi en þegar hér er komið sögu hefur hann sagt af störfum og gefið númerinu sögufræga framhaldslíf í höndum persónu Lynch.
Áður hefur leikkonan leikið lítið hlutverk í þáttunum The Bill en kvikmyndaunnendur kunna jafnframt að hafa séð henni bregða fyrir í kvikmyndinni Fast Girls sem og í ofurhetjumyndinni Captain Marvel.